Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:02:41 (3806)

2001-01-17 21:02:41# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Meðalvegurinn við þessar umræður er vandfundinn þegar ekki má tala um öryrkja í tengslum við þennan dóm öðruvísi en að þylja upp nöfn og kennitölu þeirra sem í hlut eiga en vera ella sakaður um að blekkja þjóðina alla og fara með rangfærslur.

Ég held að flestum sem hafa skoðun á þessu máli, eftir mikla umræðu í þingsölum og víðar í þjóðfélaginu, t.d. í fjölmiðlum, sé ljóst að þessi dómur varðar aðeins tiltekinn hóp öryrkja. Að sjálfsögðu hefur enginn reynt að láta það líta neitt öðruvísi út. Mér þykir leitt að sá misskilningur skuli ríkja hjá flestum stjórnarliða. Ég leyfi mér að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og segi að þrátt fyrir að máttur stjórnarandstöðunnar og Öryrkjabandalagsins geti verið mikill þá tækist okkur ekki í sameiningu að blekkja nánast alla Íslendinga.

Með dómi Hæstaréttar í þessu máli, sem kveðinn var upp nýverið, urðu ekki aðeins mikil tíðindi í réttindamálum öryrkja heldur urðu þar einnig vatnaskil í íslenskri dómaframkvæmd. Með dómnum voru stjórnarskrárvarin mannréttindi einstaklinga auk þess hafin til meiri vegs og virðingar en mann rekur minni til í dómsniðurstöðu fyrir þessum æðsta dómstóli þjóðarinnar.

Dómurinn fjallar um mannréttindi, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði sem byggð eru á alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er skuldbundið af. Á grundvelli þeirra reglna telur Hæstiréttur að ekki sé heimilt að skerða grunnframfærslu. Ég ítreka að ég er fyrst og fremst að tala um grunnframfærslu. Ég hef orðið vör við að snúið hefur verið út úr því hugtaki en ég er þar með ekki að tala um hinn gagnkvæma framfærslurétt, sem ég mun víkja að síðar og er allt annar hlutur, heldur ákveðna grunnfjárhæð sem felst í aðstoð úr opinberum sjóði sem einstaklingurinn á sjálfur. Á grundvelli þessara reglna telur Hæstiréttur að ekki sé heimilt að skerða þessa aðstoð tiltekins afmarkaðs hóps einstaklinga á þann hátt sem gert hefur verið með því að tengja hana við tekjur maka öryrkjans. Öryrkinn á með öðrum orðum sjálfstæðan, stjórnarskrárvarinn rétt til þessarar aðstoðar upp að ákveðnu marki.

Þessi dómur segir okkur að mannréttindasamningar og betrumbæturnar sem gerðar voru á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar árið 1995 hafi ekki verið orðin tóm heldur feli þau í sér raunveruleg einstaklingsbundin réttindi til handa borgurunum sem æðsti dómstóll þjóðarinnar er tilbúinn til að standa vörð um og því ber að fagna. Þess vegna, herra forseti, fögnuðu margir aðrir en sá hópur sem í hlut á þessum merka dómi Hæstaréttar.

Dómnum fagna fyrst og fremst þeir öryrkjar sem búið hafa við þessi mannréttindabrot sem Hæstiréttur hefur sagt framkvæmd laganna hafa verið. Þeir hafa t.d. ekki átt þess kost að sinna framfærsluskyldu sinni við börn sín eða maka sinn. Þeir hafa ekki síður fagnað sem gagnrýnt hafa dómstóla og stjórnvöld fyrir að líta á mannréttindi sem eitthvað til að halda á lofti á þjóðhátíðum og öðrum hátíðarstundum í stað þess að líta á þau sem raunverulegan rétt einstaklingunum til handa.

Hvernig bregst svo ríkisstjórnin við þessum dómi? Fagnar hún því að nú skuli loksins lokið löngu þrætustríði öryrkja við stjórnvöld um alvarlegar ásakanir um mannréttindabrot og brot á alþjóðlegum samningum? Telur hún mikilvægt að nú hafi æðsti dómstóll þjóðarinnar skorið úr um þetta viðkvæma mál? Viðurkennir ríkisstjórnin sig sigraða fyrir dómsvaldinu sem með sönnu á að skera úr um hvort lög standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga? Ónei, alls ekki. Reyndar lýsti hæstv. heilbrrh. því strax yfir að hún deildi ekki við Hæstarétt og var ekki annað að skilja en hún mundi skilyðislaust lúta dómi Hæstaréttar.

