Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:35:28 (4261)

2001-01-23 23:35:28# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:35]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa því í mjög stuttu máli að afstaða mín til þess máls sem hér er til umfjöllunar hefur ekki breyst eftir þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag. Ef eitthvað er hef ég enn styrkst í þeirri trú minni sem ég hef lýst margsinnis áður að ég tel þetta frv. ekki fullnægja þeim dómi sem Hæstiréttur Íslands kvað upp í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun ríkisins.

Margir hafa talað um það í umræðunum og jafnvel borið sig illa undan því í röðum stjórnarliða að mörg stóryrði hafa fallið í þessari umræðu. Menn hafa borið sig mjög illa undan því. Kannski eðlilega. Ég vil grípa niður á tveimur stöðum í ræðu eins hv. þm. svo við stjórnarandstæðingar tökum þátt í því að okkur sé ekki alveg sama hvað sagt er úr þessum ræðustól um okkur sem sitjum úti í sal.

Ég vitna aðeins í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í dag sem ég vil meina að hafi verið hámark þess fúkyrðaflaums sem kann að hafa farið um sali Alþingis í þessari umræðu. Í fyrsta lagi lýsti hv. þm. því yfir að í nál. minni hluta hafi hann hvergi séð meiri vitleysu, meira bull og meiri ósannindi á prenti en hann hefði lesið í því áliti. Hann gat ekki rökstutt hvað í þessu fælist eða hvar ósannindin væru. Sem framsögumaður þessa álits tók ég þessa ásökun og tek hana mjög alvarlega. Þegar menn eru vændir um ósannindi og lygar finnst mér það mjög alvarlegt mál, herra forseti.

Hv. þm. sagði líka, með leyfi forseta: ,,Ekki tókst að halda þeirri hækkun miðað við lægstu laun heldur hljóp hún í gegnum allan launastigann á örfáum mánuðum, jafnvel gegnumrotnir og spilltir bankastjórar Landsbankans voru búnir að fá þessar hækkanir til sín innan örfárra mínútna. Gegnumrotnir.``

Herra forseti. Það væri þess virði ef ekki væri liðið svo langt á kvöldið, og ég veit að hér eru bæði hv. þm. og þeir gestir sem hlýða á þessar umræður örugglega orðnir langþreyttir á því hve hún hefur tafist mikið, en það væri virkilega víti til varnaðar að lesa þessa ræðu frá upphafi til enda, þvílíkur var fúkyrðaflaumurinn, herra forseti.

Ég vildi aðeins koma inn á það bréf sem hér hefur verið til umfjöllunar og þau bréfaskipti sem hv. stjórnarliðar virtust einlæglega trúa að mundu gerbreyta allri stöðu málsins fyrir Alþingi. En ég verð að segja og ég fullyrði að það er algjört einsdæmi í stjórnskipunarsögu þessarar þjóðar. Ég vil meina að það sé algjört einsdæmi í stjórnskipunarsögu vestrænna lýðræðisríkja. Ég held ég geti fullyrt það. Ég hef borið það undir nokkra sem ég tel að þekki vel til. Þá í fyrsta lagi að löggjafarvaldið, höfuð löggjafarvaldsins, forseti Alþingis, óski álits dómsvaldsins, en ég vil taka fram að höfuð þess líka er í þessu tilviki forseti Hæstaréttar. Óskað er eftir áliti Hæstaréttar á máli sem er til meðferðar í þinginu og lögfræðilegri túlkun á máli sem er til meðferðar í löggjafarsamkundunni. Það er það sem gerist í dag að forseti Alþingis óskar eftir áliti á þeirri túlkun sem hér hefur verið deilt um.

Ég held að líka sé algert einsdæmi í stjórnskipunarsögu þessarar þjóðar og lýðræðisþjóða yfir höfuð að dómsvaldið eða öllu heldur forseti Hæstaréttar taki afstöðu til dóms sem hefur verið kveðinn upp í Hæstarétti, þ.e. túlki eigin dóm. Það sem er kannski það allra merkilegasta í málinu er að hann túlki dóm sem hann var í minni hluta í og var andsnúinn við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Bréfaskiptin, herra forseti, vekja einfaldlega upp svo margar spurningar að þau eru hreint með ólíkindum. Eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom ítarlega inn á áðan vekja þau mann virkilega til umhugsunar um þrígreiningu ríkisvaldsins og hvers virði hún er. Þau hvetja mann til að rifja upp hvers vegna þessari þrígreiningu ríkisvaldsins var komið á í upphafi. Það var einmitt til þess að tempra ríkisvaldið gagnvart borgurunum. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að hver þessara greina ríkisvaldsins starfi sem óháðust hinum. Eða muna menn ekki umræðuna um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði sem við vorum rekin til að fara í gegnum fyrir einhverjum árum vegna þess að réttarfar okkar stóðst ekki þá mannréttindasáttmála sem við höfðum undirgengist?

Ég er þeirrar skoðunar að bréfaskiptin séu mjög alvarlegur atburður í sögu íslensks lýðræðis og ég held að þau eigi eftir að draga mikinn dilk á eftir sér og eigi eftir að verða umfjöllunarefni á meðal þeirra sem fjalla um og velta fyrir sér stjórnskipun og lýðræði.

