Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:27:52 (3639)

2001-01-16 15:27:52# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Innflutningur nautakjöts frá Írlandi nú á dögunum er einangrað tilfelli og trúlega ekki það alvarlegasta sem gerst hefur varðandi innflutning á kjöti eða tilbúnum réttum sem innihalda kjöt. Því miður hefur ríkt hér nokkurt andvaraleysi varðandi innflutning matvæla. Þetta mál gefur okkur tilefni til að endurskoða allt eftirlit með innflutningi þeirra. Hér hafa þó ríkt kröfur um innflutning kjöts til landsins sem hafa oft sætt gagnrýni og því verið haldið fram að heilbrigðisreglum væri beitt með fölskum viðskiptahindrunum af þeim sem hafa barist fyrir óheftum innflutningi.

Með innflutningi til landsins á matvælum fylgir mikil og vaxandi áhætta og við megum ekki sofna á verðinum. Við eigum að fara að öllu með gát í þessu máli því þar hafa bæði bændur og neytendur sömu hagsmuna að gæta.

Kúariða hefur aldrei fundist hér á landi og fullyrða má að Ísland sé laust við þennan sjúkdóm, ekki síst vegna ákvörðunar sem tekin var árið 1978. Kúariðan er ný ógn sem taka verður mjög alvarlega og gera allt sem hægt er að varast að hún berist til landsins. Öflugur og vel rekinn landbúnaður er þáttur í sjálfstæði hverrar þjóðar og hann er mikilvægur þáttur í íslensku atvinnulífi, bæði hvað varðar framleiðslu og úrvinnslu greinar og hefur íslenskur landbúnaður lagt sitt fyllilega af mörkum til betri lífsafkomu þjóðarinnar. Okkur ber að hlúa að íslenskum landbúnaði, það er bæði neytendum og bændum fyrir bestu.

Herra forseti. Álit mitt er það að við eigum þegar í stað að banna innflutning frá þeim löndum þar sem kúariða hefur komið upp.