Hins vegar kvað við annan tón hjá hæstv. forsrh. þegar hann loksins tjáði sig um málið. Hann vændi æðsta dómstól þjóðarinnar um að beita pólitík en ekki lögfræði í dómnum og að Hæstiréttur væri að setja óeðlileg bönd á löggjafann með þessum dómi. Höfuð framkvæmdarvaldsins er sem sagt ekki sammála dómi Hæstaréttar og þegar þau skilaboð höfðu borist út í samfélagið þá þurfti svo sem ekki að spyrja að því hver eftirmálin yrðu. Hæstv. forsrh. er nefnilega ekki vanur að játa sig sigraðan á þann hátt sem Hæstiréttur kvað upp úr með.

Með þessum dómi var ríkisstjórninni í raun sagt að valdið væri takmörkunum háð. Það er með öðrum orðum ekki heimilt að setja lög um hvað sem er. Löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið eru bundin og háð þeim takmörkunum sem stjórnarskrá og alþjóðasamningar setja okkur. Ég tel reyndar löngu tímabært fyrir hæstv. ríkisstjórn sem hér situr að átta sig á þessu og þótt fyrr hefði verið. En er það svo að Hæstiréttur hafi verið að tala um pólitík en ekki lögfræði í þessum dómi sínum? Ég tel fráleitt að halda því fram þó lögfræði snerti mikið pólitík og öfugt. Það er bara eðli málsins samkvæmt að margt sem lögfræðin kemur inn á snertir sömu svið mannlífsins og pólitíkin kemur nálægt.

Ég vil vitna í viðtal sem tekið var við Sigurð Líndal lagaprófessor á Stöð 2 þann 21. des. Þar lýsir hann því yfir að hann telji nýfallinn hæstaréttardóm í takt við þróun dóma á Vesturlöndum sem taki æ meira mið af mannréttindasjónarmiðum. Hann segir ummæli forsrh. um dóminn úr takti við veruleikann. Fréttamaðurinn segir síðan að forsrh. hafi sagt í Morgunblaðinu þann daginn að dómurinn væri frekar tilvísun í pólitískar hugmyndir en lögfræðileg rök. Sigurður segir þessar hugmyndir heyra til fortíðarinnar. Á einveldisöld hafi verið til einn löggjafi, einvaldurinn. Næsta stig hafi síðan verið að lýðræðislega kjörnir fulltrúar tóku við hlutverki einvaldsins sem löggjafa og þróunin síðan hafi verið mjög ör og flókin og menn geti ekki eins og á 18. öld sett lög sem taki til allra tilbrigða mannlífsins. Þetta telur Sigurður Líndal m.a. að birtist í því að löggjafinn geti ekki fylgt eftir þróuninni. Það er því spurning hvort ummæli forsrh. eigi við gráa forneskju. Þessu svarar Sigurður: ,,Ja, ég skal ekki segja hversu en mér finnst þau ekki alveg koma heim og saman við raunveruleikann.``

Ég get tekið undir þetta. Mér þykir umræðan í tengslum við þetta mál, um að Hæstiréttur sé á einhvern hátt að taka óeðlilega mikið vald af löggjafanum eða framkvæmdarvaldinu, ekki í takt við tímann. Ég vil í því samhengi vitna til orða hæstv. utanrrh. í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu 11. jan., þar sem kynnt er greinargerð starfshópsins í málinu. Þar er haft eftir hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

,,Það er alveg ljóst að allt jöfnunarkerfi landsmanna byggir á því að taka tillit til tekna, eigna, til tekna maka og til fjölskyldunnar almennt. Þetta er algjört grundvallaratriði í stjórnmálum. Þess vegna er það nauðsynlegt þegar við komum að svona flóknu máli að við skiljum þann dóm sem er felldur með réttum hætti og við tökum ákvarðanir sem byggja á því að auka þessi réttindi sem þar er fjallað um, án þess að skerða möguleika samfélagsins til samfélagslegrar jöfnunar, því við stjórnmálamenn höfum litið á það sem okkar aðalhlutverk að jafna kjör borgaranna og taka tillit til aðstæðna í landinu. Auðvitað eru viss takmörk fyrir því, en þetta er algjört grundvallaratriði. Það má segja að ef við höfum ekki þau réttindi sem stjórnmálamenn og aðilar sem stöndum að löggjöf í landinu, má spyrja: Um hvað eiga stjórnmálin að snúast og hvað á að fjalla um þar?``

Herra forseti. Það var vikið að þessum sjónarmiðum bæði í ræðu hæstv. utanrrh. fyrr í kvöld og fleiri hafa komið inn á svipuð sjónarmið. Ég verð að segja að mér finnst með ólíkindum að menn upplifi þetta þannig að það sé verið að taka einhvern rétt af stjórnmálamönnum til að beita pólitíkinni. Nútímastjórnskipulag gerir ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar og ríkisstjórnin þekki mannréttindasáttmála og stjórnarskrárákvæðin og setji lög í ljósi þeirra. Kerfið sem við viðhöfum hér er reyndar ekki nógu gott, að ganga ekki nægilega vel úr skugga um, áður en frv. eru lögð fyrir hið háa Alþingi, hvort þau samrýmist þeim grundvallarrömmum sem við byggjum allt okkar skipulag á. Í nágrannalöndunum starfa sérstakar lagaskrifstofur, eða lagaráð eins og tíðkast í Svíþjóð, sem fara skipulega yfir frv. áður en þau eru lögð fyrir, m.a. til þess að kanna þetta. Því miður er það svo að hvergi í nágrannalöndunum gerist það eins oft og hér að ýmist umboðsmaður Alþingis eða dómstólar bendi á að lög standist ekki stjórnarskrá, þ.e. telji hnökra á löggjöf. Þetta er alls ekki nógu gott, herra forseti.

Hér hefur verið vakin athygli á því í mörg ár að þessi tiltekna tenging við tekjur maka, í sömu tilfellum og um ræðir í dómnum, sé mannréttindabrot og standist ekki stjórnarskrá. Það hefði verið eðlilegt að hægt hefði verið að vísa þeirri spurningu til einhvers hlutlauss aðila sem e.t.v. starfaði á vegum Alþingis. Ég vil reyndar minna á að við, nokkrir þingmenn úr röðum Samfylkingarinnar, höfum lagt fram þingmál þess efnis að sett verði á stofn sérstakt lagaráð sem verði Alþingi og ríkisstjórninni til ráðgjafar í slíkum málum þannig að hægt sé að fá hlutlausa umfjöllun um þessi mál í stað þess að menn nái í ,,sína lögfræðinga`` eins og staðreyndin hefur allt of oft verið hingað til.

Eins og menn þekkja varð niðurstaðan sú að uppkveðnum dómi Hæstaréttar að nefnd var sett á laggirnar, ekki nefnd óháðra sérfræðinga heldur nefnd skipuð mönnum sem ýmist starfa hjá ríkisstjórninni eða eru þekktir fyrir stuðning við ríkisstjórnarflokkana. Allir eru þeir eflaust ágætir lögfræðingar en þeir eru ekki hlutlausir. Þeim var falið að vinna úr dómi Hæstaréttar en niðurstaðan varð frv. sem lagt hefur verið fram til að koma til móts við dóminn eins og alkunna er.

Herra forseti. Hæstv. ráðherrar og stjórnarliðar hafa haldið því fram að mál þetta hafi einkennst af gífuryrðum stjórnarandstöðu og Öryrkjabandalagsins. Það má vel vera að stór orð hafi fokið í tengslum við þetta mál. Hins vegar hafa rangfærslurnar og stóru orðin ekki síður heyrst úr þeirra eigin herbúðum. Þeir hafa haldið því fram að túlkun okkar á dómi Hæstaréttar feli í sér að ekki megi yfir höfuð tengja við tekjur maka og tekjutengingar séu nánast bannaðar í íslenskum lögum ef okkar skilningur verður ofan á varðandi þennan dóm.

Ég spyr, herra forseti: Hver hefur sagt þetta? Ekki ég og að því er ég best veit enginn úr röðum stjórnarandstöðunnar. Það var alveg örugglega ekki Hæstiréttur. Þetta er einungis ósmekklegt bolabragð af hálfu stjórnarliða til að rýra málflutning stjórnarandstöðunnar og gera hann ótrúverðugan. Því hefur jafnvel verið haldið fram að íslenskir jafnaðarmenn séu að hverfa frá grundvallarprinsippum sínum um það að rétt sé að nota tengingar við fjölskyldutekjur til þess að jafna kjörin. Er það svo, herra forseti? Ég segi nei. Þetta er algjör útúrsnúningur á málflutningi okkar og á dómi Hæstaréttar.

Við tökum undir rök Hæstaréttar með það að örorkulífeyrir sé réttur sem öryrkjar fá og vegna fötlunar sinnar, eins og segir í dómnum, einstaklingsbundinn réttur til ákveðinnar grunnframfærslu úr opinberum sjóði, réttur sem varinn er af stjórnarskrá. Þá er vísað til 76. gr. og 2. mgr. 65. gr. Þessi réttur er almennur að því leyti að hann nær til þeirra sem eins eru settir, þ.e. hafa misst tekjuhæfi sitt vegna örorku. Hæstiréttur vísar síðan til fjölda lagaákvæða þegar hann rökstyður að þennan rétt megi ekki skerða með tekjum annarra, jafnvel þó að um maka sé að ræða. Hann vísar til stjórnarskrárákvæða, til mannréttindasáttmála, til laga um málefni fatlaðra og þess markmiðs að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.

[21:15]

Hæstiréttur segir einnig að löggjafarvaldið hafi komið til móts við skyldur sínar gagnvart þessum grundvallarrétti öryrkja til ákveðinnar grunnframfærslu með lögum um almannatryggingar en að önnur ákvæði af svipuðum meiði, svo sem samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og félagsþjónustu sveitarfélaga séu heimildarákvæði til handa stjórnvöldum til að greiða fólki ákveðna aðstoð en kveði ekki á um stjórnarskrárvarinn rétt á sama hátt og ákvæðin um örorkulífeyrinn gera. Það er því fráleitt, herra forseti, að setja þetta allt í sama hóp eins og menn hafa reynt og haldið fram þrásinnis aftur og aftur í dag, að verið sé að þvæla öllu saman og nú megi ekki nota neina tekjutengingar neins staðar í lögum ef menn skilja þetta á þann hátt sem við teljum rétt. Það er alveg fráleitt og það eru útúrsnúningar.

Hæstiréttur segir einnig að það geti verið eðlilegt að taka tillit til fjölskyldutekna í ýmsum skyldum tilvikum og nefnir þar sem dæmi skattalög og lög um félagslega aðstoð sem eru af allt öðrum grunni, af allt öðrum toga en þessi réttur, stjórnarskrárvarði réttur sem felst í örorkulífeyrinum samkvæmt almannatryggingalögum vegna þess að þau lög sem ég nefni hér eru byggð á allt öðrum grundvallarprinsippum. Þau eru heimildarákvæði til handa stjórnvöldum og þar geta menn notað pólitíkina væntanlega áfram, t.d. með því að nota skattkerfið til tekjujöfnunar ef þeir vilja sem ég geri ráð fyrir að verði gert eftir sem áður.

Það má einfaldlega ekki taka af fólki alla reisn til að geta lifað eðlilegu lífi með því að svipta það þessum grunni jafnvel þó að viðkomandi sé í hjúskap og eigi maka sem hafi góðar tekjur.

Mannréttindaákvæði stjórnarskrár, alþjóðlegir samningar um efnahagsleg og félagsleg réttindi, m.a. félagsmálasáttmáli Evrópu og fleiri og fleiri samningar sem tíndir eru til í þessum dómi, setja okkur mörkin þarna og þau mörk verða stjórnvöld einfaldlega að virða.

Herra forseti. Ég ætla að nota nokkurn tíma til að fara nánar ofan í dóm Hæstaréttar og velta vöngum yfir því sem þar segir í raun. Ég vil líka minna á að við erum að tala um æðsta dómstól þjóðarinnar. Menn geta haft misjafnar skoðanir á þeim dómum sem þar eru kveðnir upp, en reynum að halda okkur við það sem dómurinn segir í túlkunum á honum því að mér þykir ansi oft sem menn hafi reynt að tína út eina og eina setningu máli sínu til framdráttar, en látið hjá liggja að horfa á þá setningu í því heildarsamhengi sem hún er sett fram í dómnum sem er kannski ekki góð lögfræði. Löggjafinn eða framkvæmdarvaldið getur að sjálfsögðu tekið málið til skoðunar og er ekkert óeðlilegt við það að mínu mati að nefnd sé sett í málið til að skoða hvernig megi ganga frá útfærslu málsins. En það var hins vegar ekki nauðsynlegt að gera áður en réttarbætur voru greiddar út því eins og hér hefur komið fram og margoft hefur verið bent á er alveg hægt að túlka þennan dóm þannig að tengingin við tekjur maka í 5. mgr. 17. gr. falli út og eftir standi þessi 51 þús. kr. aðstoð sem margoft hefur verið bent á.

Þegar menn segja að fleiri spurningar vakni við þennan dóm heldur en svörin sem hann gefur, þá er kannski margt til í því. Það vakna margar spurningar varðandi þennan dóm um hvort hægt sé að leiða af honum einhvern annan rétt en í honum felst en ekki varðandi þann tiltekna hóp sem málið fjallar um. Dómsorðið er ansi skýrt eins og það kemur fyrir í dómnum og vísar meira að segja beinlínis til 5. mgr. 17. gr. laganna sem þeir telja að ekki standist stjórnarskrá.

Ríkisstjórin valdi að leggja þetta mál fyrir Alþingi á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir. Hún valdi það vegna þess að hún vildi ekki lúta dómnum að fullu. Það er mat mitt að þetta hafi verið hennar val að gera og reyndar hafa fleiri haldið því fram hér, ekki að hún hafi orðið að gera það. Ríkisstjórnin vill frekar láta reyna á það enn frekar hversu langt megi ganga í að skerða þennan stjórnarskrárbundna rétt sem öryrki hefur til lágmarksframfærslu úr opinberum sjóði. Hún hefði alls ekki þurft að gera þetta. Það var pólitískt val hennar.

Einnig er rétt að rifja það enn einu sinni upp sem þegar hefur komið fram að nú þegar missa öryrkjar ákveðnar tekjur við það eitt að ganga í hjúskap, þ.e. þegar þeir missa alveg heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót sem eru samtals um 20 þús. kr. Það er algjörlega óháð tekjum makans. Þeir eiga einfaldlega ekki rétt á þessum uppbótum ef þeir eiga maka eða eru í sambúð. Þess vegna eru það líka rangfærslur sem heyrst hafa að með dómi Hæstaréttar sé verið að banna að tillit sé tekið til fjölskylduaðstæðna. Það er ekki þannig. Það er þegar gert og síðan er að sjálfsögðu um að ræða tengingu við tekjur öryrkjans sjálfs ef einhverjar eru.

Ég vil líka aðeins koma inn á það hér af því að nokkuð hefur verið talað um það í umræðunum af hálfu stjórnarliðsins um aðdraganda málsins, að þetta ákvæði hafi verið fest í lög, eins og það var orðað fyrr í dag, eftir leiðsögn umboðsmanns Alþingis sem nú hefur atvinnu af því að dæma um mannréttindi hjá Mannréttindadómstólnum. Mér þykir svolítið bratt farið í að nota þær röksemdafærslur því að ég efast stórlega um að sá maður sem um ræðir hafi beinlínis leiðbeint ríkisstjórninni í gegnum þetta ferli. Það er hins vegar ríkisstjórnin sem velur að túlka niðurstöður Alþingis á þessum tíma þannig að það beri að festa þetta í lög. Álit umboðsmanns snerist um það að lög ættu að vera skýr og að skerðingarákvæði í reglugerðum þyrftu að hafa skýra stoð í lögum. Ríkisstjórnin dregur af því þá ályktun að þá eigi bara að setja skerðingarákvæði í lög og það er hennar mat að gera það svo. En mér þykir svolítið ódýrt að nánast setja ábyrgð á þeirri ákvörðun á fyrrverandi umboðsmann Alþingis.

