2001-01-18 00:14:49# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[24:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Já, sem betur fer hafa þjóðartekjur aukist og tekist hefur að styrkja velferðarkerfi okkar. Okkur hefur tekist að bæta kjör öryrkja nokkuð. Okkur hefur að sjálfsögðu ekki tekist að bæta þau nóg og okkur mun sjálfsagt aldrei takast að bæta þessi kjör svo öllum líki. En við hljótum að stefna að því að gera betur og þá er forsendan fyrir því að við höfum meira fjármagn til þess. Það hlýtur hv. þm. að vera ljóst.

Hv. þm. talar mikið um stjórnarskrárbreytinguna 1995. Ég stóð að þeirri stjórnarskrárbreytingu. Ég var í nefnd sem fjallaði um þá stjórnarskrárbreytingu, þá var ég að vísu í stjórnarandstöðu, en að álíta að þar hafi orðið einhver stórkostleg breyting á stjórnarskrá er nokkur misskilningur miðað við þær umræður og nál. sem þar liggur fyrir, og hvet ég hv. þm. til að lesa það, og allir hv. þm. sem voru í þeirri nefnd skrifuðu upp á.