Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 889  —  587. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)






    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/96, 87/97, 15/98, 20/99, 41/99, 42/99, 57/99, 82/99, 83/99, 84/99, 95/99, 96/99, 121/99, 165/99, 166/99, 168/99, 12/00, 20/00 og 21/00 um breytingar á II., IV., IX., X., XI., XVI., XVII., XVIII., XIX. og XX. viðauka og bókun 37 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/96, 87/97, 15/98, 20/99, 41/99, 42/99, 57/99, 82/99, 83/99, 84/99, 95/99, 96/99, 121/99, 165/99, 166/99, 168/99, 12/00, 20/00 og 21/00 um breytingar á II., IV., IX., X., XI., XVI., XVII., XVIII., XIX. og XX. viðauka og bókun 37 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992. Ákvarðanir þessar kalla á lagabreytingar hér á landi og voru teknar af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Hér er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirra tilskipana sem felldar verða inn í samninginn með ákvörðunum þessum og nauðsynlegum lagabreytingum til innleiðingar þeirra í íslenskan rétt. Þær gerðir sem hér um ræðir fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentaðar sem fylgiskjöl I–XIX með tillögu þessari.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að EES-samningurinn tók gildi hefur Ísland beitt þessum fyrirvara alls 38 sinnum. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkuð frávik frá almennri meðferð við staðfestingu þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er á hvaða hátt það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES- samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið vegna þess að við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu verður að teljast rétt að færa almenna meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt verður leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis verður leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt verður þeirri föstu vinnureglu komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.
    Ein af ástæðum þess að tillaga þessi er borin fram er að upp hefur safnast nokkur fjöldi ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara við og er hluti þeirra ákvarðana orðinn eldri en sex mánaða. Það hefur annars vegar í för með sér að viðeigandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar ganga hvorki í gildi að því er Ísland né hin aðildarríkin varðar og hins vegar að Ísland gæti staðið frammi fyrir því að önnur aðildarríki færu fram á að frestað yrði framkvæmd einstakra viðauka samningsins eða hluta þeirra gagnvart Íslandi, sbr. 102. gr. samningsins. Þótt aðdragandi að slíkri frestun sé allnokkur og þar með takmarkaðar líkur á því að mál gangi svo langt verður ekki fram hjá því litið að áhrif frestunar gætu orðið mjög alvarleg. Að undanförnu hafa önnur aðildarríki og þó einkum framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýst yfir vaxandi áhyggjum af töfum á afléttingu stjórnskipulegra fyrirvara og verður að teljast nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að bæta frammistöðu Íslands að þessu leyti. Því var tekin ákvörðun um að leita í einu lagi eftir samþykki Alþingis til staðfestingar umræddum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og jafnframt um að taka upp nýtt fyrirkomulag við meðferð ákvarðana nefndarinnar sem gerður verður stjórnskipulegur fyrirvari við í framtíðinni.

3. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar.
3.1. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/96 frá 25. október 1996 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna (fylgiskjal I).
    Með tilskipuninni er leitast við að samræma lög og reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins varðandi umfang og skilyrði réttinda höfunda og annarra rétthafa yfir efni gagnabanka og uppbyggingu þeirra.
    Í tilskipuninni er byggt á því meginsjónarmiði að gagnabankar séu mikilvægt tæki í þróun markaðar á sviði upplýsinga og að hraður vöxtur í upplýsingamiðlun á öllum sviðum viðskipta og iðnaðar kalli á fjárfestingu í upplýsingatækni og upplýsingamiðlun. Hvati að slíkri fjárfestingu og uppbyggingu sé meðal annars stöðug og samræmd lagaleg vernd þeim til handa sem leggja af mörkum fjármuni og hugvit í þessu skyni.
    Hin lagalega vernd gagnabanka sem fjallað er um í tilskipuninni er annars vegar byggð á höfundarréttarsjónarmiðum og hins vegar á sjónarmiðum er snerta ólögmæta samkeppni með tilliti til fjárfesta, þ.e. þeirra sem eiga frumkvæði að gerð gagnabanka og taka fjárhagslega áhættu við gerð þeirra.
    Í tilskipuninni er efni og uppbyggingu hvers kyns gagnabanka veitt vernd án tillits til þess hvers kyns upplýsingar þeir hafa að geyma og hvort sem gagnabankarnir eru geymdir á stafrænu formi eða ekki. Tilskipunin takmarkar ekki rétt einstakra höfunda samkvæmt höfundalögum til þess að ákveða hvort og hvernig verk þeirra verða felld inn í gagnabanka. Höfundum gagnabanka, þ.e. þeim einstaklingi eða einstaklingum sem býr hann til, er veittur einkaréttur til að heimila tiltekin afnot af honum. Hin sérstaka vernd sem fjárfestum er veitt er fyrst og fremst til þess að sporna gegn óheimilli gerð útdrátta eða endurnotkun alls eða verulegs hluta gagnabankans. Hin sérstaka vernd er veitt í 15 ár.
    Heimilt er að takmarka réttindi sem fjallað er um í tilskipuninni ef um er að ræða not gagnabanka vegna almennara öryggissjónarmiða eða til kennslu og vísindalegrar umræðu. Ef um er að ræða gagnabanka sem ekki er á rafrænu formi er heimilt að takmarka verndina við einkanot.
    Tilskipunin kallar á breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, og hefur menntamálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi.

3.2. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/97 frá 9. desember 1997 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/57/EB frá 3. september 1996 um kröfur um orkunýtni rafknúinna kæliskápa, frystiskápa og sambyggðra kæli- og frystiskápa til heimilisnota (fylgiskjal II).
    Í tilskipuninni er kveðið á um að ekki megi setja á markað eða taka í notkun rafknúna kæliskápa, frystiskápa eða sambyggða kæli- og frystiskápa sem ekki fullnægja lágmarkskröfum varðandi orkunýtni. Í tilskipuninni er kveðið á um CE-merkingu.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um orkunýtnikröfur og mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi.

3.3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/98 frá 6. mars 1998 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga (fylgiskjal III).
    Tilgangurinn með tilskipuninni er að samræma löggjöf aðildarríkjanna að því er varðar vernd neytenda við gerð samninga milli þeirra og seljenda vöru og þjónustu í fjarsölu. Með fjarsölu er átt við að seljandi vöru eða þjónustu noti fjarskiptatækni, t.d. síma, sjónvarp, bréfasíma og tölvu, við sölu og gerð samnings um kaup á vöru eða þjónustu.
    Tilskipunin kallar á breytingu á lögum nr. 96/1992, um húsgöngu- og fjarsölu, og hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi.

3.4. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/99 frá 26. febrúar 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun ráðsins 97/11/EB frá 3. mars 1997 um breytingu á tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið (fylgiskjal IV).
    Tilskipunin hefur í för með sér breytingar á tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Eldri tilskipunin var tekin upp í íslenskan rétt með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Með tilskipun 97/11/EB er lögð sérstök áhersla á aðgang almennings að mati á umhverfisáhrifum á meðan á matinu stendur og að almenningi sé tilkynnt um niðurstöður matsins. Fleiri framkvæmdir eru matsskyldar en áður, sbr. I. viðauka, og í II. viðauka er listi yfir framkvæmdir sem ber að tilkynna til þess yfirvalds sem fer með mat á umhverfisáhrifum, sem síðar ákveður hvort þær skuli sæta mati. Aðildarríki ber að tilkynna framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru og geta haft veruleg áhrif á umhverfi annars aðildarríkis og veita því ríki tækifæri til að koma að athugasemdum. Yfirvöld sem heimild hafa til að veita undanþágu frá því að framkvæmd sem er á skyldulista, sbr. I. viðauka, fari í mat á umhverfisáhrifum skulu tilkynna til framkvæmdastjórnarinnar um slíka undanþágu og rökstyðja hana.
    Tilskipunin kallar á breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum og hefur umhverfisráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi.

