Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 309  —  117. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir 80 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 2.410,4 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.
    Í breytingartillögu er lögð til tæplega tveggja milljarða króna hækkun á framlögum til sjúkrastofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið og kemur sú fjárhæð til viðbótar tæplega tveimur milljörðum sem þegar hafa verið lagðir til í frumvarpinu. Einnig verður farið fram á svipaða fjárhæð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000, til viðbótar tæplega tveggja milljarða króna aukningu sem þar er til reksturs sjúkrastofnana. Framlögunum er ætlað að koma til móts við áætlaðan uppsafnaðan halla sjúkrastofnana til ársloka 1999 og koma rekstri flestra stofnana á réttan kjöl árið 2000. Ljóst er að stjórnendur nokkurra stofnana þurfa að taka verulega á í fjármálastjórn til að reksturinn verði í jafnvægi.
    Á liðnu vori var orðið ljóst að rekstur sjúkrastofnana stefndi talsvert fram úr fjárlögum þrátt fyrir að gerðar hafi verið ráðstafanir í lok síðasta árs til að greiða uppsafnaðan halla þeirra og leiðrétta rekstrargrunninn. Voru þær aðgerðir í samræmi við álit svonefnds faghóps heilbrigðisráðuneytisins sem um málið fjallaði. Ekki var brugðist við hallarekstrinum á árinu þrátt fyrir skriflega áréttingu heilbrigðisráðuneytisins um nauðsyn þess að stofnanir haldi útgjöldum sínum innan fjárheimilda. Ríkisendurskoðun var á haustdögum fengin til að fara yfir vandann og greina umfang hans fyrir afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga nú í lok ársins.
    Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að rekstrarhalli stofnana hafi verið gerður upp í árslok 1998 en að á þessu ári hafi aftur sigið á ógæfuhliðina og rekstur stofnana farið langt umfram heimildir fjárlaga. Nú er svo komið að uppsafnaður rekstrarhalli stofnana í árslok 1999 er áætlaður tæplega 4,2 milljarðar króna og þar af eru um 3,6 milljarðar vegna halla sem myndast hefur á þessu ári. Skiptist hallinn á launakostnað og önnur rekstrargjöld í svipuðum hlutföllum og þessi gjöld vega í heildarútgjöldum sjúkrastofnana. Meginskýringin á umframútgjöldum á launalið er að útfærsla kjarasamninga í mörgum stofnunum virðist hvorki hafa verið í samræmi við þau fyrirmæli og leiðbeiningar sem gefnar voru út né fyrirliggjandi fjárheimildir.
    Í tillögunum er verulegum viðbótarfjármunum varið til reksturs sjúkrastofnana. Það eru fjármunir sem fara í kostnaðarhækkanir sem þegar eru áfallnar. Ljóst er að bæta má fjármálastjórn stofnana heilbrigðisráðuneytisins og gera hana skilvirkari en hún er nú. Það er mjög brýnt að ná tökum á þeim vanda og leita í því sambandi allra hugsanlegra leiða svo að þessar stofnanir fari að fjárlögum í framtíðinni. Þannig verði einnig tryggt að nýtt fé fari til að ná fram stefnumiðum stjórnvalda en ekki verði um leiðréttingar eftir á að ræða. Framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og að tekið verði á fjármálastjórn stofnana.
    Til að tryggja rétta framkvæmd ákvarðana Alþingis um fjárframlög til stofnana og verkefna verður gert sérstakt átak sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa um með skýrslugerð hvernig fram gengur af hálfu ráðuneytis og stofnana. Áformað er að í samningum við hverja stofnun komi skýrt fram hver fjárframlög eru og að stjórnendur beri ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda. Jafnframt verði erindisbréf stjórnenda endurskoðuð og ábyrgð og eftirlitshlutverk stjórna endurmetið.
    Ríkisendurskoðun mun gefa ráðuneytum og Alþingi skýrslu um framgang málsins á næsta ári. Samhliða verður komið í veg fyrir að stjórnendur stofni til skulda í lánastofnunum og safni upp óeðlilegum viðskiptaskuldum. Gerð verður krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega.
    Kannað verður hvort breyta þurfi lögum um heilbrigðisþjónustu og staða framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda skýrð. Jafnframt verður á næsta ári ráðist í að ákvarða framlög til stofnana með hlutlægum hætti og reiknilíkönum beitt við skiptingu fjárveitinga á stofnanir í fjárlögum árið 2001. Markmiðið verður eins og fram hefur komið að tryggja að stofnanir verði reknar innan fjárheimilda og að stjórnendur beri ábyrgð á sama hátt og í öðrum atvinnurekstri.



SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

620     Ríkisendurskoðun. Gerð er tillaga um 8,8 m.kr. aukafjárveitingu til Ríkisendurskoðunar til að standa straum af útgjöldum sem stofnað var til vegna beiðni ríkisstjórnarinnar um könnun á ólögmætum hugbúnaði í notkun hjá ríkisaðilum. Þar af eru 7 m.kr. vegna kaupa á hugbúnaði og 1,8 m.kr. vegna ýmiss kostnaðar.

         01 Forsætisráðuneyti

101     Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa. Óskað er eftir 2 m.kr. aukafjárveitingu til að endurnýja þjónustubifreið aðalskrifstofunnar.
190     Ýmis verkefni. Alls er farið fram á 21,5 m.kr. hækkun á þessum lið. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 16 m.kr. aukafjárveitingu á viðfangsefninu 1.25 Vesturfarasetrið á Hofsósi en samkvæmt samningi milli forsætisráðuneytisins og Vesturfarasetursins á Hofsósi mun ríkissjóður leggja setrinu til 12 m.kr. á ári í fimm ár, í fyrsta skipti árið 1999, til að byggja upp gamla þorpskjarnann á Hofsósi með það að markmiði að sérhæfa gamla hluta þorpsins til þjónustu og afþreyingar fyrir fólk af íslenskum ættum sem býr í Norður-Ameríku. Einnig er farið fram á 4 m.kr. fjárheimild vegna flotbryggju við setrið. Framlag sem óskað er eftir í fjáraukalögum 1999 vegna þessa nemur því alls 16 m.kr.
             Í öðru lagi er gerð tillaga um 6,5 m.kr. aukafjárveitingu til auðlindanefndar á viðfangsefninu 1.90 Ýmis verkefni. Sýnt þykir að kostnaður við kaup á sérfræðiráðgjöf fyrir nefndina verði meiri en gert hafði verið ráð fyrir í fjáraukalögum 1998 þegar veittar voru 4 m.kr. til verksins. Reiknað er með að nefndin ljúki störfum um næstu áramót.
             Loks er gerð er tillaga um að færa 1 m.kr. sem sértekjur á viðfangsefninu 1.42 Grænlandssjóður undir þessum fjárlagalið. Framlög úr sjóðnum eru fjármögnuð með vaxtatekjum sem í frumvarpinu eru settar fram á tekjuhlið ríkissjóðs en verða eftirleiðis settar fram sem sértekjur á gjaldahlið. Tillagan snýr einungis að breyttri framsetningu á fjármögnun í samræmi við nýleg lög um fjárreiður ríkisins.
902    Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Gert er ráð fyrir að millifæra 32 m.kr. fjárveitingu vegna byggingar þjónustuhúss við Almannagjá af viðfangsefni fyrir viðhaldskostnað á viðfangsefni fyrir stofnkostnað undir þessum fjárlagalið en fjárveiting til verkefnisins verður óbreytt.

