2001-01-24 00:09:01# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[24:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki með nokkru móti hvernig réttaröryggi borgaranna er ógnað í þessu máli. Hins vegar er um óvenjulegar aðstæður að ræða. En ég man ekki eftir því á Alþingi að áður hafi komið fram jafneindregin skoðun og í þessu máli að það sé verið að brjóta stjórnarskrá nema að því er varðaði málið í sambandi við Valdimarsdóminn. (Gripið fram í: EES-málið.) (Gripið fram í: NATO.) Ja, EES-málið. Þá kom fram að það kynni að vera í andstöðu við stjórnarskrá. