Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:18:07 (4230)

2001-01-23 21:18:07# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:18]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef tekið þátt í umræðum um þetta mál sem hér er til umræðu og m.a. í andsvörum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þar sem ég hef beðið hv. þm. og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar að skýra hvernig þeir finna það út að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sé vísvitandi að reyna að brjóta mannréttindi. Ég hef ítrekað beðið um svör. Mér finnst þau hafa verið fá og vesöl. Aftur á móti hefur ekki bólað neitt á því að menn vildu draga þá ályktun sína til baka þó ekkert hafi verið á bak við hana.

Nú kemur hér bréf, herra forseti, frá forseta Hæstaréttar þar sem hann lýsir því yfir að ekkert í þessu frv. brjóti í bága við stjórnarskrána (Gripið fram í.) og þá skiptir það ekki lengur máli.

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bað um afsökun frá hæstv. forseta þingsins fyrir að hafa frestað þingfundi til að geta komist í mat. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bað um afsökunarbeiðni fyrir því að veitt var matarhlé í þinginu. Forsetinn gerði það fyrir hv. þm. að veita honum einhvers konar afsökunarbeiðni svo honum liði betur. En ég held að þær móðganir sem er búið að láta dynja hér yfir stjórnarmeirihlutann og meiri hluta Alþingis út af frv. um stjórnarskrárbrot og mannréttindabrot séu svo alvarlegar að ég held að allur minni hluti Alþingis ætti að biðjast afsökunar í einu lagi.