02 Menntamálaráðuneyti

210     Háskólinn á Akureyri. Lagt er til að aukafjárveiting til skólans hækki um 27 m.kr. til að koma til móts við fyrirsjáanlegan 20 m.kr. rekstrarhalla árið 1999 og hluta rekstrarhalla frá 1998. Ástæður hallans eru fyrst og fremst launahækkanir til starfsmanna og fjölgun nemenda.
319     Framhaldsskólar, almennt. Óskað er eftir 8 m.kr. framlagi til kennslu vistmanna á stofnunum á vegum Barnaverndarstofu. Breyting verður á kennslu vistmanna eftir að sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 í 18 ár. Sveitarfélög greiða kennslu nemenda á grunnskólaaldri til 16 ára en talið er eðlilegt að ríkissjóður greiði kennslu þeirra sem eru á framhaldsskólaaldri. Gerður hefur verið samningur við Barnaverndarstofu um kennslu þessara nemenda en reiknað er með 20 nemendum og að kostnaður á nemanda verði 500 þús. kr.
983     Ýmis fræðistörf. Gerð er tillaga um 10 m.kr. aukaframlag til að kaupa Íslendingasögur á ensku til að gefa á bókasöfn og stofnanir erlendis í tilefni af afmæli landafunda Leifs Eiríkssonar.

03 Utanríkisráðuneyti

201     Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Sótt er um 15 m.kr. aukafjárveitingu vegna fyrirsjáanlegs rekstrarhalla embættisins á árinu 1999. Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist mikið undanfarin ár án þess að framlög til embættisins hafi aukist að sama skapi. Til að mæta aukinni umferð voru ráðnir tveir nýir starfsmenn. Þá hefur sumarstarfsmönnum verið fjölgað og yfirvinna aukist. Ljóst er að um viðvarandi útgjaldaauka verður að ræða og er gert ráð fyrir sambærilegri hækkun í tillögu við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2000. Með þessari auknu fjármögnun verður rekstur embættisins í jafnvægi í lok þessa árs.

04 Landbúnaðarráðuneyti

261     Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði. Lagt er til að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri fái 10 m.kr. framlag vegna uppsafnaðs rekstrarhalla. Rekstrarhallinn stafar af minnkandi tekjum af búrekstri og launahækkunum í kjölfar aðlögunarsamninga. Jafnframt er lagt til að heiti fjárlagaliðarins 04-261 verði Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði en það var Bændaskólinn á Hvanneyri. Er það í samræmi við lög um búnaðarfræðslu sem tóku gildi í mars sl.
271     Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Lagt er til að heiti fjárlagaliðarins 04-271 verði Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal en það var Bændaskólinn á Hólum. Er það í samræmi við nýleg lög um búnaðarfræðslu sem tóku gildi í mars sl.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

203     Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Sótt er um 19,9 m.kr. fjárveitingu til að mæta rekstrarvanda stofnunarinnar. Nýjar áætlanir gera ráð fyrir að tap ársins 1999 verði á bilinu 23–25 m.kr. Gert er ráð fyrir þessari niðurstöðu þrátt fyrir að stofnunin hafi gripið til aðgerða 1. október sl. sem m.a. fólu í sér uppsagnir á starfsfólki. Þess er vænst að árangur aðgerðanna verði að fullu kominn fram á næsta ári. Þar sem tap áranna 1997 og 1998 var samtals um 14 m.kr. má gera ráð fyrir að uppsafnað tap verði alls um 40 m.kr. í árslok verði ekkert að gert. Stofnunin áætlar að með aukafjárveitingunni og eigin aðgerðum, sem áætlað er að skili 20 m.kr. í hagræðingu, verði vandi stofnunarinnar leystur til frambúðar.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

303     Ríkislögreglustjóri. Lagt er til að veitt verði 8,6 m.kr. viðbótarframlag til embættis ríkislögreglustjóra til að standa undir kostnaði við vinnu fíkniefnastofu, efnahagsbrotadeildar og sérsveitar að rannsókn á tveimur umfangsmiklum fíkniefnamálum. Annars vegar er um að ræða mál þar sem rannsókn hófst á síðasta ári og hins vegar mál sem kom upp í september sl. Kostnaður sem til hefur fallið er vegna rannsóknar á fjármálum þeirra einstaklinga sem málinu tengjast, rannsókn fíkniefnastofu, sem m.a. hefur falist í að lána menn til starfa hjá fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík, og viðbúnaðar sérsveitar. Allnokkur ferðakostnaður hefur fallið til vegna rannsóknar málanna erlendis.
311     Lögreglustjórinn í Reykjavík. Farið er fram á 14,6 m.kr. aukaframlag til embættisins vegna vinnu að rannsókn á tveimur umfangsmiklum fíkniefnamálum. Fyrra málið var unnið að miklu leyti á síðasta ári en var tekið upp aftur í apríl á þessu ári. Málið er enn þá í rannsókn og er talið að heildarkostnaður á þessu ári muni nema um 6,6 m.kr. Kostnaður sem féll til á síðasta ári er hluti af hallarekstri embættisins á því ári og er þar með innifalinn í tillögu í frumvarpinu um að veita fé sem nemur halla í lok síðasta árs. Síðara málið hefur verið í vinnslu síðan í maí. Ekki er enn séð fyrir endann á því en áætlað er að kostnaður geti numið allt að 8 m.kr.
341     Áfengis- og fíkniefnamál. Lagt er til að veittur verði 3,5 m.kr. styrkur til alþjóðlegs forvarnaverkefnis, Pallas Aþena. Markmið verkefnisins er að virkja ungt fólk í baráttunni gegn fíkniefnum á þeirra eigin forsendum. Í fjáraukalögum fyrir árið 1998 var veitt 1,5 m.kr. til verkefnisins.

