Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1347  —  488. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Frey Guðmundsson og Eyvind Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Finn Sveinbjörnsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ara Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands og Birgi R. Jónsson og Árna S. Mathiesen frá Samtökum verslunarinnar. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Verslunarráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, VISA Ísland, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum verslunarinnar, Samtökum atvinnulífsins, Neytendasamtökunum og Lögmannafélagi Íslands.
     Með frumvarpinu er lagt til að þeim ráðum sem unnt er að beita gegn samkeppnishindrunum verði fjölgað og ákvæði sem nú gilda gerð skilmerkilegri. Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að bann verði við samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja. Er sú regla byggð á 53. gr. EES-samningsins og er sambærileg ákvæðum í t.d. danskri, sænskri, breskri og hollenskri löggjöf. Þá er lagt til að misnotkun á markaðsráðandi stöðu verði bönnuð fyrir fram, en samkvæmt núverandi löggjöf geta samkeppnisyfirvöld einungis bannað háttsemi sem felur í sér misbeitingu markaðsyfirráða eftir á. Þetta þýðir að fyrirtæki geta misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína þar til samkeppnisyfirvöld grípa inn í. Þessi nýja bannregla er byggð á 54. gr. EES-samningsins. Lagt er til að samrunaákvæði laganna verði styrkt verulega og taki m.a. til styrkingar á markaðsráðandi stöðu og að unnt verði að beita reglunum þegar markaðsráðandi staða verður til við samruna. Þá er lagt til að lögfest verði efni tilskipunar ESB um samanburðarauglýsingar og loks að sektarákvæði laganna verði skýrð og styrkt.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í fyrsta lagi er lögð til smávægileg breyting á 2. gr. frumvarpsins. Er lagt til að orðið „alvarleg“ falli brott þar sem hringamyndun sem þar er m.a. fjallað um leiðir ávallt til takmörkunar á samkeppni. Þarf því ekki að taka fram að um alvarlega hringamyndun þurfi að vera að ræða.
     2.      Þá er lögð til sú breyting á 8. gr. frumvarpsins að viðskiptaráðherra verði skylt að setja reglur um hópundanþágur sem feli í sér að tilkteknum tegundum samninga verði veitt undanþága frá 10. og 12. gr. laganna, en í frumvarpinu er einungis kveðið á um að ráðherra geti sett slíka reglugerð. Telur meiri hlutinn nauðsynlegt að kveðið verði skýrt á um að slíkar reglur verði settar.
     3.      Loks leggur meiri hlutinn til breytingar á 10. gr. frumvarpsins sem varða heimildir samkeppnisráðs til að ógilda samruna ef það telur að hann hindri virka samkeppni. Leggur meiri hlutinn til að sett verði svokölluð minniháttarregla í greinina til þess að takmarka þau tilvik sem falla undir ákvæði hennar. Er það í samræmi við ákvæði samkeppnislaga í flestum ríkjum Evrópu. Er því lagt til að ákvæðið taki einungis til samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 1 milljarður kr. eða meira og ársvelta a.m.k. tveggja fyrirtækja sem aðild eiga að samruna er 50 millj. kr. eða meira. Þá er lagt til að skylt verði að tilkynna Samkeppnisstofnun um samruna sem uppfyllir þessi skilyrði og jafnframt að Samkeppnisstofnun verði skylt að tilkynna fyrirtækjum innan þrjátíu daga ef hún telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Pétur H. Blöndal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Gunnar Birgisson.