3.5. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 41/99 frá 26. mars 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun ráðsins 98/59/EB frá 20. júlí 1998 um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir (fylgiskjal V).
    Með tilskipuninni eru eldri tilskipanir ESB um sama efni, 75/129/EBE og 92/56/EBE sem báðar eru hluti EES-samningsins, leystar af hólmi auk þess sem nokkrar breytingar hafa verið gerðar með það að markmiði að auka rétt starfsmanna varðandi hópuppsagnir, m.a. þannig að fækkað er tilvikum sem ekki falla undir ákvæði tilskipunarinnar.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um hópuppsagnir og hefur félagsmálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis.

3.6. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 42/99 frá 26. mars 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun ráðsins 96/34/EB frá 3. júní 1996 um rammasamninginn um foreldraorlof sem UNICE, CEEP og ETUC stóðu að og tilskipun ráðsins 97/75/EB frá 15. desember 1997 um að breyta tilskipun 96/34/EB um rammasamninginn um foreldraorlof sem UNICE, CEEP og ETUC stóðu að og láta hana ná til Breska konungsríkisins og Norður- Írlands (fylgiskjal VI).
    Tilskipun 96/34/EB staðfestir rammasamning sem Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE), Evrópusamtök opinberra fyrirtækja (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) gerðu og undirritaður var 14. desember 1995. Með tilskipun 97/75/EB tekur tilskipun 96/34/EB til Breska konungsríkisins og Norður-Írlands.
    Í tilskipuninni er kveðið á um lágmarkskröfur sem ætlað er að auðvelda vinnandi foreldrum að samræma skyldur sínar í atvinnulífi og sem foreldrar. Tilskipunin tekur til launþega, karla og kvenna, sem hafa ráðningarsamning eða ráðningarkjör samkvæmt skilgreiningu laga eða kjarasamninga eða eins og réttarvenjur í hverju aðildarríki um sig gera ráð fyrir.
    Tilskipunin fjallar um lágmarksréttindi varðandi foreldraorlof og tímabundið leyfi frá starfi í neyðartilvikum þar sem jafnframt yrði gert ráð fyrir því að aðildarríki og/eða aðilar vinnumarkaðarins kvæðu nánar á um skilyrði fyrir framkvæmd slíks foreldraorlofs.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um foreldraorlof og hefur félgsmálaráðuneytið undirbúið frumvarp þar að lútandi.

3.7. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 57/99 frá 30. apríl 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun ráðsins 98/50/EB frá 29. júní 1998 um breytingu á tilskipun 77/187/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar (fylgiskjal VII).
    Tilskipunin felur í sér breytingu á tilskipun 77/187/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar. Meginbreytingarnar byggjast á fordæmum Evrópudómstólsins í málum vegna tilskipunar nr. 77/187/EBE en ástæða þótti til að breyta tilskipuninni vegna þeirra. Um er að ræða breytingar á skilgreiningum hugtakanna aðilaskipti, launþegi o.fl. Mælt er fyrir um að starfsmönnum eða fulltrúum þeirra sé óheimilt að falla frá þeim réttindum sem tilskipunin kveður á um. Auk þess eru tekin upp ýmis heimildarákvæði sem ríki ákveða sjálf hvort þau taka upp í landsrétt.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um aðilaskipti og hefur félagsmálaráðuneytið hafið undirbúning að samningu frumvarps þar að lútandi. Tilskipun þessi kemur til framkvæmda árið 2001.

