Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 22:06:19 (4240)

2001-01-23 22:06:19# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[22:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. kemur hingað og ásakar mig fyrir að hafa farið með köpuryrði í garð forseta Hæstaréttar. (Forsrh.: Nei, árás.) Það eina sem ég sagði um forseta Hæstaréttar sem hægt væri að túlka persónulega er að ég sagði að hann væri vildarvinur ríkisstjórnarinnar. Hingað til hefur það frekar þótt jákvætt í munni ríkisstjórnarinnar.

Það sem skiptir máli í þessu er að fram kom hjá hæstv. forsrh. að honum væri ekki kunnugt um að aðrir dómarar í Hæstrétti væru samþykkir þessu bréfi. Það kemur fram að honum er ekki kunnugt um að haldinn hafi verið dómarafundur. Ég spyr þá, herra forseti: Ef þetta bréf á að verða gagn sem á að taka mark á, er þá ekki rétt að fresta þessari umræðu og fá úr því skorið hvort þetta bréf er sent með fullum vilja alls Hæstaréttar? Það hlýtur að skipta máli, herra forseti, ef hæstv. forsrh. og ef ríkisstjórnin ætla að leggja fram þetta dæmalausa plagg sem þýðingarmikið gagn í málinu.

Það hefur komið fram af hálfu margra þeirra sem talað hafa hér í kvöld, m.a. hv. þm. Kristjáns Pálssonar, að þetta bréf skipti öllu máli. Ég held því hins vegar fram að þetta bréf skipti engu máli. Það eina sem hægt er að lesa úr þessu bréfi er staðfesting á því að skilningur okkar í stjórnarandstöðunni er réttur. Það kemur mér ekki á óvart vegna þess að ég hef leitt að því rök að sérálit tvímenninganna í minni hluta í Hæstarétti feli í sér margar setningar og niðurlagsorð sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en stuðning við okkar skilning, herra forseti.

Það sem skiptir máli og hlýtur að vera eitt af því sem menn þurfa að velta fyrir sér í framhaldinu er að hér er dómsvaldið í reynd að gera tilraun til að hafa afskipti af meðferð okkar, hins háa Alþingis, á þessu máli þó það kunni innan tíðar að koma aftur til kasta dómstólanna. Eru hlutirnir þá ekki komnir á haus, herra forseti?