Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1260  —  520. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hlutinn telur mikilvægt að fram fari heildarendurskoðun á lögum um vörugjald en þessar lagabreytingar hafa verið rökstuddar með því að stefnt sé í samræmingarátt. Ýmsar breytingar sem frumvarpið felur í sér eru góðra gjalda verðar en þó ber að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki alls um rúmlega 150 millj. kr. Þar munar mest um niðurfellingu á vörugjaldi af rafmagnsvörum, þ.e. ýmiss konar raftækjabúnaði sem nýttur er í iðnaði.
    Ýmissa grasa kennir í þessu frumvarpi en samkvæmt því er vörugjald fellt niður af snakki, poppkorni, salthnetum, saltkexi og saltstöngum. Hins vegar er vörugjald af kakódufti hækkað og horfir það undarlega við í ljósi þess að hér er um að ræða vöru sem fremur verður flokkuð sem nauðsynjavara en þær vörutegundir sem að framan greinir, enda t.d. notað sem fæðubótarefni fyrir sjúklinga og aldraða.
    Þá má nefna að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir lækkun á vörugjaldi af skotvopnum og öðrum vopnum, svo sem sverðum, byssustingjum og lensum. Minni hlutinn telur vandséð að það flokkist undir forgangsverkefni að auðvelda aðgang landsmanna að þessum tólum með sérstökum skattalækkunum.
    Minni hlutinn telur að þessar breytingar eigi að bíða heildarendurskoðunar á lögum um vörugjald sem brýnt er að fram fari.

Alþingi, 9. maí 2000.



Ögmundur Jónasson,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.