Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1330  —  553. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Frumvarpið byggist á samningi ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 og þarf að breyta tilteknum ákvæðum laga nr. 99/1993 til þess að markmið samningsins nái fram að ganga. Skrifað hefur verið undir samninginn með fyrirvara um samþykki bænda og Alþingis. Bændur hafa þegar samþykkt samninginn í atkvæðagreiðslu og því er svigrúm Alþingis til breytinga lítið.
    Samningnum er ætlað að bæta afkomu sauðfjárbænda, en hún er verulegt áhyggjuefni. Margt er jákvætt í þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og samningnum en þar eru einnig breytingar sem ekki er fyrirsjáanlegt hvaða áhrif hafa á afkomu búgreinarinnar og búsetu í landinu.
    Hvað varðar gæðastýringuna tekur 2. minni hluti undir nefndarálit meiri hlutans að því viðbættu að varað er við miklu og kostnaðarsömu eftirliti gæðastýringarinnar, sérstaklega þeim þætti sem snýr að bændum.
    Heimilt er ríkissjóði að kaupa upp 45.000 ærgildi. Ekki er vitað hvernig uppkaupin dreifast um landið og hvaða áhrif þau geta haft á einstakar byggðir, t.d. ef mikil uppkaup verða af takmörkuðu svæði. Því er mikilvægt að kanna áhrif uppkaupanna á afkomu og búsetuskilyrði bænda áður en frjálst framsal verður leyft. Þessi könnun verði gerð óháð grein 6.3 í samningnum um að samningsaðilar skuli að þremur árum liðnum gera úttekt á framkvæmd samningsins með tilliti til markmiða hans. Við endurskoðun skal sérstaklega hugað að hvernig til hefur tekist með undirbúning og framkvæmd gæðastýringar og hve stór hluti stuðnings skuli greiddur út á gæðastýrða framleiðslu.
    Mikilvægt er að þeir fjármunir sem eru ekki fullnýttir til greiðslu eða uppbóta fari til verkefna innan búgreinarinnar. 2. minni hluti telur því að þeir fjármunir, sem kunna að sparast fyrir ríkið með uppkaupum á allt að 20.000 ærgildum sem ekki verður endurúthlutað, eigi að ganga á einhvern hátt aftur til greinarinnar. Þar má nefna sem dæmi stuðning við bændur sem vilja nota gæðastýringuna sem leið að lífrænum sauðfjárbúskap eða til að tryggja greiðslur vegna flutningskostnaðar á sláturfé. Þetta á sérstaklega við um bændur sem flytja fé um lengri leiðir en áður hefur þekkst vegna samkeppni milli sláturleyfishafa og fækkunar sláturhúsa.
    Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans eykst markaður fyrir lífrænt ræktað vörur stöðugt og er dilkakjöt þar engin undantekning. Framleiðslukostnaður er nokkuð hærri en í hefðbundinni framleiðslu en á móti kemur hæsta afurðaverð. Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd enda eru slíkir búskaparhættir í góðu samræmi við sjálfbæra þróun og virðingu fyrir jarðvegi, gróðri og búfé. Með meiri hvatningu og stuðningi gæti lífrænn landbúaður jafnframt stuðlað að eflingu byggðar í sveitum landsins og í úrvinnsluiðnaði. Þessi valkostur getur hentað sumum bændum. Hvorki í samningnum sjálfum né frumvarpinu er að finna nokkurn hvata fyrir bændur til þess að hefja eða leggja stund á slíka ræktun. Þó er gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skilgreind sem dilkakjöt sem framleitt hefur verið eftir kröfum um ákveðinn framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd og því stutt í lífræna vottun. Nýta mætti sjö ára gildistíma samningsins sem nokkurs konar aðlögunartíma að aukinni lífrænni framleiðslu og eins því að bændur muni í framtíðinni mæta harðari samkeppni en hingað til í framleiðslunni og á innanlandsmarkaði. Því þarf að hvetja og styðja bændur til þess að laga búskap sinn að lífrænum búskaparháttum.
    Í ljósi bágrar afkomu sauðfjárbænda undanfarin ár og veikrar stöðu byggðar víða í sveitum, ekki síst þar sem byggt er á sauðfjárrækt, verður að draga í efa að þessi samningur dugi til að bæta ástandið að einhverju ráði. Tekjur sauðfjárbænda og fjölskyldna þeirra verða að hækka, annaðhvort með betri afkomu af búrekstrinum eða auknum stuðningi að einhverju leyti. Því hefði 2. minni hluti talið að ef eitthvað er þyrfti meiri fjármuni, a.m.k. fyrstu ár samningsins.
    Annar minni hluti flytur breytingartillögur á sérstöku þingskjali um tvö mikilvæg atriði. Verði þær samþykktar gæti 2. minni hluti stutt meginefni frumvarpsins með vísan til þess fyrirvara sem fyrr greinir. Að öðrum kosti mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 2000.



Þuríður Backman.