Þegar lagabreytingin var gerð á sínum tíma, þ.e. þegar skerðingarheimildin var sett í lög, var vísað til þess að hún væri í anda almannatryggingalaga frá upphafi og samkvæmt gagnkvæmri framfærsluskyldu hjóna. Ágreiningurinn í málinu snerist í raun um það hvort heimilt hefði verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka annars vegar á tímabilinu 1994--1998 og hins vegar eftir 1998, þ.e. þegar skerðingarheimildin var lögfest. En það er líka rétt að halda því til haga að á þeim tíma sem ágreiningurinn stendur um var gerð breyting á stjórnarskránni sem fólst í því að styrkja mannréttindaákvæði hennar, m.a. þau ákvæði sem dómurinn byggir á og það gerist árið 1995 eins og við væntanlega munum. Það skiptir miklu máli þegar menn tala um sögu og forsögu málsins vegna þess að árið 1995 er tekið út það skilyrði fyrir þessari skerðingu að viðkomandi eigi ekki skylduframfæranda eins og var áður.

Hæstiréttur bendir á að ákvæði um rétt þeirra sem ekki geta framfleytt sér sjálfir til aðstoðar úr opinberum sjóðum hafi verið í stjórnarskrá allt frá árinu 1874. Fram til ársins 1995 var þessi réttur þó háður því að viðkomandi ætti sér ekki skylduframfærendur en það skilyrði var afnumið með stjórnarskrárbreytingunni árið 1995 eins og áður var rakið. Við það verður rétturinn til grunnframfærslu úr opinberum sjóði sjálfstæður réttur einstaklingsins sem í hlut á og ég ítreka að við erum að tala um rétt til þessarar tilteknu aðstoðar, ákveðið lágmark sem ekki má skerða vegna tekna annarra en hans eigin. Og það er beinlínis vakin athygli á því í forsendum Hæstaréttar með vísun til stjórnarskrárbreytinganna og alþjóðasamninga að um skerðingar vegna tekna maka geti ekki verið að ræða nema vegna verulegra viðbótarfjárhæða og að viðurkenndur sé réttur hvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans. Miðað við þá skoðun sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur gert á tekjutengingu við tekjur maka öryrkja í öðrum löndum og hún rakti í ræðu sinni fyrr í kvöld, þá virðist mér sú framkvæmd einmitt vera í samræmi við þá alþjóðasamninga sem Hæstiréttur vísar til. Það hefur sem sagt verið heimilt að tengja við tekjur maka þegar við erum að tala um viðbótarframlög sem eru umfram ákveðið lágmark sem í flestum tilvikum, a.m.k. á Norðurlöndunum, er mun hærra en hér á landi.

Hérna virðist hins vegar hafa verið gengið lengra og skerðingin á grunnframfærslunni verið framkvæmd í nafni gagnkvæmrar framfærsluskyldu hjóna. Reyndar bendir Hæstiréttur líka á það í dómi sínum að framfærsluskylda hjóna sé gagnkvæm. Með öðrum orðum virkar hún ekki bara á annan veginn heldur felst líka í henni réttur sem ekki er hægt að svipta menn, sem sagt réttur til þess að sinna framfærsluskyldu sinni gagnvart maka. Þetta er ekki bara á annan veginn. Þetta er gagnkvæm skylda og gagnkvæmur réttur. Með þessum orðum sínum snuprar Hæstiréttur þá sem beita fyrir sig gagnkvæmri framfærsluskyldu hjóna til þess að skerða sjálfstæðan rétt öryrkja og bendir með orðum sínum á það að þessi röksemdafærsla fái alls ekki staðist.

Hæstiréttur áréttar að það sé viðurkennd regla að norrænum rétti að skýra skuli lög til samræmis við alþjóðasamninga sem ríki hefur staðfest eftir því sem kostur er og telur í því ljósi að 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til aðstoðar úr opinberum sjóði verði skýrð á þann veg að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar hafi löggjafinn vald um það hvernig þessu skipulagi skuli háttað en það skipulag verði þó að fullnægja þeim lágmarksréttindum sem talin eru felast í ákvæðum 76. gr. stjórnarskrárinnar. Að auki verði skipulagið sem löggjafinn býr til að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur njóti jafnréttis á við aðra sem réttar njóta, svo og almennra mannréttinda.

