Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1082  —  452. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Hauk Jóhannesson skrifstofustjóra og Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti. Umsagnir bárust nefndinni frá Verslunarráði Íslands, Löggildingarstofunni og Samtökum fiskvinnslustöðva.
    Tilgangur frumvarpsins er að uppfylla samningsskuldbindingar Íslands varðandi skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu sem geta haft í för með sér óheimilar tæknilegar viðskiptahindranir. Samningar þeir sem hér um ræðir eru samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir.
    Við yfirferð málsins í nefndinni var sérstaklega spurst fyrir um hvort reglur um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur breyti á einhvern hátt þeim reglum sem gilda um innflutning landbúnaðarvara. Upplýst var að EES-samningurinn nær ekki til landbúnaðarvara nema annað sé tekið fram, sbr. 8. gr. samningsins. Skilgreining tilskipunar 98/34/EB, sem m.a. er fyrirhugað að innleiða með frumvarpinu, tekur til landbúnaðarvara. Þar af leiðir að tilkynna verður sérstaklega um tæknilegar reglur sem fjalla um landbúnaðarvörur. Það að tilkynna ekki um tæknilega reglu sem varðar landbúnaðarvöru fæli í sér brot á samningsskuldbindingu á sviði upplýsingaskipta um tæknilegar reglur. Aftur á móti geta EFTA/EES- ríkin sem fá slíka reglu til umsagnar ekki beitt fyrir sig 11. gr. EES-samningsins sem bannar magntakmarkanir og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif þar sem 11. gr. gildir ekki um landbúnaðarvörur. Þær athugasemdir sem EES-ríkin geta gert við tæknilegar reglur um landbúnaðarvörur geta því einungis verið almenns eðlis og gætu ekki falið í sér að breyta þyrfti reglum sem gilda um innflutning landbúnaðarvara.
    Þá var einnig upplýst að samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra felur í sér skilyrði fyrir setningu heilbrigðisreglna sem takmarka innflutning af heilbrigðisástæðum. Í samningnum er meðal annars bannað að setja heilbrigðisreglur sem geta valdið viðskiptahindrunum. Ekki má mismuna innfluttri og innlendri vöru og leggja verður fram sannanir um að raunveruleg hætta stafi af innflutningi landbúnaðarvöru ef ætlunin er að banna innflutning. Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir nær einnig til landbúnaðarvara. Megintilgangur þess að skiptast á upplýsingum um tæknilegar reglur samkvæmt samningnum er að auka gagnsæi þeirra reglna sem ríki hyggjast setja. Jafnframt er aðilum í atvinnulífi þeirra ríkja sem aðild eiga að stofnuninni auðveldað að laga framleiðslu sína að þeim reglum sem gilda hér á landi hyggi þau á útflutning til Íslands. Reglur um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur hafa aftur á móti ekki áhrif á þær reglur sem gilda um innflutning landbúnaðarvara samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
    Þá var við meðferð málsins bent á að ósamræmi væri milli skilgreiningar á hugtakinu vörur í ákvæði 5. tölul. 2. gr. og umfjöllunar í greinargerð. Nefndin leggur því til að 5. tölul. verði breytt enda hefur komið í ljós að í ákvæðum þeirra samninga sem ætlunin er að innleiða með frumvarpinu er hugtakið vara skilgreint vítt og er reglum um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur í raun ætlað að ná til allra vörutegunda.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til orðalagsbreyting á 1. gr. í samræmi við heiti frumvarpsins og í stað orðsins upplýsingaskipti verði notað orðasambandið skipti á upplýsingum.
     2.      Lagt er til að hugtakið vara í 5. tölul. 2. gr. verði skilgreint nánar, sbr. framangreint.
     3.      Loks er lögð til smávægileg orðalagsbreyting á 2. mgr. 6. gr.

Alþingi, 27. apríl 2000.



         Tómas Ingi Olrich,

form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Árni R. Árnason.


Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.


Vilhjálmur Egilsson.



Sighvatur Björgvinsson.


Steingrímur J. Sigfússon.