Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 22:58:59 (4248)

2001-01-23 22:58:59# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[22:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen hóf mál sitt nokkuð skáldlega og sagði að allt orkaði tvímælis þá gert væri og sagt væri. Þegar ég hafði setið og hlýtt á mál þingmannsins um stund fór ég að fá það á tilfinninguna að sérstaklega væri það nú sumt sem orkaði tvímælis þegar sagt væri.

Tilburðir stjórnarliða og hv. þm. þar á meðal til þess að reyna að komast í skjól með frv. ríkisstjórnarinnar af bréfaskriftum við Hæstarétt eru marklausir og á frv. ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði í svari Hæstaréttar. Þessar bréfaskriftir munu fyrst og fremst þykja sögulegar þegar frá líður af öðrum ástæðum og það þeim að þær skyldu yfir höfuð fara fram.

Um hv. þm. Árna Johnsen og málflutning hans að öðru leyti vil ég segja að stjórnarliðið þarf í sjálfu sér ekki mikið á andstæðingum að halda á meðan það á svona liðsmann.