Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 15:26:23 (3550)

1999-12-20 15:26:23# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er með skýrslu Ágústs H. Bjarnasonar, Flóru og gróður á fyrirhuguðu virkjunarsvæði upp af Fljótsdal í ljósi fyrri kannana. Það sem Ágúst H. Bjarnason ætlaði sér að gera og gerði sumarið 1998 var að leggja mat á þær rannsóknir sem þegar höfðu verið gerðar og bæta við aukarannsóknum. Og hann rannsakaði talsvert veitusvæðin í kringum Grjótá og Hölkná og þær ár sem hv. þm. hefur nú nefnt.

En það stendur á 1. bls. í skýrslu Ágústs H. Bjarnasonar að vegna vatnavaxta hafi hann ekki komist út í Þóriseyjar eða að hraukum og þar er byggt á fyrri athugunum. Þetta er stór hluti af Eyjabakkasvæðinu og hvergi í þessari skýrslu er getið um rannsóknir á gönguleiðinni inn Snæfellsnesið og upp á Háöldu. Í þessari skýrslu er ekki getið um neinar rannsóknir á því svæði. (KPál: Lestu Moggann.) Ég les skýrslu Ágústs H. Bjarnasonar og ég trúi henni betur en Mogganum þó að Morgunblaðið sé gott blað, herra forseti.