Ég vil líka halda áfram að velta upp spurningum um það hvaða áhrif þessi bréfaskipti hafa. Þá skulum við bara tala um bréf Garðars Gíslasonar, forseta Hæstaréttar. Hvaða áhrif hefur bréf Garðars Gíslasonar á hugsanlegt framhald málsins fyrir dómstólum, þ.e. fyrir Hæstarétti? Við vitum að það er réttur borgaranna að fá að bera upp mál sín í ágreiningsmálum fyrir óvilhallan dómstól og í þessu tilviki ætti það að vera Hæstiréttur. Hefur Garðar Gíslason bundið hendur alls réttarins í hugsanlegum dómsmálum sem koma fyrir dóminn? Ég veit ekki betur en hv. stjórnarliðar hafi beinlínis verið að vísa þessum hópi á áframhaldandi málsmeðferð fyrir dómstólum ef þeir telja á sér brotið. Er það þá ekki svo að a.m.k. Garðar Gíslason er á einhvern hátt að binda hendur dómsins í þessu máli? Hann hefur túlkað dóm í viðurkenningarmáli sem féll fyrir Hæstarétti vitandi að það er mjög líklegt. Þá ætla ég ekki að fara út í umræðu um hvort þetta bréf þýði eitthvað, hvernig megi skilja það, menn eru á mörgum málum um hvorum málsaðilanum bréfið sé í hag. En er Garðar Gíslason búinn að binda hendur alls réttarins með því að gefa út einhvers konar forúrskurð í málinu? Hvert á þetta fólk að leita, herra forseti? Hvert á þetta fólk að leita eftir að forseti Hæstaréttar hefur gefið út hvað þessi dómur þýddi? Er þá einhver þýðing fyrir þetta fólk að leita til Hæstaréttar eða til dómstóla um það hvað þessi viðurkenningardómur fól nákvæmlega í sér?

Er það yfirleitt eðlileg málsmeðferð eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti á að Hæstiréttur sé að gefa út lögfræðiálit eða forseti Hæstaréttar eins og er í þessu tilviki? Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er ekki skrifað undir þetta fyrir hönd Hæstaréttar. Það stendur bara Garðar Gíslason undir þessu bréfi. Hann er forseti Hæstaréttar og ég er a.m.k. ekki sannfærð um að haldinn hafi verið dómarafundur um þetta mál og Hæstiréttur hafi í heild sinni tekið um það afstöðu að taka þátt í lögfræðitúlkun á eigin dómi. Þá er eitthvað mikið að, herra forseti. Ég verð að segja það.

Ég lýsi yfir áhyggjum af því sem hér hefur gerst, herra forseti, og ég held að þetta sé háalvarlegt mál, a.m.k. fyrir forseta Hæstaréttar. Ég tel að mjög gagnlegt væri fyrir Alþingi að fá úr því skorið hvort þetta bréf væri skrifað í nafni allra dómara í Hæstarétti Íslands, hvort um þetta mál hafi verið fjallað á dómarafundi og hvort allir dómarar í Hæstarétti Íslands hafi fallist á að túlka á þennan hátt eigin dóm. Ef það hefur gerst, herra forseti, eru stórtíðindi að gerast í íslenskri stjórnskipunarsögu. Þá eru stórtíðindi að gerast ef Hæstiréttur er farinn að túlka og gefa út lögfræðiálit um eigin dóma. Ég tel, herra forseti, og ítreka það enn og aftur að ég vil að fengið sé úr því skorið nákvæmlega hverjir það eru sem standa að þessu bréfi og hvort það sé gefið út í nafni alls Hæstaréttar. Ef svo er er það mjög alvarlegt mál fyrir þann hóp öryrkja og lífeyrisþega sem telur sig eins og aðrir borgarar landsins eiga rétt á því að bera mál sín og ágreiningsefni undir óvilhallan dómstól og sjálfstæðan og sem gefur ekki út lögfræðiálit um dóma sem hafa verið kveðnir upp til Alþingis sem er að fjalla um þá dóma.

Þetta vekur upp spurningar um réttaröryggi borgaranna, herra forseti, og ég held að mjög mikilvægt sé að fá úr þessu skorið. En ég ítreka þann skilning minn að hvað varðar meðferð löggjafarvaldsins að öðru leyti á þessu máli tel ég að þetta bréf Garðars Gíslasonar breyti nákvæmlega engu þar um. Við erum jafneiðvarin af stjórnarskránni, við erum jafnbundin af sannfæringu okkar, hv. þm., og við þurfum að taka sjálfstæða afstöðu til þessa máls. Það er ekki forseti Hæstaréttar sem ber ábyrgð á því hvernig við greiðum atkvæði enda hefur honum ekki verið falið það hlutverk. Það mætti þá með þessu fyrirkomulagi leggja það til, ég vil minna á það að við, nokkrir hv. þm., höfum lagt fram frv. um það, að sett verði á stofn lagaráð til að fara yfir það áður en frumvörp eru lögð fyrir Alþingi hvort þau standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Það fyrirkomulag tíðkast mjög víða í nágrannalöndunum og mætti þá með sama hætti láta Hæstarétt gera það, láta hann segja fyrir fram hvernig eigi að túlka lögin á meðan þau eru í frumvarpsformi.

Herra forseti. Ég held að allir hljóti að sjá, hvað sem þeim svo kann að finnast um hvernig túlka beri þetta bréf, að þetta bréf og þessi bréfaskipti á milli forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar eru alvarlegt mál fyrir lýðræðið og lýðræðisþróun í landinu.