Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 12:00:12 (3895)

2001-01-18 12:00:12# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að endurtaka það sem ég er búinn að segja hérna um stjórnarskrárbreytinguna. En hvað sem mönnum kann að finnast um hana þá varð hún árið 1995 og getur þess vegna ekki hafa átt við um tímabilið þegar hv. þm. var ráðherra og fjallaði um þessi mál. Hún gilti auðvitað ekkert aftur fyrir sig. Sú framkvæmd sem ráðherrann þáv. kom á með þeim lagabreytingum sem hann fékk hér samþykktar með mínum stuðningi og fleiri í þessu efni var eigi að síður jafnólögleg á árinu 1994. Ég held að það þurfi ekkert að vera að takast á um þetta. Þetta er ósköp einfalt. Það varð hér handvömm í ráðuneytinu, í þinginu að því er þetta varðar. Það má vera að um það hafi verið pólitískur ágreiningur eigi að síður eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Eigi að síður fór þetta mál mótatkvæðalaust í gegnum þingið, ef ég man rétt, á sínum tíma. Þetta er ekki kjarni málsins. En það er hins vegar mjög mikilvægt að hafa þetta í huga vegna þess að menn verða að greina að þetta tímabil frá 1994--1998 og svo árin 1999 og 2000, bæði vegna þess sem kemur síðan eftir það og við erum að lögfesta hérna en líka vegna uppgjörsins og vegna túlkunarinnar á niðurstöðu dómsins og þessa tvíþætta dómsorðs sem ég hef hér margrætt um.