Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:50:44 (3887)

2001-01-18 11:50:44# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við erum að fjalla um stjórnarskrárvarinn einstaklingsrétt öryrkja til lágmarksafkomu sem nú nemur um 51 þús. kr. á mánuði. Þetta er samanlagður grunnlífeyrir og tekjutrygging. Samkvæmt skilningi mínum og okkar er það skýr niðurstaða Hæstaréttar að ríkisstjórninni ásamt stjórnarmeirihlutanum sé ekki heimilt að skerða þessa upphæð vegna tekna maka.

Hæstv. fjmrh. segir hins vegar að það sé sinn skilningur að þeir geti komist upp með þetta, þeim sé heimilt að hafa 7.566 kr. af einstaklingum eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umfjöllunar. Þetta geta ekki verið peningaleg eða efnahagsleg rök sem hér búa að baki vegna þess að við erum að tala um afar lága upphæð, innan við 40 millj. kr. á ári. Það hljóta að vera pólitísk rök sem búa að baki og þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh.: Hver er skýringin á því að Sjálfstfl. og Framsfl. og ríkisstjórnin vill hafa þessa peninga af öryrkjum? Hvers vegna vilja þeir hafa þessa upphæð af öryrkjum? Hver er skýringin?