Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:53:18 (3889)

2001-01-18 11:53:18# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög skýr svör, að þetta sé eðlilegt. Við höfum heyrt það á málflutningi hæstv. ráðherra og öðrum talsmönnum ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að þeir telja að þeir geti komist upp með að skerða kjör öryrkja með þessum hætti, að lagalega sé þeim það heimilt. Við teljum svo ekki vera. Við teljum það brjóta í bága við stjórnarskrá Íslands og úrskurð Hæstaréttar í þessu máli.

Hæstv. fjmrh. segir okkur núna að sér finnist þetta vera eðlilegt frávik. En fólk sem þarf að lifa á þessum krónum horfir á þær upphæðir sem um er að tefla. Þess vegna hefur það fengist staðfest að hæstv. fjmrh. finnst eðlilegt að einstaklingsbundinn réttur öryrkja til afkomu án tillits til tekna maka séu 43 þús. kr. (Forseti hringir.) En mér finnst það furðu sæta. Það hlýtur að koma til umræðu á næstu samkomum Sjálfstfl. að ekki sé minnst á næstu alþingiskosningar.