Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 17:44:26 (3674)

2001-01-16 17:44:26# 126. lþ. 59.9 fundur 101. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á þskj. 101 flyt ég ásamt fimm öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar frv. til laga um breytingu á lögum virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Tillögur þær sem frv. felur í sér eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að hlutfall endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað við byggingu íbúðarhúsnæðis, viðhald á því og endurbætur, verði hækkað til fyrra horfs eins og það var árið 1990, þ.e. úr 60% í 100%.

[17:45]

Í öðru lagi verði sambærileg ákvæði látin gilda um framleiðslu á verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum.

Í þriðja lagi fari endurgreiðslur á virðisaukaskatti fram mánaðarlega í staðinn fyrir á tveggja mánaða fresti eins og nú er.

Breytingin sem gerð var á lögunum um virðisaukaskatt árið 1996 var að mínu áliti mjög vanhugsuð. Þá var endurgreiðsluhlutfallið lækkað úr 100%, en það var lögleitt í árið 1990 þegar lögin um virðisaukaskatt tóku gildi, í 60%. Fyrir gildistíma laganna um virðisaukaskatt var vinna manna á byggingarstað, við verksmiðjuframleidd timburhús o.s.frv. alfarið undanþegin virðisaukaskatti. Hefði ekki verið veitt undanþága í lögum um virðisaukaskatt hefði öll slík vinna þar með verið skattlögð. Menn töldu ekki rétt að fara út á þá braut, að skattleggja vinnu sem hefði ekki verið skattlögð áður í söluskattskerfinu, m.a. til að koma í veg fyrir að svarta atvinnustarfsemi og það að greiðslum íbúðareigenda væri skotið undan skatti.

Ástæðan fyrir því að þessi breyting er nú lögð til er sú að þrátt fyrir stóraukin umsvif í húsabyggingum og lánveitingum til húsbyggjenda á árunum síðan breytingin tók gildi hefur umsóknum um endurgreiðslur fækkað mjög og upphæð endurgreiðslunnar lækkað mjög. Af því má draga þá ályktun að breytingin sem gerð var árið 1996 hafi stuðlað að því að svört atvinnustarfsemi í greininni hafi aukist umtalsvert. Upphaflegt markmið endurgreiðsluheimildarinnar var einmitt að hún ynni gegn svartri atvinnustarfsemi í byggingariðnaði.

Í ágústhefti Tíundar, tímariti embættis ríkisskattstjóra, rekur Guðlaug M. Valdimarsdóttir áhrif umræddra breytinga á fjölda umsókna og fjárhæðir endurgreiðslna virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna við byggingu, viðhald og viðgerð á íbúðarhúsnæði. Þar koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar.

Árið áður en lögin tóku gildi, þ.e. þegar endurgreiðslan var 100%, nam endurgreiðsla virðisaukaskatts 560 millj. kr., þ.e. árið 1996. Strax á fyrsta ári breytingarinnar, þ.e. eftir að endurgreiðslan hafði verið lækkuð úr 100% niður í 60%, lækkuðu endurgreiðslurnar niður í 226 millj. kr. eða um 59,6% strax á á fyrsta ári. Þær hafa haldið áfram að lækka og lækkuðu um 47,7 millj. kr., t.d. síðasta árið sem upplýsingar eru til um, þ.e. árið 1999.

Sama máli gegnir ef litið er á fjölda umsókna um endurgreiðslur en þær námu árið 1996, síðasta árið sem 100% endurgreiðsluheimild var veitt, samtals 10.768 beiðnum. Strax ári síðar hafði beiðnunum fækkað um 41,7%, eða niður í 6.890 og árið 1999, síðasta árið sem upplýsingar eru til um, voru endurgreiðslubeiðnir aðeins 3.630, þ.e. rösklega 1/3 af því sem þær voru árið 1996 áður en breytingin á endurgreiðslunum tók gildi.

Til samanburðar er nefnt í grein þessari að aukning á útlánum húsbréfakerfisins til nýbygginga og endurbóta nam 17,6% milli áranna 1996 og 1997, 18,4% milli áranna 1997 og 1998 og 20,4% á milli áranna 1998 og 1999. Margir íbúðareigendur fjármagna framkvæmdir sínar með öðrum hætti en töku húsbréfalána. Því er líklegt að framkvæmdir hafi verið mun meiri en húsbréfatölur gefa til kynna enda er almennt vitað og viðurkennt að miklar framkvæmdir hafa verið í byggingariðnaði á síðustu árum, mikill vinnuaflsskortur og mikil þensla.

Í greininni segir Guðlaug orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að endurgreiðsluheimildin hefur haft mikið að segja í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi en viðbúið er að þau áhrif hafi eitthvað minnkað við lækkun endurgreiðsluhlutfallsins.`` Er hér varlega að orði komist.

Það er auðsætt, herra forseti, hvaða áhrif sú vanhugsaða breyting sem gerð var árið 1996 hefur haft. Hún hefur haft þau áhrif að þrátt fyrir stórauknar framkvæmdir við byggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis á hverju einasta ári síðan, þannig að nú hefur verið hvert metárið á fætur öðru í þeim efnum, þá hefur umsóknum fækkað og endurgreiðslufjárhæðir lækkað mjög verulega á hverju einasta ári. Þetta þýðir ekki nema eitt, þ.e. að svört atvinnustarfsemi í byggingariðnaði hefur stóraukist og ríkið verður af skatttekjum vegna þess að verulegur hluti vinnunnar er dreginn undan skatti.

Ekki er oft hægt að ná þeim tveimur markmiðum í senn, þ.e. að auka skattskil og þar með skatttekjur ríkisins og jafnframt létta útgjöldum af húsbyggjendum. Breytingin sem lögð er til í þessu frv. gerir hvort tveggja. Það munar verulega fyrir húsbyggjendur, hvort sem um er að ræða nýbyggingar eða viðhald á byggingum, að endurgreiðsluhlutfall vinnu vegna manna á byggingarstað sé hækkað úr 60% í 100%. Það segir sig sjálft. Það verður til þess að lækka allverulega byggingarkostnað sem nú þegar er orðinn mjög hár og hefur farið vaxandi með hverju ári.

Í öðru lagi sýnir reynslan okkur að sú breyting mundi stuðla að miklu betri skattskilum, vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og ekki aðeins bæta ríkinu þá hækkun endurgreiðsluhlutfalls sem þarna kæmi til greina heldur jafnframt auka tekjur ríkissjóðs vegna þess að þá kæmu til framtals tekjur vegna þessarar starfsemi sem er skotið undan í dag, eins og ljós dæmi eru um.

Fyrr í vetur svaraði hæstv. fjmrh. spurningum hv. þm. Katrínar Fjeldsted um sama efni. Hún spurði um þessi mál til lengri tíma en þarna er um að ræða. Það sem ég hef fullyrt hér og sagt kom glögglega í ljós í svari hæstv. fjmrh.

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, og við flutningsmenn þessa frv. að horfið verði til fyrra horfs. Það léttir útgjöldum af húsbyggjendum, lækkar byggingarkostnað, vinnur gegn svartri atvinnustarfsemi, eykur skattskil til ríkisins og skatttekjur hins opinbera um leið.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að fara þess á leit að að lokinni umræðunni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.