Síðan bendir Hæstiréttur á það að löggjafinn hafi þegar sett nokkra leiðbeiningu um þetta í 1. gr. laga um málefni fatlaðra þar sem markmið laganna er sagt vera að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að slíkt er ekki gert með því að tryggja þeim 17 þús. kr. mánaðarlega aðstoð úr opinberum sjóði eins og gert var í sumu tilvikum áður. Um þetta síðasta eru sennilega allir sammála. En Hæstiréttur segir síðan í dómi sínum, með leyfi forseta:

,,Tekjur maka skipta ekki máli við greiðslu til dæmis slysatrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga og fæðingarstyrks. Verður að telja það aðalreglu íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka. Er það í samræmi við þá stefnumörkun sem liggur að baki íslenskri löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.`` --- Síðan segir í áframhaldinu og ég held að mikilvægt sé að halda þessu til haga hér vegna þess að hér þykir mér að svolítið hafi verið reynt að teygja til röksemdafærslur Hæstaréttar: ,,Í lögum er þó víða tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks. Má hér nefna skattalög og ákvæði laga um félagslega aðstoð.`` --- En eins og ég hef bent á áður eru þau af öðrum toga og kveða ekki á um þennan grundvallarrétt sem almannatryggingalögin byggja á um aðstoð úr opinberum sjóði og er stjórnarskrárvarinn réttur heldur nefna þeir sem dæmi skattalög og ákvæði laga um félagslega aðstoð. Og síðan kemur þessi setning sem margoft hefur verið rifjuð upp hér í kvöld: ,,Getur það því átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki.``

Síðar í röksemdafærslu sinni segir Hæstiréttur, með leyfi forseta:

,,Örorkulífeyrir, þar með talin tekjutrygging, er réttur sem öryrkjar fá vegna fötlunar sinnar. Samkvæmt því sem að framan er ritað um skýringu á 76. gr. stjórnarskrárinnar er það á valdi almenna löggjafans að ákveða þau mörk sem örorkulífeyrir og tekjutrygging miðast við, svo fremi sem þau uppfylla önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þau verða skýrð með hliðsjón af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Réttur sá sem almannatryggingalöggjöfin tryggir öryrkjum er almennur og tekur tillit til jafnræðissjónarmiða milli þeirra sem eins eru settir í þröngum skilningi.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Svo sem áður greinir verður að telja að í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar felist ákveðin lágmarksréttindi sem miðuð séu við einstakling. Þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans til mats á því hvernig þessi lágmarksréttindi skuli ákvörðuð geta dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess hvort það mat samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Þegar litið er til skipulags réttinda örorkulífeyrisþega samkvæmt almannatryggingalögum og þeirra afleiðinga sem í raun geta af því leitt fyrir einstaklinga verður þetta skipulag ekki talið tryggja þeim þau lágmarksréttindi sem í framangreindu stjórnarskrárákvæði felast, á þann hátt að þeir fái notið þeirra mannréttinda, sem 65. gr. stjórnarskrárinnar mælir þeim, svo sem það ákvæði verður skilið að íslenskum rétti ...`` Í kjölfarið er vísað í alþjóðlega samninga um mannréttindi.

[21:30]

Eins og ég hef rakið hefur Hæstiréttur byggt röksemdir sínar með mjög sterkum rökstuðningi og vísun til lagaákvæða alþjóðlegra samninga og stjórnarskrárákvæða og dómsorðið sem lýtur að margumræddri 5. mgr. 17. gr. er líka mjög skýrt:

,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. jan. 1999 skv. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Svona hljómaði dómur Hæstaréttar og hann er skýr að mínu mati og vel rökstuddur. Hann er skýr að mínu mati að því sem snýr að þessum tiltekna hópi og rétti hans. Svo má vel vera að hann geti verið óskýr þegar menn ætla að leiða af honum einhvern annan rétt til einhverra annarra hópa. Um það vil ég ekki segja hér og nú. Eflaust vakna margar spurningar eins og þegar hefur komið fram um réttindi ýmissa annarra hópa og hvort þeir gætu byggt rétt sinn á þessum dómi.

