Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:40:02 (3809)

2001-01-17 21:40:02# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt fram ákveðið frv. á Alþingi og það er Alþingis að fjalla um það og það er Alþingis að kalla til þá sérfræðinga sem Alþingi telur nauðsynlegt í þessu sambandi. Ég hefði talið að kennarar og prófessorar við Háskóla Íslands væru óvilhallir í slíku máli.

Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun og nú dregur hv. þm. líka í efa ummæli þessara mætu manna. Ég veit þá ekki á hverjum á að taka mark í sambandi við lagaleg atriði hér á landi ef ekki er heldur hægt að taka mark á prófessorum og kennurum við Háskóla Íslands.

Að sjálfsögðu kallaði ríkisstjórnin til hæfa lögfræðinga til að fjalla um þetta mál og undirbúa það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Nú getur Alþingi kallað til þá lögfræðinga sem Alþingi telur nauðsynlegt og ég vænti þess að það leiði í ljós að hér er verið að bregðast rétt við dómi Hæstaréttar.