2001-01-18 00:25:31# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[24:25]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Dómur Hæstaréttar lýtur einungis að tilvikum 5. mgr. 17. gr. Stjórnarandstaðan hefur ítrekað gert kröfu um og haldið því fram að ekki sé þörf á að setja nein lög, einungis beri að efna dóminn. 6. og 7. mgr. 17. gr. lúta að öryrkjum. Þær lúta að öryrkja annars vegar sem eru í sambúð með ellilífeyrisþega og hins vegar öryrkja sem er í sambúð með öðrum öryrkja. Dómurinn lítur einungis á öryrkja sem er í sambúð með þeim sem ekki er öryrki.

Spurning mín til hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er sú hvort henni fyndist ekki eðlilegt að aðrir öryrkjar en þeir sem eru í sambúð með þeim sem hefur fulla starfsorku nytu góðs af dómnum og hvort hún væri þá ekki sammála mér í því að til þess að það væri unnt yrði að setja löggjöf og greiða þessum aðilum til að geta gert þeim jafnhátt undir höfði og þeim sem dómurinn beinlínis tekur til. Ellilífeyrisþegar sem hópur voru ekki hér til umræðu.