2001-01-18 00:10:16# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[24:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú ekki sagt mikið á einni mínútu. Hæstv. heilbrrh. hefur sérstaklega beitt sér fyrir því að bæta kjör öryrkja og í tvígang hefur frítekjumark vegna tekjutryggingar verið hækkað.

Ég held að ég muni það rétt að aldrei gerðist neitt slíkt í ráðherratíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Og ég minni hana á að þegar hæstv. heilbrrh. Guðmundur Árni Stefánsson mælti fyrir frv. 1993 þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

,,Mitt mat er það að réttlætisrök skjóti stoðum undir þá stefnumörkun að tekjutengja bótagreiðslur í auknum mæli ...``

Þetta gerðist í ráðherratíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ég vænti þess að hún muni það. Við höfum verið að skjóta stoðum undir það í núv. ríkisstjórn að setja aukið fjármagn í velferðarkerfið og það hefur verið gert í miklum mæli, sérstaklega vegna þess að okkur hefur tekist að auka framleiðsluna í landinu og auka þjóðartekjur. Flest af því sem við höfum verið að gera á þeim sviðum hefur hv. þm. verið á móti og ég get nefnt fjölmörg dæmi um það.

Hæstv. heilbrrh. beitti sér fyrir því að sett yrði af stað sérstakt endurskoðunarstarf sem hefur verið í gangi og hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því að því starfi yrði flýtt. Og það er ákvörðun ríkisstjórnar að tillögu hæstv. ráðherra að flýta þessu starfi. Og við gerum ráð fyrir að því verði lokið fyrir 15. apríl. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki síðan þá, hv. þm. (Gripið fram í.) Hvernig væri það, hæstv. forseti, að það væri svona eins og einu sinni sem sá sem hér stendur, og eru gerðar miklar kröfur til að svari, fái einhvern tíma að tala án þess að vera ávallt truflaður. Ég fer þess á leit, ef ég á að geta veitt svör, að ég fái einhvern tímann að tala fyrir þessum stöðugu frammíköllum sömu hv. þm. klukkutíma eftir klukkutíma og settar verði einhverjar reglur á þessa hv. þm.