2001-01-18 00:16:10# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[24:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að þetta væri spurning um forgang í þjóðfélaginu. Hérna stöndum við í deilum við stjórnarflokkana af því að þeir eru að skerða það sem öryrkjar eiga rétt á samkvæmt dómsniðurstöðu og það kostar um hundrað milljónir, öðru hvorum megin við hundrað milljónir.

Hvað gerði ríkisstjórnin fyrir áramótin? Síðastliðin tvö ár hafa 636 forríkir fjármagnseigendur fengið 20 milljarða í skattaívilnanir hjá þessari ríkisstjórn sem hefur kostað ríki og sveitarfélög 8,5 milljarða í tekjutap. Þar vorum við fyrst að tala um peninga. Og hverjir áttu þar í hlut? (Gripið fram í.) Ríkir fjármagnseigendur. (Utanrrh.: Hverjir settu á fjármagnstekjuskatt?)

En þegar kemur að öryrkjunum þá á að skerða, (Gripið fram í.) þá skal skerða, þá skal flutt frv. til þess að skerða litlar bætur sem Hæstiréttur hefur dæmt þeim. (Utanrrh.: Hverjir settu á fjármagnstekjuskattinn?) Það skal liggja mikið við til þess að skerða kjör öryrkja. Svo mikið liggur við að það er flutt sérstakt frv. til að skerða það sem Hæstiréttur hefur dæmt þeim. (Utanrrh.: Hverjir settu á fjármagnstekjuskatt?)

(Forseti (ÍGP): Forseti minnir hæstv. ráðherra og hv. þingmenn á að hér í þingsalnum talar einn í einu.)