Ríkisstjórnin vill hins vegar ekki túlka dóminn á þann veg eins og margir aðrir vilja gera og m.a. stjórnarandstaðan að með honum sé heimildin í 5. mgr. 17. gr. úr gildi fallin og þá beri að greiða þessar 51 þús. kr. Ríkisstjórnin vill lækka þá lágmarksgreiðslu sem má skilja á dóminum, a.m.k. að einhverjir skilja að öryrkjar eigi rétt á. Það er pólitískt mat ríkisstjórnarinnar, pólitísk ákvörðun, að þessi fjárhæð eigi að vera lægri. En ég lít svo á að að auki sé ríkisstjórnin með útspili sínu að segja Hæstarétti og kannski okkur hinum að henni sé heimilt og að hún megi í raun og veru setja þau lög sem henni sýnist. Það er kannski sá tónn sem hefur svolítið skinið í gegn í umræðunum hér.

Herra forseti. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki hefði verið eðlilegra í ljósi þess að 21. öldin er nú gengin í garð hér á landi sem og víðar um heim að íslensk stjórnvöld hefðu lotið dómi æðsta dómstóls þjóðarinnar og ákveðið að láta fordæmi hans í þessu máli tala og greiða út þær 7 þúsund kr. sem upp á vantar á mánuði og ljúka þar með, herra forseti, þessum eilífu skærum og ágreiningi við öryrkja í landinu, þennan hóp öryrkja svo að enginn fari að misskilja það að ég sé að reyna að plata þjóðina eins og við höfum greinilega verið að gera síðustu vikurnar.

Menn hefðu síðan getað sett nefndir í gang og hefði ekkert verið óeðlilegt við að settar væru nefndir af stað til að reikna nánar útfærslu þessara atriða en ekki hefði þurft að koma í veg fyrir að greitt hefði verið út til þessa tiltekna hóps eftir dóminum eins og a.m.k. sú sem hér stendur og stjórnarandstaðan vill skynja hann. Það hefði verið hægt hefði pólitískur vilji verið fyrir hendi. Maður veltir því fyrir sér hvort það hefði kannski verið þjóðarbúinu ofrausn að gera þetta á sama tíma og við fórum í gegnum afgreiðslu fjárlaga þar sem hundruð millj. fóru í ýmis verkefni sem ég vil kannski telja minna mikilvæg en þau sem hér er verið að fjalla um en þó fyrst og síðast til að leysa þennan ágreining í stað þess að gera eins og ríkisstjórnin hefur gert með þessari niðurstöðu, verði hún að lögum, að láta í raun og veru reyna á þolrifin hjá þessum tiltekna hópi og vísa mönnum nánast áfram til þess að láta dómstóla leysa úr ágreiningi.

Herra forseti. Margir tala um að það sé mikið ábyrgðarleysi af okkur í stjórnarandstöðunni að vekja sífelldar væntingar hjá öryrkjum og jafnvel öðrum hópum í samfélaginu um að þessi dómur feli í sér gríðarlegar réttarbætur, en mér finnst það líka ábyrgðarleysi hjá ríkisstjórninni að fara nánast í valdabaráttu við Hæstarétt um það hver það er sem megi setja þessar tilteknu reglur og fara út í að leggja fram frv. sem má a.m.k. efast um að sé í fullu samræmi við dóminn eins og hann liggur fyrir.

Herra forseti. Enginn hefur verið að vekja óverðskuldaðar væntingar hjá tilteknum hópi öryrkja. Enginn hefur platað þjóðina og það hefur enginn platað öryrkjana heldur. Ég held að það sé bara þannig að ríkisstjórnin verðskuldi fyllilega þá andúð sem hún kann að finna fyrir í sinn garð vegna þessa tilekna máls sem hún vill láta í veðri vaka að sé vegna þess að menn hafi haft uppi rangfærslur í málinu. Ég held að það sé einfaldlega svo að fólk, hvort sem það er þessi tiltekni hópur öryrkja eða aðrir sem hafa fylgst með málinu, sjái í gegnum þessar gerðir sem menn hafa verið að framkvæma og menn séu fullfærir um að meta það samkvæmt bestu skynsemi.