Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 91  —  91. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um málefni innflytjenda á Íslandi.

Flm.: Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á aðstæðum innflytjenda á Íslandi, einkum með tilliti til kvenna og barna. Safnað verði upplýsingum úr skýrslum og könnunum sem þegar hafa verið gerðar á vegum hins opinbera og annarra aðila og gagna aflað eftir þörfum til að meta á vandaðan hátt stöðu innflytjenda á Íslandi. Markmiðið verði að finna leiðir til þess að tryggja þeim kennslu, aðstoð og félagslega þjónustu þannig að þeir eigi þess kost að vera virkir þátttakendur á jafnréttisgrundvelli í íslensku samfélagi.

Greinargerð.


    Málefni útlendinga sem setjast að á Íslandi heyra undir a.m.k. fjögur ráðuneyti, þ.e. dómsmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Á vegum þessara ráðuneyta, annarra opinberra aðila og ýmissa annarra hefur á undanförnum árum verið leitast við að setja fram hugmyndir um hvernig best yrði komið til móts við þarfir útlendinga sem flytjast hingað til að setjast hér að. Því miður nægir ekki að setja fram góðar hugmyndir. Aðgerða er þörf — fyrr en síðar.
    Hér er valinn sá kostur að nota hugtakið innflytjandi, fremur en nýbúi, um þá sem eru á Íslandi í þeim tilgangi að setjast þar að vegna þess að í hugum margra á hugtakið nýbúi einungis við fólk frá framandi menningarsvæðum. Augljóst er að innflytjendur á Íslandi eru fjölbreyttur hópur og ástæður þess að Ísland hefur valist sem dvalarstaður eru mismunandi. Sem dæmi má nefna að á undanförnum árum hafa komið til Íslands nokkrir hópar erlendra flóttamanna og sest hér að, íslenskt atvinnulíf hefur tímabundið sóst eftir erlendu vinnuafli og Íslendingar hafa gengið í hjónaband með erlendu fólki. Þá getur verið um að ræða fólk sem á fjölskyldu hér fyrir, erlenda foreldra eða erlend börn Íslendinga.
    Sumum þeirra útlendinga sem hér hafa sest að hefur tekist vel að samlagast íslensku samfélagi, þeir hafa sett svip sinn á það, styrkt og auðgað á margvíslegan hátt. Því miður eru þeir þó miklu fleiri sem þurfa sérstakan stuðning þegar þeir setjast að í nýju landi með framandi tungu og ólíka menningu. Ef ekki verður brugðist við og tryggt að innflytjendum sem setjast að á Íslandi verði sérstaklega sinnt og séð til þess að þeir og börn þeirra fái viðunandi kennslu á öllum skólastigum og innan fullorðinsfræðslunnar, tryggt að almennar upplýsingar um íslenskt samfélag, t.d. um heilbrigðis- og tryggingarkerfi, séu tiltækar og búið svo um hnúta að íslenskur vinnumarkaður sé þeim aðgengilegur er hætt við að áður en langt um líður verði ýmis vandamál sem tengjast þessum hópi þjóðfélagsþegna á Íslandi orðin svo yfirgripsmikil og fjölþætt að vart verði við ráðið. Síðast en ekki síst þarf að sjá til þess að innflytjendurnir missi ekki tengsl við eigin menningu og samfélag.
    Í þessari þingsályktunartillögu er sjónum sérstaklega beint að málefnum erlendra kvenna og barna sem búa á Íslandi. Ástæðan er sú að konur eru fjölmennar í hópi innflytjenda á Íslandi og margar þeirra búa við þær aðstæður að eiga erfitt með að leita sér fræðslu og upplýsinga. Í ljós hefur komið að margar erlendar konur sem sest hafa að á Íslandi hafa leitað aðstoðar kvennaathvarfa vegna vandamála sem upp koma í fjölskyldulífi þeirra.
    Börn innflytjenda á Íslandi búa milli tveggja eða jafnvel fleiri menningarheima. Í ljós hefur komið að brottfall þeirra úr skóla er óvenju hátt, mörg þeirra ljúka ekki formlegu grunnskólanámi og aðeins örfá þeirra sem það gera halda áfram námi að loknum grunnskóla. Jafnvel hefur brugðið við að börnin skili sér alls ekki inn í skólakerfið.
    Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að vænlegasta leiðin til að tryggja að vel takist til þegar útlendingar setjast að í framandi samfélagi sé að styðja þá til að viðhalda eigin móðurmáli og menningu og sjá um leið til þess að þeir kynnist grundvallaratriðum hins nýja samfélags, siðum þess og venjum. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar líti í eigin barm, losi sig við fordóma og temji sér virðingu og þolinmæði fyrir annars konar viðhorfum og gildum en þeim sem þeir hafa hingað til vanist. Þannig verður best stuðlað að fjölbreyttara og auðugra samfélagi á Íslandi.
    Brýnustu verkefnin eru að:
          sveitarfélögum verði ætlað sérstakt fjármagn til þess að undirbúa mótttöku innflytjenda og aðstoða þá við að samlagast samfélaginu sem þeir búa í;
          sveitarfélögum verði ætlað sérstakt fjármagn til þess að tryggja að börn innflytjenda á grunnskólaaldri missi ekki af almennri kennslu við hæfi vegna ónógrar íslenskukunnáttu;
          tryggja að í allri grunnþjónustu samfélagsins, svo sem innan heilbrigðiskerfisins, í ungbarnavernd, á vegum félagsmálastofnunar o.s.frv., sé innflytjendum gefinn kostur á túlkun á eigin móðurmál þegar þjónusta er veitt eða eftir henni leitað og að fyrir hendi séu almennar upplýsingar á einföldu máli sem innflytjendur geta nýtt sér.
    Þótt þessi verkefni séu hér talin brýnust eru fjölmörg önnur atriði sem mikilvægt er að takast á við. Þær tillögur sem hér hafa verið nefndar til úrbóta hafa komið fram í mörgum skýrslum og greinargerðum þar sem fjallað hefur verið um málefni innflytjenda á Íslandi. Má þar t.d. nefna nefndarálit um stöðu og þátttöku útlendinga í íslensku samfélagi sem menntamálaráðuneytið gaf út í júní árið 1997. Vandinn er hins vegar að góðar tillögur sem þar og annars staðar koma fram hafa ekki náð fram að ganga. Því er mikilvægt að safnað verði saman upplýsingum og hugmyndum sem þegar liggja fyrir um hvernig betur megi standa að því mikilvæga verkefni að tryggja útlendingum sem velja sér Ísland sem heimaland viðunandi móttökur og aðbúnað.