07 Félagsmálaráðuneyti

704     Málefni fatlaðra, Vestfjörðum. Óskað er eftir að svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vestfjörðum fái 1,2 m.kr. aukafjárveitingu fyrir skammtímavistun sem opnuð var sl. haust í Vesturbyggð vegna brýnnar þarfar.
981     Vinnumál. Farið er fram á 3,3 m.kr. fjárveitingu til að greiða hlut ráðuneytisins í verkefninu „Handverk og hönnun“. Í ágúst sl. skipaði forsætisráðherra nefnd til að fjalla um stuðning stjórnvalda við handverksgreinar. Nefndin hefur lokið störfum og leggur til að verkefni undir nafninu Handverk og hönnun verði haldið áfram á vegum forsætisráðuneytisins með þátttöku félagsmálaráðuneytisins og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Markmið verkefnisins er að stuðla að viðvarandi vexti handverks, að bæta menntun og þekkingu handverksfólks og efla gæðavitund í greininni. Verkefnið var samþykkt í ríkisstjórn í janúar sl. og er því ætlað að standa til fjögurra ára, frá og með árinu 1999. Farið er fram á sömu fjárhæð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi. Gerð er tillaga um að veita Foreldra- og kennarfélagi Öskjuhlíðarskóla 3 m.kr. framlag til rekstrar félagsins á sumardvöl fyrir nemendur skólans, en halli hefur verið á rekstrinum síðustu tvö ár.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

203     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Lögð er til 110 m.kr. lækkun á framlögum á þessum lið og er það í samræmi við endurskoðaða útgjaldaáætlun miðað við fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Í fyrsta lagi er lagt til að framlög til endurhæfingarlífeyris lækki um 30 m.kr., í öðru lagi að framlög til heimilisuppbótar lækki um 50 m.kr. og loks er í þriðja lagi gerð tillaga um að framlög til uppbóta lækki um 30 m.kr.
204     Lífeyristryggingar. Gerð er tillaga um að framlög til tekjutryggingar ellilífeyrisþega lækki um 50 m.kr. og að framlög til fæðingarorlofs lækki um 50 m.kr. í samræmi við endurskoðaða útgjaldaáætlun miðað við fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Alls lækkar þessi liður því um 100 m.kr.
206     Sjúkratryggingar. Á þessum lið er farið fram á 255 m.kr. hækkun fjárveitingar í samræmi við endurskoðaða útgjaldaáætlun miðað við fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Farið er fram á 50 m.kr. hækkun fjárveitingar á viðfangsefninu 1.11 Lækniskostnaður, 120 m.kr. hækkun á 1.15 Lyf, 30 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.21 Hjálpartæki og 85 m.kr. á 1.31 Þjálfun. Loks er lagt til að framlög til brýnnar meðferðar erlendis lækki um 30 m.kr.

