Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1060  —  421. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um húsgöngu- og fjarsölusamninga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Neytendasamtökunum, Samkeppnisstofnun og Verslunarráði Íslands.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að taka upp í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 97/7/EB, um fjarsölu, en í henni er að finna margvíslegar lágmarksreglur sem miða að því að veita neytendum vernd með tilliti til fjarsölu á vöru og þjónustu.
    Fjarsölusamningar eru gerðir með aðstoð eins eða fleiri fjarskiptamiðla án þess að neytandi og seljandi hittist. Eðlilegt er að við slíkar kringumstæður sé neytendum veitt aukin réttarvernd, svo sem víðtækari réttur til upplýsinga af hálfu seljanda og réttur til að falla frá samningi ef varan uppfyllir ekki við skoðun og móttöku þær forsendur sem hann lagði til grundvallar við kaupin og gat vænst að hún uppfyllti samkvæmt upplýsingum frá seljanda.
    Í frumvarpinu eru ákvæði gildandi laga um húsgöngusölu en þau voru sett árið 1992 þegar Íslandi bar skylda til samkvæmt EES-samningnum að setja í íslensk lög ákvæði tilskipunar ráðsins 85/577/EB, um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva. Er hagræði af því bæði fyrir neytendur og seljendur að þeir hafi ávallt gott yfirlit yfir reglur sem gilda og að slíkum reglum sé skipað innan sama lagabálks sé þess nokkur kostur.
    Nefndin vekur athygli á að misræmi er milli 5. tölul. 3. gr. frumvarpsins og skýringa við hann í greinargerð. Samkvæmt töluliðnum ná ákvæði laganna ekki til samninga um notkun á almenningssímum en í athugasemdum við frumvarpið segir að samningar sem gerðir eru með notkun almenningssíma séu undanþegnir ákvæðum laganna. Textinn eins og hann birtist í frumvarpinu er réttur, þ.e. ákvæði laganna ná ekki til samninga um notkun á almenningssímum.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu en aðeins ein þeirra er efnisleg. Er lagt til að 4. tölul. 10. gr. falli brott og með því nái réttur neytanda til að falla frá húsgöngu- eða fjarsölusamningi til fjarsölusamninga um áskrift að dagblöðum og tímaritum. Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru einungis orðalagsbreytingar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Ögmundur Jónasson.