Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1227  —  530. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Verslunarráði Íslands, Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Fjármálaeftirlitinu og Sambandi íslenskra tryggingafélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum til að ríkisstjórninni verði kleift að selja félagið ef viðunandi kauptilboð berst í það. Þá er í því lagt til að afnumin verði sérlög um bátaábyrgðarfélög og um leið skyldutrygging þilfarsbáta að 100,49 brúttórúmlestum.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að tekið verði fram að Samábyrgðin hf. taki við öllum skattalegum réttindum og skyldum Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Er með því tekinn af allur vafi um það.
     2.      Lagt er til að 3. gr. frumvarpsins þar sem segir að viðskiptaráðherra sé heimilt að ákveða sölu á eignarhlut ríkissjóðs í félaginu falli brott, en á þessu atriði verði tekið í nýrri grein við frumvarpið, sbr. 4. tölul.
     3.      Þá er lagt til að tekið verði fram að starfsleyfi Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum færist til Samábyrgðarinnar hf., en ekki „til hins nýja félags“ eins og segir í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Verður með því ljóst að ekki er um nýjan vátryggjanda að ræða.
     4.      Lagt er til að bætt verði grein við frumvarpið sem felur það í sér að viðskiptaráðherra verði heimilt að selja bátaábyrgðarfélögunum sameiginlega eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni hf. fyrir verð sem nemi að lágmarki 85% af reiknuðu upplausnarvirði félagsins eins og það er á stofndegi þess. Er með því komið til móts við það sjónarmið að bátaábyrgðarfélögin fái að njóta þess að þau voru áratugum saman skyldug til að tryggja hjá Samábyrgðinni. Þá er lagt til að hafi ráðherra ekki borist sameiginleg tilboð allra bátaábyrgðarfélaganna 1. september 2000 og samningaviðræðum ekki lokið fyrir 1. nóvember 2000 skuli ráðherra bjóða hlutaféð til sölu á almennum markaði eða leysa upp félagið.
     5.      Lagt er til að tekið verði fram að núgildandi lögmæltar húftryggingar fiskiskipa gildi út umsamið vátryggingatímabil og að vátryggingartakar skuli tilkynna vátryggjanda sínum í síðasta lagi mánuði fyrir lok vátryggingar hyggist þeir segja vátryggingunni upp. Er með breytingunni tekinn af vafi um þetta efni.     Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. maí 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.