Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 336  —  235. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Skarphéðin Steinarsson og Hrein Loftsson frá framkvæmdanefnd um einkavæðingu, Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Sólon R. Sigurðsson frá Búnaðarbanka Íslands, Gunnar Andersen, Gunnar Viðar og Þóri Örn Ingólfsson frá Landsbanka Íslands, Ólaf Arnbjörn Sigurðsson og Helenu Hilmarsdóttur frá Verðbréfaþingi Íslands, Ásmund Stefánsson frá Íslandsbanka, Þorstein Þorbergsson frá Starfsmannafélagi Búnaðarbanka Íslands, Kristínu Guðbjörnsdóttur og Ingveldi Ingólfsdóttur frá Starfsmannafélagi Landsbanka Íslands, Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Þórð Friðjónsson, Magnús Harðarson og Pál Harðarson frá Þjóðhagsstofnun, Ingimund Friðriksson og Má Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands, Guðmund Sigurðsson frá Samkeppnisstofnun, Finn Sveinbjörnsson frá Samtökum verðbréfafyrirtækja og Öglu Elísabetu Hendriksdóttur og Heiðar Guðjónsson frá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka.
    Með frumvarpinu er lagt til að viðskiptaráðherra verði heimilt að selja 15% hlut af hlutafé Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og verði stefnt að því að selja umrædda hluti í lok desember 1999. Verði áhersla lögð á dreifða sölu til almennings.
    Í 9. gr. reglna Verðbréfaþings Íslands um skráningu verðbréfa í þinginu segir að dreifing eignarhalds hlutabréfaflokks sem sótt er um skráningu á skuli vera þannig að 25% hlutabréfanna og atkvæðisréttar séu í eigu almennra fjárfesta. Var veitt undanþága þegar hlutabréf í Landsbanka og Búnaðarbanka voru skráð á aðallista þingsins með hliðsjón af yfirlýsingu viðskiptaráðherra um að það væri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sölu hlutafjár í bönkunum að dreifing hlutafjár yrði í samræmi við reglur VÞÍ eigi síðar en 1. júní 2000. Landsbankinn og Búnaðarbankinn hefðu án sérstakrar lagasetningar getað uppfyllt umrædd skilyrði með heimild viðskiptaráðherra til útboðs á nýju hlutafé í bönkunum. Meiri hlutinn telur hins vegar að sú leið sem farin er í frumvarpinu sé mun vænlegri þar sem útboð á nýju hlutafé mundi stuðla að meiri þenslu í þjóðarbúskapnum. Þá telur meiri hlutinn að mikilvægt sé að umrædd sala á hlutafé fari fram í desember þar sem reynslan sýnir að almenningur fjárfestir þá mikið í verðbréfum. Þá er hagstætt árferði á hlutabréfamarkaði um þessar mundir og líklegt að gott verð fáist fyrir hlut ríkisins í bönkunum.
    Við meðferð málsins í nefndinni spunnust nokkrar umræður um ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Kemur þar fram að viðskiptaráðherra getur heimilað útboð á nýju hlutafé, en þó megi samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum banka fyrir sig. Telur meiri hlutinn ljóst að þar er átt við 35% af heildarfjárhæð hlutafjár á hverjum tíma.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. des. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Gunnar Birgisson.



Hjálmar Árnason.


Pétur H. Blöndal.


Sigríður A. Þórðardóttir.