Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1267  —  553. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra gerðu samninginn um framleiðslu sauðfjárafurða við Bændasamtök Íslands í mars síðastliðnum. Bændur hafa samþykkt samninginn fyrir sitt leyti í allsherjaratkvæðagreiðslu, enda þótt skiptar skoðanir hafi verið meðal þeirra um ágæti hans.
    Því er það svo að Alþingi stendur frammi fyrir orðnum hlut. Áðurnefndir ráðherrar hafa væntanlega gengið frá samningnum í þeirri fullvissu að þingmeirihluti stjórnarinnar mundi staðfesta hann þegar kæmi að formlegri afgreiðslu á Alþingi. Má ætla að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi fengið málið til umfjöllunar áður en frá því var gengið og undir samninginn var ritað. Stjórnarandstaðan hafði hins vegar enga aðkomu að málinu. Fulltrúar Samfylkingarinnar í landbúnaðarnefnd spurðu eftir því ítrekað á yfirstandandi vetri hver væri staða þeirra viðræðna sem þá urðu milli samningsaðila. Efnisleg svör voru engin og fylgdust undirritaðir þingmenn því með þróun viðræðna í fjölmiðlum eins og aðrir landsmenn.
    Í þessu ljósi hlýtur pólitísk ábyrgð málsins að vera ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans á Alþingi.
    Alþingi stendur frammi fyrir orðnum hlut og ljóst er að allar breytingar á samningnum mundu setja hann í uppnám og í raun fella hann úr gildi. Svigrúm löggjafarvaldsins er því vægast sagt ákaflega takmarkað.
    Með þessum samningi framselur Alþingi fjárveitingavald sitt að miklu leyti. Skuldbundnir eru tæpir 17 milljarðar kr. á næstu sjö árum. Það sem meira er, í ákvæðum samningsins er gert ráð fyrir að framkvæmdanefnd búvörusamninga hafi heimild til að færa fjármuni á milli einstakra verkefna sem tilgreind eru í samningnum breytist fjárþörf þeirra á samningstímanum, eða eins og segir í samningnum: „Samningsaðilar geta tekið ákvörðun um aðra skiptingu fjármuna milli verkefna og ára en í samningi þessum segir.“ Slíkt allsherjarframsal á fjárveitingavaldi vekur áleitnar spurningar.
    Undirritaðir árétta því í ljósi aðdraganda málsins og hinnar formlegu hliðar þess að samningurinn sé á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og eigi að vera það.
    Ljóst er að ýmis markmið sem tilgreind eru í samningnum eru á þann veg að vonir standa til að leiði til faglegri framleiðslustjórnunar í greininni. Ákvæði um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar eru meðal annars til marks um það og framlög til fagmennsku í sauðfjárrækt



Prentað upp.

sömuleiðis. Þjónustu- og þróunarkostnaður sem meðal annars á að nýta til hagræðingar og vöruþróunar og til að örva slátrun utan hefðbundins sláturtíma er líka nokkuð sem getur haft góð áhrif á þróun mála ef rétt er að verki staðið. Markmið um uppkaup á greiðslumarki lúta einnig þessum lögmálum.
    Undirritaðir telja því mörg jákvæð teikn á lofti sem undirstrika þau kunnu sjónarmið Samfylkingarinnar að bæta þurfi framleiðsluferlið og starfsumhverfi bænda og skapa þeim þannig ný sóknarfæri á markaði. Það mundi jafnframt bæta erfiða stöðu þeirra og slaka afkomu á liðnum árum.
    Hinu verður þó ekki litið fram hjá að framkvæmd samningsins er um margt opin. Það er alkunna að ýmis ákvæði samningsins frá 1995 náðu því miður ekki tilgangi sínum. Miklu skiptir hvernig framkvæmdanefnd samningsins tekst á við viðamikil verkefni sín. Árangurinn af samningnum stendur raunar og fellur með þeirri framkvæmd, en ekki þeim lagaramma sem Alþingi setur samningnum. Þar er aðkoma Alþingis engin, en framkvæmdarvaldið hefur þau völd og þá ábyrgð alfarið á hendi.
    Að samanlögðu munu þingmenn Samfylkingarinnar í landbúnaðarnefnd því ekki leggjast gegn framgangi málsins en vísa ábyrgð á upphafi og efndum þess á hendur ríkisstjórnarmeiri hlutanum. 1. minni hluti mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins í heild.
    Við meðferð málsins náðist um það samkomulag í nefndinni að leggja til breytingartillögu um ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra leggi fram frumvarp til laga um framkvæmd álagsgreiðslna vegna gæðastýringar. Þar er mjög komið til móts við áðurnefnd sjónarmið Samfylkingarinnar um aðkomu Alþingis að samningnum og munum við styðja þá tillögu.
    Jafnframt styður 1. minni hluti tillögu meiri hlutans um breytingu á 1. mgr. 20. gr. laganna er varðar verðskerðingargjald af verði hrossakjöts og nautgripakjöts. Sú breyting er í raun alls ótengd búvörusamningnum og er tilkomin vegna óska Landssambands kúabænda og hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Alþingi, 8. maí 2000.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.