Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:56:16 (3892)

2001-01-18 11:56:16# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:56]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna söguskoðunar hæstv. fjmrh. þá er mér ljúft að leggja þar orð í belg. Það er alveg hárrétt hjá honum að lagasetningunni í árslok 1993 var ekki ætlað að skerða neitt. Þá voru ekki uppi nein áform um að ganga á rétt öryrkja eða annarra hópa sem höllum fæti standa. Þar var um að ræða formbreytingar enda fóru ekki í gegn í minni tíð sem heilbrrh. reglugerðarsetningar í þá veru sem síðar gerði. Það var ekki fyrr en 1995, í tíð ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl., sem núv. heilbrrh. setti þá reglugerð sem vakti athygli fólks á því að reglugerðarheimildin fór með lögum frá 1993, sem var heldur e kki í áformum þingheims og þau lög voru samþykkt mótatkvæðalaust.

Í millitíðinni var hins vegar komin ný stjórnarskrá, runnið upp góðæri í landinu og í þriðja lagi áttuðu menn sig á því að reglugerðarheimildin var ekki til staðar í gildandi lögum. Mér er það frekar ljúft að staðfesta að í lagasetningunni 1993 fólust engar skerðingar og engin áform um það sem síðar hefur komið daginn.