Framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:31:32 (3620)

2001-01-16 14:31:32# 126. lþ. 58.5 fundur 373. mál: #A framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Krafan um breikkun Reykjanesbrautar hefur verið hávær upp á síðkastið, ekki síst vegna vaxandi fjölda alvarlegra umferðarslysa á brautinni síðustu missiri en nú hefur það verið leitt inn í umræðuna að ástandið sé ekki síður slæmt á öðrum sambærilegum vegum, svo sem Vesturlandsvegi þar sem umferðarþungi er jafnmikill eða meiri en á Reykjanesbraut og umferðarslysin jafnmörg eða fleiri.

Þá er eðlilegt að menn vilji ræða hlutina í samhengi og skoða þá líka aðrar lausnir, ekki svo kostnaðarsamar sem gætu orðið til þess að draga úr slysum, lausnir sem gætu bætt ástandið með tilliti til nánustu framtíðar þó ekki verði farið út í ýtrustu framkvæmdir umsvifalaust.

Nú hafa verið að birtast í fjölmiðlum upplýsingar um orsakir þeirra alvarlegu slysa sem orðið hafa á Reykjanesbrautinni. Kemur í ljós að stór hluti eða þriðjungur slysanna hefur orðið við útafkeyrslur sem má mögulega rekja til þess að ökumenn sofni undir stýri eða missi vald á ökutækjum vegna hálku. Það er alveg ljóst að tvöföldun brautarinnar kemur ekki í veg fyrir slík slys. Það mundu hins vegar vegrið beggja vegna brautarinnar mögulega geta gert. Varðandi þau slys þar sem bíll fer yfir á rangan vegarhelming og lendir framan á öðrum sem kemur úr gagnstæðri átt má ljóst vera að aðskilnaður akstursstefna er lykilatriði til að koma í veg fyrir slík slys. Akstursstefnur yrðu trúlega aðskildar með tvöföldun en það mætti líka hugsa sér að aðskilja þær með vegriðum strax án tvöföldunar.

Meðal þess sem komið hefur upp í umræðum síðustu vikna um umferðaröryggi á Reykjanesbraut eru hugmyndir um svonefndan 2 + 1 veg þar sem akreinar eru þrjár alla leiðina en til skiptis tvær í aðra áttina og ein í hina. Okkur ber líka að taka alvarlega upplýsingar sem berast til okkar um umferðarþunga eins og kom fram í grein Sólmundar Más Jónssonar í Morgunblaðinu 19. desember. Þá er algengt að miða við að vegur með eina akrein í hvora akstursstefnu geti annað 12--15 þúsund bifreiðum á dag. Um Reykjanesbrautina fara átta þúsund bifreiðar á dag. Það gefur til kynna að eitthvað annað en umferðarþunginn kalli á tvöföldun brautarinnar. Ef það er ekki umferðarþunginn sem kallar á tvöföldunina, hvað er það þá? Eru vísbendingar um hraðakstur kannski meginorsök alvarlegra slysa á Reykjanesbraut? Er lausnin þá ekki frekar fólgin í aukinni löggæslu sem mundi knýja fram aukna aðgát ökumanna heldur en tvöföldun brautarinnar?

Í framhaldi af þessum hugleiðingum höfum við, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, lagt nokkrar fyrirspurnir fyrir bæði hæstv. dómsmrh. sem eru skriflegar og fyrir hæstv. samgrh. sem eru munnlegar og bornar fram í þessum fyrirspurnatíma:

1. Á hvaða stigi er undirbúningur framkvæmda við Reykjanesbraut og hvenær má vænta að einstakir vegáfangar verði boðnir út og framkvæmdum ljúki?

2. Hefur verið athugað að grípa til bráðabirgðaaðgerða, svo sem uppsetningar vegriða, til að auka öryggi á hættulegum vegarköflum þar til tvöföldun er lokið?

Og að lokum spurning sem kemur til vegna yfirlýstrar stefnu samgrn. um að bæta almenningssamgöngur í landinu, bæði í þéttbýli og dreifbýli, og sömuleiðis er í umhverfisstefnu ráðuneytisins skýrt tekið fram að leggja beri áherslu á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum með það að markmiði að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda:

3. Hvað líður athugun á rafbraut frá höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur?