Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 360  —  200. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti og Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu. Umsagnir bárust frá Verslunarráði Íslands, Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, Fjármálaeftirlitinu, Verðbréfaþingi Íslands, Seðlabanka Íslands, Landssambandi lífeyrissjóða og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að skjóta styrkari lagastoðum undir eftirlitsgjald sem innheimt er af eftirlitsskyldum aðilum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og innheimtu þess. Er ekki horfið frá þeim meginsjónarmiðum sem gilt hafa um gjaldið og innheimtu þess en lagt til að álagningarhlutföll verði fest í lög.
    Það sjónarmið kom fram við meðferð málsins í nefndinni að reglur um samráð Fjármálaeftirlitsins við samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila væru þannig að erfitt væri fyrir hana að sinna lögboðnu hlutverki sínu. Leggur nefndin því til þá breytingu á frumvarpinu að kveðið verði á um að Fjármálaeftirlitið skuli eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda samráðsnefndinni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með fyrrgreindri breytingu sem tillaga er gerð um í sérstöku þingskjali.
    Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. des. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Pétur H. Blöndal.



Hjálmar Árnason.


Drífa Hjartardóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Margrét Frímannsdóttir.


Ögmundur Jónasson.