3.8. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/99 frá 25. júní 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/36/EB frá 30. júní 1997 um breytingu á tilskipun ráðsins 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur (fylgiskjal VIII).
    Hér er um að ræða breytingu á tilskipun 89/552/EBE um sjónvarp án landamæra. Meginmarkmið með breytingunum er að uppfæra tilskipunina og kveða skýrar á um ákveðna þætti hennar. Markmið tilskipunarinnar frá 1989 er að samræma viðkomandi ákvæði aðildarríkjanna með það í huga að tryggja frjálsa útbreiðslu sjónvarpsútsendinga. Með tilkomu tilskipunarinnar, og sameiginlegra reglna á þeim sviðum þar sem nauðsynlegt var að setja slíkar reglur, er nægilegt fyrir sjónvarpsfyrirtæki með staðfestu í aðildarríki að fara að þeim lögum sem gilda í því ríki til að óhindrað sé unnt að taka á móti útsendingum þess og endurvarpa þeim til allra staða innan ESB.
    Helstu nýmæli með breytingunum á tilskipuninni um sjónvarp án landamæra eru:
     1.      Útsendingar á viðburðum sem hafa verulega þýðingu fyrir þegnana. Hverju aðildarríki um sig er veitt heimild til að gera ráðstafanir til að tryggja að útvarpsrekendur sem heyra undir lögsögu þess sendi ekki út í lokaðri dagskrá frá slíkum viðburðum.
     2.      Framkvæmdastjórnin skal láta fara fram rannsókn á hugsanlegum kostum og göllum þess að gerðar verði frekari ráðstafanir með það í huga að auðvelda foreldrum og forráðamönnum að hafa eftirlit með því sjónvarpsefni sem ólögráða börn kunna að horfa á. Athugunin skal meðal annars taka til þess hversu æskilegt er að setja upp ákveðin matskerfi og hvetja til fjölskyldustefnu um áhorf, auk annarra ráðstafana sem miða að því að uppfræða og efla vitund fólks.
     3.      Frumútsending kvikmynda. Aðildarríkin skulu tryggja að útvarpsrekendur sem heyra undir lögsögu þeirra sendi ekki út kvikmyndaverk utan tímabila sem um hefur verið samið við rétthafa.
    Tilskipunin kallar á breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, og hefur menntamálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi.

3.9. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/99 frá 25. júní 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga (fylgiskjal IX).
    Tilskipunin á að tryggja samræmdar reglur og samræmda persónuvernd í öllum aðildarríkjum ESB. Innan þess ramma sem hún setur er einstökum aðildarríkjum heimilt að setja strangari reglur sem tryggja meiri vernd en leiðir af ákvæðum tilskipunarinnar. Það fer eftir einstökum ákvæðum hennar að hvaða marki heimilt er í löggjöf einstakra ríkja að mæla fyrir um meiri vernd en tilskipunin sjálf gerir ráð fyrir. Í tilskipuninni er hins vegar að finna bann við því að aðildarríki setji reglur um persónuvernd sem banna eða takmarka frjálsan flutning persónuupplýsinga milli aðildarríkjanna. Markmið tilskipunarinnar er annars vegar að tryggja grundvallarmannréttindi einstaklinga og þá sérstaklega rétt manna til þess að njóta friðhelgi um einkalíf sitt í tengslum við meðferð persónuupplýsinga og hins vegar að tryggja frjálst flæði persónuupplýsinga milli aðildarríkja ESB. Ákvæði tilskipunarinnar eiga almennt við um vinnslu persónuupplýsinga þegar vinnsla fer fram með rafrænum hætti, hvort heldur sem er í heild eða að hluta, og um handunna vinnslu upplýsinga þegar upplýsingarnar eru eða eiga að verða hluti af persónuupplýsingaskrá. Tilskipunin nær hins vegar ekki til vinnslu sem er alfarið til einkanota og heldur ekki til vinnslu persónuupplýsinga á þeim sviðum sem ekki lúta lögsögu Evrópusambandsins. Samkvæmt tilskipuninni er aðildarríkjunum skylt að setja á laggirnar stofnanir til þess að hafa eftirlit með því að ákvæðum hennar sé fylgt innan landamæra viðkomandi ríkis. Skulu slíkar stofnanir njóta fullkomins sjálfstæðis í störfum sínum og m.a. hafa vald til þess að framkvæma rannsóknir, veita leyfi, stöðva ólöglega starfsemi o.fl. Almenningi skal vera kunnugt um tilvist allrar vinnslu með persónuupplýsingar og stofnuninni vera skylt að halda skrá um alla vinnslu sem fram fer, þ.e. þá vinnslu sem er leyfis- eða tilkynningarskyld.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og hefur dómsmálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi.

