Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1221  —  547. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert J. Hilmarsson, Ragnheiði Snorradóttur og Björn R. Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Indriða H. Þorláksson og Steinþór Haraldsson frá ríkisskattstjóra, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Helenu Hilmarsdóttur frá Verðbréfaþingi Íslands, Hrafn Magnússon og Ólaf Nilsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Rannveigu Sigurðardóttur og Ara Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna og Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Verslunarráði Íslands, Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, Verðbréfaþingi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Lagðar eru til breytingar er lúta að skattlagningu tekna af hlutabréfakaupum samkvæmt kauprétti starfsmanna. Þá eru lagðar til breytingar á skattalegri meðferð lífeyrisiðgjalda og breyting á skattfrádrætti vegna hlutabréfakaupa að því er varðar erlend hlutabréf og loks eru lagðar til breytingar sem lúta að framkvæmd laganna, þar á meðal varðandi túlkun og framkvæmd tvísköttunarsamninga.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi efnisbreytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að 1. gr. frumvarpsins falli brott. Með því er horfið frá því að framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda teljist til skattskyldra tekna. Þykir meiri hlutanum það óeðlilegt þar sem umræddir fjármunir verða ekki tekjur í hendi launþegans fyrr en hann tekur þá út í formi lífeyrisgreiðslna.
     2.      Lagt er til að ný grein komi í stað 1. gr. frumvarpsins sem feli í sér breytingu á skattalegri meðferð barnsmeðlaga. Er gert ráð fyrir að ekki einungis lágmarksmeðlag samkvæmt lögum um almannatryggingar verði undanþegið tekjuskatti heldur einnig aukameðlag sem úrskurðað hefur verið af sýslumanni eða meðlagsgreiðslur á grundvelli samkomulags foreldra sem staðfest hefur verið af sýslumanni, en þó að ákveðnu hámarki sem nemur tvöföldum barnalífeyri skv. 14. gr. laga um almannatryggingar.
     3.      Lögð er til sú breyting á 2. gr. frumvarpsins að með gangverði bréfa sem notað er til að reikna út skattskyldar tekjur af hlutabréfakaupum samkvæmt kauprétti, ásamt kaupverði bréfanna, sé ekki einungis átt við skráð gengi í kauphöll heldur einnig á skipulegum tilboðsmarkaði, þar sem möguleiki er að skrá félög sem ekki fullnægja skilyrðum til að vera skráð í kauphöll.
     4.      Lagt er til að ákvæði frumvarpsins um kaupréttarsamninga nái jafnt til hlutafélaga sem einkahlutafélaga. Umrædd ákvæði nái einnig til hluta þar sem ekki eru gefin út hlutabréf í einkahlutafélögum.
     5.      Lagt er til að kaup á hlutabréfum samkvæmt kaupréttarsamningi gefi ekki rétt til frádráttar frá tekjum af fjárfestingu í atvinnurekstri þar sem skattlagning kaupréttar mun verða sú sama og á aðrar fjármagnstekjur, 10%.
     6.      Lagt er til að launagreiðendur geti áfram lagt inn iðgjaldagreiðslur í einu lagi til að afla lífeyrisréttinda fyrir starfsmann sem hann á rétt á hafi hann safnað reglulega án þess að það myndi tekjur hjá launþeganum. Ef framlagið er hærra en hin reiknuðu réttindi ber hins vegar að tekjufæra það í hendi launþegans. Forsendur fyrir útreikningi réttindanna eru settar fram í ákvæðinu. Þar er gert ráð fyrir að miðað skuli við meðallaun síðustu fimm ára, að viðkomandi fái greiddan ellilífeyri frá 65 ára aldri og að hann haldi áfram að greiða í sjóðinn til 65 ára aldurs frá þeim tímapunkti sem lagt er inn í sjóðinn, miðað við meðallaun síðustu fimm ára.
     7.      Lagt er til að horfið verði frá því að launþega verði heimilt að draga frá skattskyldum tekjum allt að 20% af iðgjaldsstofni til öflunar lífeyrisréttinda. Er það afleiðing af þeirri breytingu að horfið er frá því að tekjufæra framlag launagreiðanda hjá launþega. Þess í stað verði launþega eða sjálfstætt starfandi manni heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum allt að 4% af iðgjaldsstofni séreignarsparnaðar í stað 2% nú. Óbreytt er að launþega verður heimilt að draga 4% frá tekjum af framlagi í lífeyrissjóð vegna samtryggingar. Með breytingunni er ekki horfið frá því markmiði frumvarpsins að efla lífeyrissparnað landsmanna.
     8.      Lagt er til að erlend hlutafélög þurfi ekki að vera skráð á Verðbréfaþingi Íslands heldur í kauphöll á Evrópska efnahagssvæðinu. Er það gert til að fullnægja samningsskuldbindingum Íslands á grundvelli EES-samningsins.
     9.      Lagt er til að hnykkt verði á því að framlög lögaðila og sjálfstætt starfandi manna í lífeyrissjóði, sem starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, teljist til rekstrarkostnaðar.
     10.      Lagt er til að bætt verði bráðabirgðaákvæði við frumvarpið þar sem tekið er á lagaskilum varðandi tilflutning á túlkun tvísköttunarsamninga frá ríkisskattsjóra til fjármálaráðherra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. maí 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.

Gunnar Birgisson.