Byggðastofnun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:10:51 (3721)

1999-12-21 19:10:51# 125. lþ. 51.5 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:10]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hægt væri að stokka upp í því rannsóknarkerfi og rannsóknastofnanakerfi sem við búum við í dag. Það þýðir ekki að ég telji að flytja þurfi alla rannsóknastarfsemi í landinu suður til Reykjavíkur, það er af og frá. Ég tel að með auknu samstarfi stofnana, með sameiningu stofnana sé hægt að ná fram verulegum sparnaði í rekstri þeirra. Sem iðnrh. hef ég beitt mér fyrir slíku. Ég nefni tvennt.

Í fyrsta lagi hef ég beitt mér fyrir samstarfi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins sem hefur skilað góðum árangri.

Í öðru lagi hef ég beitt mér fyrir því að rannsóknastofnanir landbúnaðarins, RALA, og Iðntæknistofnun hafi unnið meira saman á matvælasviði. Þannig tel ég að hægt sé að auka og þróa það samstarf enn frekar frá því sem nú er. Það þýðir ekki að færa þurfi alla rannsóknastarfsemina á einn stað suður í Reykjavík, en ég held hins vegar að sú rannsóknastarfsemi sem núna er á Keldnaholti sé þar vel fyrir komið. Ég hefði t.d. áhuga á því að Orkustofnun sem staðsett er á Grensásveginum flytti líka á Keldnaholt, en með auknu samstarfi þessara stofnana á mjög mörgum sviðum, sameiningu þeirra, þá tel ég að við eigum að geta náð þeim sparnaði og sá sparnaður á að leiða til þess að fjármunirnir sem við höfum í beinar rannsóknir gætu aukist.

Það verkefni hefur lengi verið á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar að reyna að hrinda í framkvæmd, að ná fram aukinni hagræðingu sem leiddi til þess að fjármunir í rannsóknastarfseminni muni aukast. Menn hafa horft á m.a. hvernig hægt væri að byggja upp rannsóknastarfsemi t.d. á Akureyri. Það er nú að takast. Þannig mætti á fleiri sviðum auka rannsóknastarfsemina úti um land. Akureyri er að mínu mati kjörinn staður í tengslum við háskóla til að styrkja enn frekar rannsóknastarfsemi á mjög mörgum sviðum.

Það hefur hins vegar gengið mjög illa að ná samkomulagi um hvernig standa eigi að slíku samstarfi eða slíkri sameiningu stofnana. Það byrjaði með því að sett var á nefnd til að reyna að komast að niðurstöðu. Sú nefnd komst í raun og veru ekki að neinni niðurstöðu. Það var algert ósætti. Ráðuneytisstjórar þeirra ráðuneyta sem rannsóknastarfseminni tengjast voru fengnir til að gera tillögur. Það leiddi ekki til niðurstöðu. Þess vegna tel ég að menntmrh. hafi stigið hárrétt spor þar sem hann óskaði eftir tillögum frá Rannsóknarráði Íslands eða með öðrum orðum að vinna málið innan frá, vinna málið innan stofnananna til að ná niðurstöðu og það var niðurstaðan að Rannsóknarráði var falið þetta verk, þeir eru núna að koma með tillögur í þeim efnum. Ég tel að rannsóknastarfsemin eigi að heyra undir menntmrn. og það eru engin áform uppi í þeim efnum að vera að sameina þær stofnanir undir iðnrn. Það get ég fullvissað hv. þm. um. Þetta á að heyra undir menntmrn. eins og það gerir í dag.