3.10. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/99 frá 25. júní 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/66/EB frá 15. desember 1997 um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífsins á sviði fjarskipta (fylgiskjal X).
    Tilskipunin varðar úrvinnslu persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins á sviði fjarskipta og kemur hún sem viðbót við tilskipun 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Tilskipunin fjallar ekki um aðgerðir í þágu þjóðaröryggis eða við rannsókn sakamála.
    Í tilskipuninni eru ákvæði sem fyrirhugað er að innleiða með áðurnefndu frumvarpi til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi.

3.11. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 95/99 frá 16. júlí 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB frá 27. október 1998 um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í vátryggingahópi (fylgiskjal XI).
    Tilskipunin geymir ákvæði sem fela í sér ráðstafanir sem munu gera eftirlitsaðila með tryggingamálum betur í stakk búna til að meta raunverulega gjaldfærni vátryggingafélags sem er hluti af hópi vátryggingafélaga. Tilgangurinn er að tryggja að vátryggingafélög séu hæf til að standa við samningsskuldbindingar gagnvart vátryggingatökum.
    Tilskipunin skilgreinir lágmarksreglur fyrir gagnkvæma viðurkenningu og eftirlit heimaríkis. Samræmdar reglur eru settar um skilgreiningar, viðskipti innan hópsins og aðferðir til að hindra margnotkun eiginfjár.
    Við tilskipunina eru tveir viðaukar, I. viðauki um útreikning á leiðréttu gjaldþoli og II. viðauki um frekari eftirlitsaðferðir fyrir vátryggingafélög sem eru dótturfélög vátryggingaeignarhaldsfélaga.
    Tilskipunin kallar á breytingu á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, og vinna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin að undirbúningi frumvarps þar að lútandi.

3.12. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 96/99 frá 16. júlí 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/52/EB frá 13. október 1997 um breytingu á tilskipun 92/50/EBE, 93/36/EBE og 93/37/EBE sem fjalla um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um kaup á þjónustu, um vörukaup og gerð opinberra verksamninga og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/4/EB frá 16. febrúar 1998 um breytingu á tilskipun 93/38/EBE um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti (fylgiskjal XII).
    Með tilskipununum er verið að laga löggjöf ESB um opinber útboð að reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Að auki felur ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í sér breytingar á XVI. viðauka við EES-samninginn þar sem felld eru út ákvæði og listar yfir stofnanir sem eiga við um Austurríki, Finnland og Svíþjóð.
    Tilskipunin kallar á breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 52/1987, og skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970, og vinnur fjármálaráðuneytið að undirbúningi frumvarps þar að lútandi.

