Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:26:14 (3834)

2001-01-17 22:26:14# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:26]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Merking dóms Hæstaréttar samkvæmt því sem hv. þm. segir er sú að hann hafi meint það að skerðingarákvæði vantaði til þess að fara eftir. Því ekkert annað stendur til að lögfesta hér en skerðingarákvæði. Ef engin lög væru sett, þá fengju öryrkjar einfaldlega greiddar 51 þús. kr. Það liggur fyrir. Um það er ekki þræta. Og til hvers þarf þá að setja lögin? Til þess að setja hér inn sama skerðingarákvæðið undir a-, b- og c-lið. Nákvæmlega ekkert annað, ekkert heimildarákvæði til eins eða neins, einungis þessi skerðingarákvæði.

Ég segi: Það er ekki hægt að rökstyðja sig frá þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur var að meina þetta. Þeir sem dæmdu þennan dóm meintu þetta. Hæstv. ríkisstjórn telur kannski að það sé til einhver annar meiri hluti í Hæstarétti til að meina eitthvað annað seinna.