Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 11:26:01 (3698)

2001-01-17 11:26:01# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir á ársfundi Tryggingastofnunar að hún hygðist afnema tengingu tekjutryggingar við tekjur maka. Nú hefur Hæstiréttur hjálpað hæstv. ráðherra því að hann hefur úrskurðað að sú tekjutenging sé ekki heimil samkvæmt stjórnarskránni. Þess vegna hefði hæstv. ráðherra átt að sleppa þessu frv. og fara að dómi Hæstaréttar, sleppa því að leggja fram þetta skerðingarfrv. í stað þess að fara að dómi Hæstaréttar. Ég vil minna á að dómur Hæstaréttar kemur ekki í veg fyrir að kjör þeirra sem verst eru settir verði bætt. Það er hægt að bæta kjör þeirra þrátt fyrir dóm Hæstaréttar.

Herra forseti. Það að tala um fólk með 200 þús. kr. heimilistekjur sem hátekjufólk, fólki sem býr við sjúkdóma og skerta starfsorku, er algjört siðleysi.