3.13. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/99 frá 24. september 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB frá 19. maí 1998 um lögbannsaðgerðir með það í huga að vernda hagsmuni neytenda (fylgiskjal XIII).
    Í tilskipuninni er að finna reglur er miða að því að samræma réttindi samtaka og opinberra stofnana sem starfa að málefnum neytenda eða annarra sambærilegra aðila til þess að fara í lögbannsaðgerðir eða sams konar aðgerðir til að tryggja heildarhagsmuni neytenda.
    Með „heildarhagsmunum“ er átt við að unnt sé að verja hagsmuni án þess að þeir hagsmunir sem verja á séu samnefnari fyrir ákveðinn fjölda einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni.
    Aðildarríkjunum ber samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar að tilnefna samtök eða opinberar stofnanir sem eiga rétt til að vernda „heildarhagsmuni“ neytenda og óska eftir að bann verði lagt við athöfnum sem telja má brot á lögum sem tilskipunin tekur til. Í tilskipuninni eru taldar upp tilskipanir um óréttmætar og villandi auglýsingar, húsgöngusölusamninga, neytendalán, sjónvarpsútsendingar, alferðir, lyfjaauglýsingar, ósanngjarna samningsskilmála, samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis og fjarsölusamninga.
    Aðildarríkjunum ber einnig að tilnefna dómstóla eða önnur lögbær yfirvöld sem eiga að úrskurða í málum sem slíkir tilnefndir aðilar sækja í því skyni að:
     1.      Óska efir banni við stjórnvald eða lögbanni vegna brota sem beinast að heildarhagsmunum neytenda og eru brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilskipuninni er ætlað að vernda.
     2.      Óska eftir birtingu á ákvörðunum um að stöðva beri athöfn sem veldur skaða eða birtingu annars konar yfirlýsingar sem miðar að því að aflétta áhrifum brotsins.
     3.      Að aðila sem málið beinist að sé gert skylt að greiða sektir til ríkissjóðs eða annarra aðila sem teljast eiga rétt til greiðslu samkvæmt almennum lagareglum í aðildarríkinu ef hann skirrist við að hlíta ákvörðun stjórnvaldsins eða dómstólsins innan þeirra tímamarka sem ákveðin hafa verið í úrskurðinum.
    Tilskipunin kallar á lagabreytingar hér á landi og munu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin og dómsmálaráðuneytið semja lagafrumvarp þar að lútandi.

3.14. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/1999 frá 26. nóvember 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/100/EB frá 17. febrúar 1997 um breytingu á viðauka við tilskipun 93/7/EBE um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis (fylgiskjal XIV).
    Efni tilskipunar 96/100/EB er viðbót við viðauka við tilskipun 93/7/EBE frá 15. mars 1993 um að skila menningarverðmætum sem hafa verið flutt ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Tilgangur tilskipunar 96/100/EB er að gera upptalningu á viðaukanum ítarlegri og betri.
    Í viðaukanum við tilskipun 93/7/EBE eru taldir upp þeir flokkar sem minjar verða að tilheyra til að unnt sé að skila þeim samkvæmt tilskipuninni. Tilskipun 96/100/EB bætir við, í A-lið viðaukans, nýjum flokki minja, 3A: Vatnslitamyndir, gvassmyndir og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er. Auk þess er í lið 3 bætt við setningunni: „(Myndir og málverk) önnur en þau sem getið er um í flokki 3A og 4“ og við lið 4 er bætt við setningunni: „(Mósíkverk) gerð í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er“. Við B-lið viðaukans, sem eru fjárhagsleg viðmiðunarmörk (í evrum) fyrir tiltekna flokka í A-lið, er bætt nýjum flokki: 30 000 – (Vatnslitamyndir, gvassmyndir og pastelmyndir).
    Tilskipunin kallar á breytingu á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, og vinnur menntamálaráðuneytið að undirbúningi frumvarps þar að lútandi.

3.15. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 166/1999 frá 26. nóvember 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/79/EB frá 27. október 1998 um lækningatæki til sjúkdómsgreiningar í glasi (fylgiskjal XV).
    Í tilskipuninni eru reglur um kröfur sem gera má til öryggis tækja til sjúkdómsgreininga. Reglunum er ætlað að koma í veg fyrir að sjúklingar og þeir sem nota lækningatæki verði fyrir tjóni. Gerðar eru kröfur um að tækin séu prófuð og samræmismat fari fram áður en þau eru markaðssett, seld eða notuð. Uppfylli tækin viðeigandi grunnkröfur má merkja þau með CE-merkinu og þar með selja þau hvar sem er innan EES. Er um viðbótartilskipun að ræða við tilskipun 90/385/EBE um virk ígræðanleg lækningatæki og 93/42/EB um lækningatæki.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um lækningatæki og hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið samið frumvarp þar að lútandi.