        Sjúkrastofnanir.
             Lagt er til að veitt verði tæplega tveggja milljarða króna hækkun á framlögum til sjúkrastofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið vegna áætlunar um uppsafnaðan rekstrarhalla í árslok 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Nánar er fjallað um þetta í inngangi. Eftirfarandi er listi yfir stofnanir og framlag til sérhverrar þeirra. Miðast framlagið við að fjárheimildir verði fyrir öllum rekstrarkostnaði stofnunarinnar og er þar með að fullu mætt útgjaldaauka stofnananna frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum, þ.m.t. vegna áhrifa kjarasamninga, aðlögunarsamninga og úrskurða kjaranefndar sem og hækkana lífeyrisiðgjalda. Framlagið er veitt með með því skilyrði að stjórnendur stofnananna geri samning við heilbrigðisráðuneyti um að rekstur þeirra verði innan fjárheimilda árið 2000 og ákvæði í samningi verði í samræmi við það sem fram kemur um skipan þessara mála í inngangi.

         Stofnun
m.kr.

         368     Sólvangur, Hafnarfirði          28,4
         371     Ríkisspítalar          378,5
         375     Sjúkrahús Reykjavíkur          120,7
         400     St. Jósefsspítali, Hafnarfirði          20,1
         408
     Sunnuhlíð, Kópavogi          15,0
         409     Hjúkrunarheimilið Skjól          1,7
         411     Garðvangur, Garði          10,9
         412     Hjúkrunarheimilið Skógarbær          25,4
         413     Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum          20,0
         415     Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði          3,5
         417     Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn          4,0
         420     Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið          18,1
         421     Víðines          15,7
         431     Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands          8,9
         435     Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða           1,4
         490     Vistun ósakhæfra afbrotamanna          10,1
         496
     Reynslusveitarfélagið Akureyri           11,0
         497     Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði          16,0
         505     Heilsugæsla í Reykjavík          36,4
         510     Heilsuverndarstöðin í Reykjavík          66,7
         522     Heilsugæslustöðin Borgarnesi          4,8
         551     Heilsugæslustöðin Ólafsfirði          8,4
         552     Heilsugæslustöðin Dalvík          3,6
         561     Heilsugæslustöðin Vopnafirði          1,1
         565     Heilsugæslustöðin Eskifirði          1,7
         566     Heilsugæslustöðin Fáskrúðsfirði          3,6
         567     Heilsugæslustöðin Djúpavogi          0,7
         568     Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði          5,4
         574     Heilsugæslustöðin Hvolsvelli          2,1
         575     Heilsugæslustöðin Hellu.          2,1
         578     Heilsugæslustöðin Hveragerði          1,2
         582     Heilsugæslustöðin Hafnarfirði          13,6
         585     Heilsugæslustöðin Seltjarnarnesi          2,6
         711     Heilbrigðisstofnunin Akranesi          60,3
         725     Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ          6,1
         731     Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík          2,4
         735     Heilbrigðisstofnunin Hólmavík          3,6
         741     Heilbrigðisstofnunin Hvammstanga          20,1
         745     Heilbrigðisstofnunin Blönduósi          32,0
         755     Heilbrigðisstofnunin Siglufirði          13,2
         761     Heilbrigðisstofnunin Húsavík          31,6
         765     Heilbrigðisstofnunin Egilsstöðum          32,3
         771     Heilbrigðisstofnunin Seyðisfirði          27,9
         775     Heilbrigðisstofnunin Neskaupstað          104,5
         781     Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum          39,1
         785     Heilbrigðisstofnunin Selfossi          68,2
         791     Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum          129,2

379
     Sjúkrahús, óskipt. Lagt er til að veitt verði 316,6 m.kr. fjárheimild til að bæta rekstrarstöðu sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Framlögum verður ráðstafað í samræmi við nánari skoðun á þeim stofnunum sem falla hér undir. Fyrirhugað er að heilbrigðisráðuneyti ásamt fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun fari nánar yfir fjármál einstakra stofnana. Ráðuneytin munu síðan leggja fyrir fjárlaganefnd skiptingu á framlaginu. Afgangsheimildir á þessum lið verða felldar niður. Í eftirfarandi yfirliti er greint frá hámarksfjárveitingum til einstakra stofnana.

         Stofnun
m.kr.

