Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 12:02:31 (4015)

2001-01-22 12:02:31# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Af hverju skyldi standa í 48. gr. laganna að aldrei skuli úrskurða lengur en tvö ár aftur í tímann? Vegna þess að við erum að tala um lífeyri. Við erum ekki að tala um kapítal. Ef farið er að kröfu stjórnarandstöðunnar að greiða sjö ár aftur í tímann þarf að greiða 3 millj. kr. í einni eingreiðslu fyrir fólk sem hefur það tiltölulega gott. (Gripið fram í: Segir hver?)

Svo spyr ég: Af hverju stoppum við eftir sjö ár? Af hverju ekki í 29 ár? Ef það er mannréttindabrot aftur til 1994, af hverjum var það ekki mannréttindabrot áður? Eigum við ekki að borga 29 ár aftur í tímann og þá kæmist hámarkstalan upp í 12 millj. (Gripið fram í: Þetta er bara þvæla.) Þá erum við að tala um 12 millj. eða rúmlega það. Ég hef ekki reiknað þetta með dráttarvöxtum.

Varðandi það að bætur séu tryggðar með stjórnarskrá, út af kartöflumálinu, þá eru ofteknir skattar líka stjórnarskrárbrot vegna þess að stjórnarskráin tryggir eignarréttinn ekki síður en bótaréttinn. (Gripið fram í.)