2001-01-18 00:22:47# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[24:22]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hélt því fram í ræðu sinni að ríkisstjórnin túlkaði dóm Hæstaréttar eins þröngt og kostur væri og engin þörf væri á að setja lög svo hægt væri að greiða bætur samkvæmt honum.

Dómur Hæstaréttar varðar samkvæmt kröfugerð Öryrkjabandalagsins einungis tilvik 5. mgr. 17. gr., þá öryrkja sem eru í hjúskap með maka sem ekki er öryrki. Stjórnarandstaðan hefur heimtað efndir samkvæmt dómnum og ítrekað sagt að löggjöf þyrfti ekki til. Því spyr ég hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvort henni finnist ekki eðlilegt að þeir öryrkjar sem falla undir 6. og 7. mgr. 17. gr. almannatryggingalaganna, þ.e. þeir öryrkjar sem eru í hjúskap með ellilífeyrisþega eða með öðrum öryrkja, njóti góðs af dómnum jafnt og þeir öryrkjar sem búa með þeim sem ekki er öryrki. Og jafnframt hvort henni sé ljóst að til þess að þeim verði greitt þá þurfi að setja löggjöf sem geri þeim jafnhátt undir höfði og hinum sem dómurinn tekur beinlínis til. Hvort í þessu felist ekki viðurkenning á því að á löggjöf sé þörf svo hægt sé að gera þessum öryrkjum jafnhátt undir höfði burt séð frá því með hverjum þeir búi.