         400    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði          16,0
         413    Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum          17,6
         510    Heilsuverndarstöðin í Reykjavík          50,1
         524    Heilsugæslustöðin Ólafsvík          2,2
         561    Heilsugæslustöðin Vopnafirði          5,2
         565    Heilsugæslustöðin Eskifirði          7,8
         566    Heilsugæslustöðin Fáskrúðsfirði          16,9
         567    Heilsugæslustöðin Djúpavogi          3,2
         582    Heilsugæslustöðin Hafnarfirði          15,0
         711    Heilbrigðisstofnunin Akranesi          25,0
         761    Heilbrigðisstofnunin Húsavík          10,0
         765    Heilbrigðisstofnunin Egilsstöðum          4,2
         771    Heilbrigðisstofnunin Seyðisfirði          3,7
         775    Heilbrigðisstofnunin Neskaupstað          14,0
         777    Heilbrigðisstofnun Austurlands          55,0
         781    Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum          25,0
         785    Heilbrigðisstofnunin Selfossi          25,0
         791    Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum          35,0
                Óskipt framlag          40,7             
                  Alls              316,6

399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Óskað er eftir 5 m.kr. viðbótarfjárheimild fyrir Krýsuvíkursamtökin en þau hafa tekist á hendur erfiðari verkefni á yfirstandandi ári en hingað til. Fangelsisyfirvöld, félagsmálayfirvöld, svæðiskrifstofa fatlaðra og fleiri aðilar leita í vaxandi mæli úrlausna fyrir skjólstæðinga sína í Krýsuvík.
495     Daggjaldastofnanir. Lagt er til að veitt verði 221,8 m.kr. aukafjárveiting til að bæta rekstrarstöðu hjúkrunarheimila. Framlögum verður ráðstafað í samræmi við nánari skoðun á þeim stofnunum sem falla hér undir. Fyrirhugað er að heilbrigðisráðuneyti ásamt fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun fari nánar yfir fjármál einstakra stofnana. Síðan munu ráðuneytin leggja fyrir fjárlaganefnd skiptingu á framlaginu. Afgangsheimildir á þessum lið verða felldar niður.

09 Fjármálaráðuneyti

381     Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Hér er gerð tillaga um 55 m.kr. fjárveitingu á tveimur nýjum viðfangsefnum undir þessum fjárlagalið. Við breytta framsetningu á fjárlögum fyrir árið 1998 í kjölfar nýrra laga um fjárreiður ríkisins féllu þessar greiðslur út í áætlanagerð um nýja sundurliðun lífeyrisskuldbindinga og -greiðslna. Tillögunni er ætlað að laga fjárheimildir liðarins að endurskoðaðri áætlanagerð í samræmi við breytta framsetningu fjárlaganna. Annars vegar er um 45 m.kr. fjárveitingu að ræða á viðfangsefninu 1.08 Eftirlaun hæstaréttardómara. Hins vegar er tillaga um 10 m.kr. á viðfangsefninu 1.91 Aðrar lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun og er þar einkum um að ræða lífeyrisgreiðslur til ekkna og ekkla og ljósmæðra.
481    Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Gerð er tillaga um 18,2 m.kr. framlag til uppgjörs á skuldum nokkurra lítilla hitaveitna við ríkissjóð. Vorið 1997 skipaði iðnaðarráðherra nefnd um orkukostnað smærri hitaveitna og hvernig mætti leysa úr fjárhagsvanda þeirra. Í framhaldi af þeirri umfjöllun samþykkti Alþingi að veita 3,4 m.kr. framlag í fjáraukalögum ársins 1997 til að bæta stöðu þessara hitaveitna en áður hafði verið veitt 5 m.kr. fjárveiting vegna málsins á árinu 1996. Eftir stóðu þá enn þá talsverðar skuldir hitaveitnanna sem þeim hefur reynst erfitt að greiða. Hér er lagt til að veitt verði framlag í samræmi við lið 8.19 í 7. gr. fjárlaga fyrir árið 1999 þar sem kveðið er á um að fjármálaráðherra sé heimilt að semja um lokauppgjör á skuldum lítilla hitaveitna við ríkissjóðs.

