Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 16:21:16 (4198)

2001-01-23 16:21:16# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[16:21]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman gat þess reyndar í andsvari í dag að stjórnarmeirihlutinn væri vísvitandi eða ekki vísvitandi að brjóta stjórnarskrána. Hér er nokkuð mikið mál á ferðinni því það er ljóst að það skiptir máli hvort stjórnarmeirihlutinn er vísvitandi eða ekki vísvitandi að brjóta stjórnarskrána. Og þegar vitnað er í fyrri ræðu hv. þm. Þuríðar Backman kemur fram að hún segir að Alþingi Íslendinga hafi verið kallað saman til þess að lögfesta brot á stjórnarskrá lýðveldisins, til þess að staðfesta brot á mannréttindum, sem þýðir að sjálfsögðu að stjórnarmeirihlutinn hefur verið að þessu vísvitandi. Ég held það sé óhjákvæmilegt annað en að biðja hv. þm. að skýra afstöðu sína til þessa máls vegna þess að það skiptir sköpum í málinu hvort hv. þm. er að saka okkur stjórnarþingmenn um að ganga í málið beinlínis í þeim tilgangi að brjóta stjórnarskrána.