Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:38:28 (3644)

2001-01-16 15:38:28# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra áðan. Við höfum fengið svolitla nasasjón af hinum pólitíska ferli hans og áhuga á sínum tíma og ég vona að eitthvað sé eftir af þeim áhuga í dag, að sporna við innflutningi á fersku kjöti en ég hefði viljað fá skýr svör við þeim spurningum sem lagðar voru fram.

Því miður finnst mér eins og hæstv. landbrh. sé að skjóta sér á bak við starfsmenn sína en hann ber fulla ábyrgð á þeim innflutningi sem verið er að ræða um og öðrum innflutningi á fersku kjöti frá því hann tók til starfa og hann ber ábyrgð á því að eftir lögum og reglum sé farið. Greinilegt er að viðhafðar hafa verið leikreglur undir stjórn hæstv. landbrh. þar sem farið hefur verið á svig við þau lög og reglur sem gilda í landinu.

Og finnist starfsmönnum ráðuneytisins og yfirdýralækni að þær reglur sem settar hafa verið séu ekki sanngjarnar, séu ekki réttar og standist ekki lögin þá hefði átt að vera búið að fara yfir það og tilkynna því að í landinu er fólk sem fylgist með og hefur verið þess fullvisst að farið hafi verið eftir þeim reglum sem í gildi eru og mátt hafi treysta því að þær vörur sem það hafi verið að kaupa hafi verið hreinar og góðar vörur. Ég ætla að vona að ekkert komi fram sem sýni annað. En það eru miklu fleiri sjúkdómar og hugsanlega alvarlegri en kúariða sem geta borist með bæði dýrum og eins kjötvöru og annarri vöru. Því er mjög nauðsynlegt að fara vel yfir þetta mál, herða reglurnar, a.m.k. að farið sé eftir þeim reglum gilda í dag.