Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1348  —  488. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, KHG, HjÁ, SAÞ, GunnB).



     1.      Við 2. gr. Orðið „alvarleg“ í síðari málslið 1. tölul. falli brott.
     2.      Við 8. gr. Í stað orðanna „Samkeppnisráð getur sett“ í 4. efnismgr. komi: Samkeppnisráð setur.
     3.      Við 10. gr. Í stað 2. efnismgr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ákvæði 1. mgr. tekur einungis til samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 1 milljarður kr. eða meira. Telja skal með veltu móður- og dótturfélaga, fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem aðilar samrunans hafa bein eða óbein yfirráð yfir. Þá skulu a.m.k. tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 50 millj. kr. ársveltu hvert um sig til að 1. mgr. taki til hans.
                  Tilkynna skal Samkeppnisstofnun um samruna sem fellur undir 1. mgr. eigi síðar en einni viku eftir að samningi um hann er lokið eða tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða að tiltekinn aðili hafi náð yfirráðum í fyrirtæki. Frestur hefst þegar eitt af þessu hefur gerst. Í tilkynningunni skal veita upplýsingar um samrunann og um þau fyrirtæki sem honum tengjast. Samkeppnisráð setur reglur þar sem nánar eru tilgreindar þær upplýsingar sem fram verða að koma í tilkynningu, þar á meðal um markaði sem samruninn hefur áhrif á og um önnur nauðsynleg atriði við athugun á samkeppnislegum áhrifum hans.
                  Samkeppnisstofnun skal tilkynna viðkomandi fyrirtækjum innan þrjátíu daga ef hún telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Frestur þessi byrjar að líða þegar Samkeppnisstofnun berst tilkynning sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. og reglna sem settar eru samkvæmt ákvæðinu. Berist tilkynning frá Samkeppnisstofnun skv. 1. málsl. ekki innan tilskilins frests getur samkeppnisráð ekki ógilt samrunann. Ákvörðun um ógildingu skal taka eigi síðar en þremur mánuðum eftir að tilkynning skv. 1. málsl. hefur verið send viðkomandi fyrirtækjum.