10 Samgönguráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Óskað er eftir 22 m.kr. aukafjárveitingu til lokauppgjörs á skuldum Djúpbátsins hf. Fjárveitingin er háð þeim skilyrðum að rekstri ferjunnar Fagranessins verði hætt. Ferjan verður varaferja fyrir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf og Breiðafjarðarferjuna Baldur. Fyrirhugað er að Fagranesið verði staðsett á Ísafirði yfir vetrartímann.
211     Vegagerðin. Endurskoðuð áætlun um markaðar tekjur til vegamála bendir til að þær verði 70 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Lagt er til að heimilað verði að ráðstafa viðbótartekjunum á árinu 1999 og er fyrirhugað að þeim verði varið til að mæta kostnaði við vatnaskemmdir á vegum.
335     Siglingastofnun Íslands. Óskað er eftir 38 m.kr. aukafjárveitingu á þessum lið og er hún af tvennum toga. Annars vegar er farið fram á 25 m.kr. aukafjárveitingu vegna dýpkunar hafnarinnar í Vopnafirði. Í framhaldi af líkanatilraunum Siglingastofnunar, sem lauk í mars sl., varð ljóst að kostnaður við dýpkun hafnarinnar í Vopnafirði ykist um 34,3 m.kr. frá því sem hafnaáætlun gerði ráð fyrir. Hlutur ríkisins í þessum aukna kostnaði er 25 m.kr. Hins vegar er óskað eftir 13 m.kr. aukafjárveitingu til smíði á flotbryggju í Búðardal vegna landafundaafmælis. Framkvæmdir við höfnina verða að hefjast í ár til að hægt verði að ljúka þeim fyrir júní á næsta ári þegar hátíðarhöld vegna landafundanna hefjast. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður 23 m.kr. Hlutur ríkisins í kostnaðinum er 17 m.kr. Í hafnaáætlun er gert ráð fyrir 4 m.kr. fjárveitingu á næsta ári og því er þörf á 13 m.kr. fjárveitingu nú.
651     Ferðamálaráð. Farið er fram á 10 m.kr. aukafjárveitingu vegna stóraukinna umsvifa í markaðsmálum í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

12 Viðskiptaráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Farið er fram á 3,5 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta kostnaði við undirbúning að starfsemi Fjármálaeftirlits. Þegar Fjármálaeftirlit Seðlabanka og Vátryggingareftirlit voru sameinuð í byrjun þessa árs og Fjármálaeftirlitið stofnað var kveðið svo á um að undirbúningskostnaður skyldi greiddur af ríkissjóði, enda standa eftirlitsskyldir aðilar síðan undir kostnaði við starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

14 Umhverfisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Óskað er eftir 4,5 m.kr. framlagi til að mæta auknum rekstrarkostnaði úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist verulega, bæði hvað varðar fjölda mála og upplýsingagjöf. Einnig var þóknun nefndarmanna of lágt áætluð í fjárlögum. Ráðinn hefur verið starfsmaður í fullt starf til að mæta aukinni starfsemi nefndarinnar.
210     Veiðistjóri. Á þessum lið er farið fram á 3,5 m.kr. fjárveitingu. Er annars vegar farið fram á 1,5 m.kr. hækkun á fjárveitingu til að mæta endurgreiðslukostnaði vegna aukinna minkaveiða á árinu 1999. Í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir veiðum á 6.000 minkum en veiðin stefnir í mun hærri tölu. Til samanburðar má nefna að veiddir voru 6.539 minkar á sl. ári. Hins vegar er óskað eftir 2 m.kr. fjárheimild til að mæta kostnaði af auknum refaveiðum. Ríkissjóði er heimilt að endurgreiða allt að helming kostnaðar við veiðar á ref. Gert var ráð fyrir endurgreiðslum á 3.000 veiddum refum á þessu ári en veiðin stefnir í rúmlega 4.000 dýr.
310     Landmælingar Íslands. Óskað er eftir 7 m.kr. til að standa undir útgjöldum við starfslokasamninga 11 starfsmanna. Er þetta lokauppgjör stofnunarinnar vegna slíkra samninga.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. des. 1999.



Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Árni Johnsen.



Hjálmar Jónsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kristján Pálsson.