Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 243  —  209. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Í stað ártalsins „2000“ í fyrri og síðari málslið ákvæðis til bráðabirgða við lögin, sbr. lög nr. 69/1996, kemur: 2001.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar í stað gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að framlengdur verði um eitt ár sá frestur sem aðilar sem stunda inn- og útflutning í atvinnuskyni hafa til að taka upp tölvuvædda tollafgreiðsluhætti.
    Með lögum nr. 69/1996 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á ákvæðum tollalaga. Meðal annars voru lögfest ákvæði um tölvuvædda tollafgreiðslu sem í lögunum er nefnd SMT-toll afgreiðsla. Kveðið var á um að tekin skyldi upp alsjálfvirk tölvuvædd tollafgreiðsla hjá aðilum sem stunda inn- og útflutning í atvinnuskyni og þessum aðilum var gert skylt að senda upplýs ingar í tengslum við inn- og útflutning með skjalasendingum milli tölva (SMT). Í ákvæði til bráðabirgða við lögin var þessum aðilum þó heimilað til 1. janúar 2000 að skila tollskjölum í því formi sem ákveðið var fyrir gildistöku laganna. Þannig var inn- og útflytjendum veittur að lögunartími til 1. janúar 2000 til að taka upp SMT-tollafgreiðslu.
    Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að frestur til að taka upp SMT-tollafgreiðslu verði framlengdur um eitt ár. Meginástæða þess að þessi breyting er lögð til er sú að örar breyt ingar í tölvutækni á undanförnum árum, einkum vegna aukinnar notkunar internetsins, hafa skapað nýja möguleika við tölvuvædda tollafgreiðslu, sem nauðsynlegt þykir að kanna betur. Er þar einkum um að ræða möguleika fyrir lítil fyrirtæki til að taka upp SMT-tollafgreiðslu með aðstoð internetsins með minni tilkostnaði en ella hefði orðið.
    Önnur ástæða þess að breytingin er lögð til er að tímasetning sú sem lögin kveða á um að SMT-tollafgreiðslu skuli komið á, þ.e. 1. janúar 2000, er óheppileg vegna þeirrar óvissu sem ríkir um það hverjar afleiðingar hið svokallaða 2000-vandamál muni hafa á tölvukerfi fyrirtækja og hins opinbera hér á landi.
    Eins og áður segir er lagt til að frestur til að taka upp SMT-tollafgreiðslu verði framlengdur um eitt ár. Er talið að sá tími verði nægilegur fyrir tollyfirvöld til að kanna möguleika á breytt um tollafgreiðsluháttum.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum,
nr. 55/1987, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að tímafrestur inn- og útflytjenda til að taka upp svokallaða SMT-tollafgreiðslu (skjalasendingar á milli tölva) verði framlengdur frá 1. janúar 2000 samkvæmt gildandi lögum til 1. janúar 2001. Í fjárlögum hefur þegar verið gert ráð fyrir kostnaði tollaembætta við smíði og rekstur tölvukerfa í þessu skyni og er ekki talið að frestunin leiði til frekari útgjalda ríkissjóðs svo nokkru nemi.