Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:32:14 (3641)

2001-01-16 15:32:14# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Árum saman fóru ýmsir talsmenn Alþfl. hamförum í árásum sínum á Framsfl. og aðra þá sem vildu fara varlega hvað varðar innflutning á kjöti erlendis frá. Undir þessar árásir tóku ýmsir einstakir kaupmenn og jafnvel Neytendasamtökin. Ég fagna því að flestir þessara aðila skuli hafa séð að sér og breytt um skoðun þó að enn megi heyra hér í þingsölum gamla kratatóninn hvað varðar innflutning á kjöti.

Staðreyndin er nefnilega sú að varnaðarreglan er í fullu gildi. Hún snýst um að vernda íslenska náttúru og hún snýst um að vernda hreinleika íslensks landbúnaðar.

Tilefni umræðunnar að þessu sinni er kúariðufaraldur í Evrópu. Það er rétt að leggja áherslu á að vísindalega séð er í rauninni afskaplega lítið vitað um uppruna og útbreiðslu kúariðu og smittíma og þar fram eftir götunum. Einnig er rétt, herra forseti, að minna á að fyrstu viðbrögð ráðamanna í Bretlandi, þegar kúariðufaraldurinn kom þar upp, voru þau að ganga í fjölmiðla og éta þar hamborgara með börnum til að sýna að hættan væri ekki til staðar. Annað kom síðan í ljós.

Við megum ekki og munum ekki falla í sömu gryfju og Bretar gerðu. Við þurfum að skoða í fyrsta lagi: Eigum við að taka tímabundið fyrir innflutning á hráu kjöti þaðan sem kúariðufaraldur hefur gosið upp? En það eitt er ekki nóg. Við flytjum líka inn unnar kjötvörur og við vitum einnig að talið er líklegt að kúariða eyðist ekki við suðu. Þá þarf að taka á því máli einnig með upprunavottorði. En í þriðja lagi þarf líka að efla fræðslu til almennings, Íslendinga sem leggja land undir fót og snæða í Evrópu. Það gerist auðvitað ekki með lögum heldur með fræðslu. Ég treysti hæstv. ráðherra og þar til bærum stjórnvöldum til að taka á þessu máli því að ekki mega verða slys.