Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:43:14 (3868)

2001-01-18 10:43:14# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Ég verð að segja það, herra forseti, að svör hæstv. félmrh. hljóta að verða Alþingi mikið áhyggjuefni. Hann boðar hér framhald á því óvissuástandi sem ríkir í húsnæðismálum. Hann segir að enn um sinn verði vaxtahækkun frestað til þeirra aðila sem sjá skjólstæðingum sínu fyrir félagslegu húsnæði. En enn er ekki búið að taka ákvörðun um hvernig komið verður til móts við þessa aðila. Hann talar enn um stofnstyrki eða húsaleigubætur. Eða, eða. Engin svör er að fá fyrir þessa aðila. Þetta svar er þeim og þjóðfélaginu öllu mikið áhyggjuefni. Síðan staðfestir hæstv. félmrh. að vextir á viðbótarlánum verði hækkaðir og þeir færðir upp í 5,7%. Hverjum eru þessi viðbótarlán ætluð? Þau eru ætluð láglaunafólkinu. Málsbætur hæstv. félmrh. eru þær að vissulega séu vextir á húsbréfunum enn þá hærri vegna þess að við þurfum að taka tillit til affallanna, þegar það sé gert séu þessir vextir 6% en ekki rúm 5%. Allt er á sömu bókina lært.

Við skulum heldur ekki gleyma því að til viðbótar þarf fólk að taka lán á okurvöxtum í bönkunum sem iðulega bera um 20% vexti, 200 þús. kr. á ári fyrir hverja milljón. Í utandagskrárumræðu um húsnæðismál sem ég efndi til í desember lýsti hæstv. félmrh. yfir að hann vissi ekki betur en allir hefðu einhvers staðar gistingu. Nú spyr ég: Er það stefna Framsfl. í húsnæðismálum að einhvers staðar hafi allir gistingu, flet til að halla sér á? Ekki er markið sett hátt.