Úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:23:42 (3618)

2001-01-16 14:23:42# 126. lþ. 58.4 fundur 378. mál: #A úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller beinir á þskj. 608 eftirfarandi fsp. til dóms- og kirkjumrh.:

,,Hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar ákvörðun um úthlutun fjármuna úr Jöfnunarsjóði sókna, sbr. II. kafla laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987?``

Um sjóðinn gilda lög um sóknargjöld svo og reglugerð um Jöfnunarsjóð sókna, nr. 206/1991, og ég ætla mér að fara yfir þessar forsendur.

Samkvæmt nefndum heimildum er hlutverk sjóðsins skilgreint í 6. gr. laganna og þær meginforsendur sem byggja ber á við úthlutun. Í 2. gr. reglugerðarinnar er nánari skilgreining á þessum meginforsendum svo og prósentuskipting fjár í helstu flokka. Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári. Skilyrði er að fyllt sé út sérstakt eyðublað og að með fylgi þau gögn sem þar er greint frá, þ.e. endurskoðaðir ársreikningar, rekstraryfirlit, fjárhagsáætlun og nákvæm kostnaðaráætlun verksins ásamt teikningum ef við á. Umsóknir um styrki til nýbygginga kirkna og annarra fjárfrekra framkvæmda skulu að jafnaði berast sjóðnum áður en hafist er handa við framkvæmdir. Ferill umsókna frá einstökum sóknum er sá að fyrst þarf að afla umsagna frá héraðsnefnd viðkomandi prófastsdæmis og síðan fara umsóknirnar fyrir bygginga- og listanefnd þjóðkirkjunnar sem fjallar faglega og ítarlega um þær og sendir þær síðan til kirkjuráðs með umsögn sinni.

Svigrúm sjóðsstjórnar, þ.e. kirkjuráðs, til úthlutunar er talsvert takmarkað samkvæmt reglugerðinni. Núverandi kirkjuráð hefur sett sér ákveðin viðmið vegna úthlutunar og þau helstu eru þessi:

1. Úthlutað er í desember ár hvert vegna styrkja á næsta ári.

2. Úthlutað er til allt að þriggja ára.

3. Hertar eru reglur um kröfur til formsatriða umsókna og fjárhagslegs bolmagns safnaða til að ráðast í framkvæmdir.

4. Verkefni sem byrjað hefur verið á hafi vissan forgang svo og þegar þarf að leysa úr fjárhagsvanda skuldsettra sókna vegna framkvæmda.

5. Viðhald allra friðaðra kirkna er söfnuðum og kirkjustjórninni um megn. Viðræður fari fram við húsfriðunarnefnd um raunhæfa forgangsröðun og möguleika fámennra sókna til að takast á við slík verkefni og hlutverk Jöfnunarsjóðs í því sambandi.

6. Við úthlutun til verkefna er einkum höfð hliðsjón af umsögn bygginga- og listanefndar hver fjárhagsgeta sóknar er, heildarskuldir og hvaða aðra styrki hún fær. Útborgun styrks er í sumum tilvikum skilyrt t.d. þannig að meðmæli frá héraðsnefnd eða bygginga- og listanefnd þurfi að liggja fyrir.

Að því leyti sem unnt er innan ramma laga og reglna er einnig litið til þess við úthlutun að styrkja fámenna og fátæka söfnuði sem ekki hafa burði til að reka eða viðhalda sóknarkirkju fyrir sóknargjöld einvörðungu. Hafa ber í huga að af þeim 300 kirkjum sem eru í landinu eru 210 friðaðar og því er bæði viðhalds- og rekstrarkostnaður oft meiri en ella. Þá er enn fremur hugað að söfnuðum sem hafa reist eða þurfa að reisa kirkju og þurfa sérstaka aðstoð á meðan á því stendur.

Kirkjuþing setti sl. haust nýjar starfsreglur um kirkjur og safnaðarheimili, nr. 822/2000. Þar er m.a. tekið á þeim vanda sem upp kemur þegar kirkjur hafa verið yfirgefnar, t.d. þegar íbúar hafa flust brott úr sókninni. Jöfnunarsjóður hefur styrkt viðhald og endurbætur slíkra kirkna en samkvæmt hinum nýju starfsreglum er unnt að stofna félag um slíkar kirkjur sem þá nefnast bænhús.

Rétt er að ítreka að styrkir Jöfnunarsjóðs fela oft í sér umtalsverðan stuðning við varðveislu menningarverðmæta um land allt og oft tengjast framkvæmdir ferðaþjónustu. Einnig er rétt að fram komi að kirkjur og safnaðarheimili þjóna oft íbúum sem samkomuhús og til tónleikahalds. Þar er oft aðstaða fyrir margvíslegt félagsstarf utan eiginlegs kirkjustarfs.

Að lokum, herra forseti, vil ég minna á að skömmu fyrir áramót veitti ég sundurliðaðar upplýsingar um allar úthlutanir Jöfnunarsjóðs sókna frá árinu 1988 til ársins 2000, að báðum árunum meðtöldum.

Ég vil að lokum þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. Ég þekki forsendurnar fyrir henni. Til mín hefur komið fólk frá öðrum skráðum trúfélögum og vakið athygli mína á þeim mismun sem er fyrir hendi en staða íslensku þjóðkirkjunnar er auðvitað sterk og tryggð í stjórnarskrá. Það er hins vegar spurning hvort hægt er að skoða þetta út frá reglum um húsafriðun eða á einhvern annan máta. Mér finnst rétt að það sé athugað.