2001-01-24 00:05:36# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[24:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu forseta Alþingis og forsn. að taka ákvörðun um hvernig forsn. bregst við ákveðnum aðstæðum. Ég held að hv. þm. geti verið alveg sammála um að hér er um mjög óvenjulegar aðstæður að ræða. Og forsn. þingsins tekur þessa ákvörðun. Ég tel að forsn. þingsins hafi vissulega tekið óvenjulega ákvörðun, en á margan hátt mjög skiljanlega. Og forseti Hæstaréttar fyrir hönd Hæstaréttar hefur svarað og það hlýtur að bera vott um að forseti Hæstaréttar fyrir hönd Hæstaréttar hafi talið að hér hafi verið um mjög óvenjulegar aðstæður að ræða. Ég tel að málið verði skoðað í því ljósi. Hins vegar er ég sammála hv. þm. um að áreiðanlega eigi eftir að verða mikil umræða um þetta mál. En eitt má vera ljóst, sem m.a. hefur verið kvartað yfir oft á hv. Alþingi, að Alþingi hefur ekki mörg úrræði við þessar aðstæður. Við höfum ekki stjórnlagadómstól. Og í ljósi þess hvað hefur gengið á á hv. Alþingi, ekki bara í þessu máli heldur líka öðru máli sem tengdist kvótanum, þá er hér um ákveðna réttarþróun að ræða sem ég ætla ekki að leggja neinn dóm á á þessari nóttu. En mér finnst mjög eðlilegt að forsn. þingsins bregðist við þessum aðstæðum.