Úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:28:52 (3619)

2001-01-16 14:28:52# 126. lþ. 58.4 fundur 378. mál: #A úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmrh. svörin sem voru mjög ítarleg og góð. Eins og fram kom í ræðu minni hér áðan er Jöfnunarsjóður sókna eingöngu til ráðstöfunar til sókna innan þjóðkirkjunnar. Önnur trúfélög hafa þannig ekki möguleika á að sækja um aukinn stuðning við starf sitt í þennan sjóð. Aðstöðumunur milli þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga gagnvart ríkinu er verulegur. Ég tel ástæðu til þess að vekja sérstaklega athygli á því.

Tæplega 250 þús. manns eru skráð í þjóðkirkjuna 1. des. sl. en um 11 þús. manns eru skráð í fríkirkjur landsins, þ.e. Fríkirkjuna í Reykjavík og Hafnarfirði og Óháða söfnuðinn. Álíka margir eru í öðrum viðurkenndum trúfélögum og þar af 4.300 manns í kaþólsku kirkjunni. Um 12.000 manns tilheyra óskráðum trúfélögum, eru ótilgreindir eða skráðir utan trúfélaga. Sókn fólks úr þjóðkirkjunni til annarra trúfélaga hefur aukist á undanförnum árum og það er athyglisvert.

[14:30]

Skráð trúfélög utan þjóðkirkjunnar byggja fjárhagslega starfsemi sína fyrst og fremst á sóknargjöldum og eru laun presta, allt safnaðarstarf og rekstur og viðhald kirkna greitt af því gjaldi. Til samanburðar má nefna að tekjur þjóðkirkjunnar fást í gegnum sóknargjöld auk þess sem ríkið greiðir sérstaklega laun presta og biskupa og ýmsan kostnað við rekstur embætta auk launa og rekstrarkostnaðar vegna Biskupsstofu. Þá hefur þjóðkirkjan aðgang að Jöfnunarsjóði sókna sem er hér sérstaklega til umfjöllunar.

Ég vil í þessu sambandi taka sérstaklega dæmi af fríkirkjusöfnuðum sem eru lútersk-evangelískir söfnuðir og byggja á sömu kenningum og þjóðkirkjan. Þeir þurfa sjálfir að standa undir kostnaði við endurbætur og viðhald kirkna sinna sem eru friðaðar byggingar og endurbætur því háðar ákveðnum skilyrðum sem leiða til aukins kostnaðar. Söfnuðirnir hafa ekki sömu möguleika að sækja sér fjárhagslegs stuðnings og sóknir innan þjóðkirkjunnar. Til dæmis má nefna að Fríkirkjan í Hafnarfirði hefur á undanförnum árum staðið í miklum framkvæmdum vegna viðhalds á kirkjunni og kostaði framkvæmdin um 65 millj. kr. Eini fjárhagslegi stuðningurinn af opinberu fé sem kirkjan hefur fengið er 5 millj. kr. framlag úr Húsafriðunarsjóði, þar af 3 millj. af fjárlögum fyrir árið 2001.