3.16. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/1999 frá 26. nóvember 1999 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku (fylgiskjal XVI).
    Framkvæmdastjórn ESB hefur um langt skeið unnið að því að auka frelsi milli ríkja sambandsins í viðskiptum með raforku og jarðgas. Árið 1990 voru lögfestar tilskipanir annars vegar um gagnsæi verðlagningar á rafmagni og jarðgasi og hins vegar um flutning á rafmagni og jarðgasi um flutningskerfi þriðja ríkis. Þessar tilskipanir gilda á evrópska efnahagssvæðinu. Ísland hefur undanþágu frá tilskipununum um gagnsæi verðlagningar og gegnumflutning á jarðgasi. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku miðar að því að auka frelsi í viðskiptum með rafmagn og jarðgas milli stærri notenda og framleiðenda.
    Hornsteinar tilskipunarinnar um innri markað á sviði raforku eru í fyrsta lagi afnám einkaréttar starfandi orkufyrirtækja, sé hann fyrir hendi, m.a. til að framleiða og selja rafmagn, í öðru lagi aðskilnaður vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku, a.m.k. í bókhaldi og hvað flutningskerfið varðar er einnig krafist stjórnunarlegs aðskilnaðar, og í þriðja lagi lágmarksaðgangur þriðja aðila að flutningskerfum þannig að þeir orkukaupendur, sem fullnægja tilteknum skilyrðum sem hvert ríki fyrir sig setur á grundvelli tilskipunar, geti gert samninga um orkukaup og fengið orkuna flutta um flutnings- og dreifikerfin.
    Ætla má að gera þurfi eftirfarandi lágmarksbreytingar á löggjöf og skipan raforkumála hér á landi til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar:
     a.      Breyta þarf ákvæðum orkulaga, nr. 58/1967, varðandi veitingu virkjanaleyfa. Fella þarf úr gildi að Alþingi þurfi að samþykkja allar virkjanir stærri en 2 MW. Í stað þess þarf að setja skilyrði sem allir aðilar sem óska eftir að fá að virkja þurfa að uppfylla. Skilyrðin þurfa að vera gagnsæ, mega ekki mismuna umsækjendum og þau þarf að birta opinberlega.
     b.      Greina þarf á milli raforkuvinnslu, -flutnings, -dreifingar og -sölu og annarrar starfsemi í bókhaldi fyrirtækja sem stunda fleiri en einn framangreindra þátta.
     c.      Setja þarf reglur um ársreikninga orkufyrirtækja þannig að þeir verði færðir í samræmi við lög um ársreikninga, nr. 144/1994.
     d.      Útnefna þarf ábyrga aðila til að reka flutnings- og dreifikerfin. Ef fyrirtæki sem sinnir einnig vinnslu eða dreifingu eða sölu rafmagns rekur flutningskerfi þarf að tryggja stjórnunarlegan aðskilnað flutningskerfisins.
     e.      Aflétta þarf ákveðnum skuldum sem orkufyrirtækin hafa nú.
     f.      Tryggja þarf að allir endanlegir notendur sem nota 100 GWst. af rafmagni á ári eða meira, svokallaðir forgangsnotendur, geti samið beint um viðskipti sín.
     g.      Hugsanlegt er að setja þurfi ákvæði til að tryggja rétt forgangsnotenda til að tengjast beint við virkjanir eða flutningskerfið með línum eða jarðtengingum.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um raforku og hafa iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin hafið samningu frumvarps þar að lútandi. Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hefur Ísland tveggja ára frest frá gildistöku ákvörðunarinnar til að uppfylla skuldbindingar sem af henni leiðir vegna sérstakra tæknilegra eiginleika raforkukerfis landsins.

