Eiturefni og hættuleg efni

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:08:20 (3657)

2001-01-16 16:08:20# 126. lþ. 59.3 fundur 369. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (yfirstjórn, gjaldtaka o.fl.) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:08]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er bryddað upp á máli, með frv. til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, sem tengist umhverfismálum. Það er ofarlega á baugi í samfélaginu í dag og heyrir undir stofnanir umhvrn.

Hollustuvernd er ein af stofnunum umhvrn. Ég rifja það upp í framhaldi af því sem hér hefur verið sagt að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sóttu það fast í umræðum um fjárlagafrv. að Hollustuvernd ríkisins fengi hærri fjárveitingu en gert var ráð fyrir. Ég held satt að segja að það sé komið á daginn og þau ummæli sem hér hafa farið á milli hæstv. umhvrh. og hv. þm. Jóhanns Ársælssonar staðfesta það, að þessi málaflokkur fer vaxandi. Varðandi Evróputilskipanirnar sem hafa verið gerðar og eru fyrirliggjandi varðandi hættuleg efni þá verður að segjast eins og er að Hollustuvernd hefur ekki haft undan að þýða reglugerðir. Við náum ekki að koma þeim reglugerðum sem okkur ber skylda til að setja samkvæmt Evróputilskipunum fram á þeim hraða sem eðlilegt væri.

Einnig er ljóst að Hollustuvernd ríkisins hefur ekki getað ráðið í þær stöður sem losnað hafa, a.m.k. ekki síðasta ár. Ég hef talsvert miklar áhyggjur af því að sá málaflokkur sem Hollustuvernd fæst við skuli ekki fá meira brautargengi hjá fjárveitingavaldinu og vil þá kannski efna til umræðna við hæstv. umhvrh. um það hvort hún og sjónarmið hennar hafi þurft að lúta í lægra haldi í ríkisstjórnarsamstarfinu hvað þetta varðar. Ég tel fulla ástæðu til að hæstv. umhvrh. geri allt sem í hennar valdi stendur til að fá aukið fé til Hollustuverndar til þess að efla þennan málaflokk.

Tilskipanir sem okkur er gert að fjalla um varðandi hættuleg efni eru mjög yfirgripsmiklar. Þær eru neytendamál og neytendamál eru, t.d. í ljósi utandagskrárumræðu sem var hér áðan, eitt af stærstu málunum. Ég tek undir það með hæstv. umhvrh. að umfang umhvrn. og vægi þess í stjórnsýslunni hefur aukist. Það er kominn tími til að það verði viðurkennt.

Ég vil aðeins nefna að í frv. er fjallað mikið um fegrunar- og snyrtiefni. Og hæstv. umhvrh. segir að tímabært sé að ná þessum fegrunar- og snyrtiefnum undir lögin um eiturefni og hættuleg efni. Þar er ég hjartanlega sammála henni. Það er sannarlega tímabært. Hins vegar vil ég líka vekja máls á því að önnur efni en þau sem teljast eiturefni og eru notuð í snyrtivöruiðnaði eru oft á tíðum grunsamleg. Það er sannarlega þess virði að fylgjast betur en gert hefur verið hingað til með þeim efnum sem notuð eru í fegrunarlyf og snyrtivörur.

Þá erum við komin inn á þá braut að ræða um siðfræði vísindanna og áleitnar spurningar eins og: Hvaðan eru efnin komin sem notuð eru í snyrtivöruiðnaðinum? Þar er sannarlega margs að gæta. Mér segir svo hugur, herra forseti, að um það verði rætt í umhvn. sem kemur til með að fá þetta mál til umfjöllunar. Ég býst við að þar verði farið ansi djúpt í þessi mál. Ég lýsi yfir, herra forseti, vilja mínum til að taka vel á þessu máli, skyggnast þar undir yfirborðið og sjá til að neytendavernd á Íslandi verði efld undir forustu umhvrn.