3.17. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 12/00 frá 28. janúar 2000 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi (fylgiskjal XVII).
    Í tilskipun 99/44/EB er að finna ákvæði er varða sölu lausafjármuna til neytenda, svonefnd neytendakaup. Í tilskipuninni eru ákvæði sem varða réttarvernd neytenda að því er varðar kaup á vörum, svo og ábyrgðaryfirlýsingar sem seljendur vöru gefa út í því sambandi. Neytendur eiga rétt á ógölluðum vörum sem eru í samræmi við þá vörulýsingu sem gefin er. Ef um er að ræða vöru sem neytandi á sjálfur að setja saman og leiðbeiningar seljanda eru ófullnægjandi, eða á annan hátt óskiljanlegar, telst hlutur gallaður ef hann skemmist eða eyðileggst vegna rangrar samsetningar af hálfu kaupandans. Í tilskipuninni eru auk þess ákvæði um hvaða lágmarkskröfur skuli gerðar til ábyrgðaryfirlýsinga af hálfu seljenda vöru sem gefnar eru út til kaupenda á neytendavörum.
    Tilskipunin kallar á löggjöf um lausafjárkaup og hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi. Frumvarpið endurspeglar að hluta ákvæði tilskipunar 99/44/EB en þörf er á setningu frekari ákvæða til að innleiða hana að fullu og hefur ráðuneytið hafið undirbúning að samningu viðbótarfrumvarps.

3.18. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/00 frá 25. febrúar 2000 um að fella inn í XVI. viðauka EES-samningsins breytingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 96/1999 frá 16. júlí 1999 (fylgiskjal XVIII).
    Um er ræða breytingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 96/99 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/52/EB frá 13. október 1997 um breytingu á tilskipun 92/50/EBE, 93/36/EBE og 93/37/EBE sem fjalla um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um kaup á þjónustu, um vörukaup og gerð opinberra verksamninga og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/4/EB frá 16. febrúar 1998 um breytingu á tilskipun 93/38/EBE um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti.
    Með tilskipununum er verið að laga löggjöf ESB um opinber útboð að reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Að auki felur ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í sér breytingar á XVI. viðauka við EES-samninginn þar sem felld eru út ákvæði og listar yfir stofnanir sem eiga við um Austurríki, Finnland og Svíþjóð.
    Tilskipunin kallar á breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 52/1987, og skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970, og vinnur fjármálaráðuneytið að undirbúningi frumvarps þar að lútandi.

3.19. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/00 frá 25. febrúar 2000 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/71/EB frá 13. október 1998 um lögverndun hönnunar (fylgiskjal XIX).
    Með tilskipuninni er ætlunin að samræma lög aðildarríkja EES um hönnunarvernd. Ákvæði gerðarinnar varða þó aðeins grundvallaratriði slíkrar verndar, svo sem skilgreiningu á hönnun, skilyrði fyrir vernd, verndarsvið, umfang verndar, gildistíma skráninga og ógildingarástæður. Ýmis atriði falla fyrir utan tilskipunina. Meðal annars geta aðildarríki sjálf ákveðið hvort umsóknir um skráningu hönnunar skuli vera rannsakaðar fyrir skráningu eða hvort engin slík rannsókn fari fram.
    Tilskipunin kallar á breytingar á lögum nr. 48/1993, um hönnunarvernd, og hafa iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin hafið undirbúning að samningu frumvarps þar að lútandi. Breytingar verða gerðar á lögum annarra norrænna ríkja og verður tekið mið af þeim breytingum.


    Eftirfarandi fylgiskjölum er útbýtt með tillögunni:
     I.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/96 frá 25. október 1996.
     II.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/97 frá 9. desember 1997.
     III.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/98 frá 6. mars 1998.
     IV.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/99 frá 26. febrúar 1999.
     V.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 41/99 frá 26. mars 1999.
     VI.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 42/99 frá 26. mars 1999.
     VII.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 57/99 frá 30. apríl 1999.
     VIII.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/99 frá 25. júní 1999.
     IX.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/99 frá 25. júní 1999.
     X.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/99 frá 25. júní 1999.
     XI.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 95/99 frá 16. júlí 1999.
     XII.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 96/99 frá 16. júlí 1999.
     XIII.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/99 frá 24. september 1999.
     XIV.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/1999 frá 26. nóvember 1999.
     XV.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 166/1999 frá 26. nóvember 1999.
     XVI.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/1999 frá 26. nóvember 1999.
     XVII.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 12/00 frá 28. janúar 2000.
     XVIII.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/00 frá 25. febrúar 2000.
     XIX.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/00 frá 25. febrúar 2000.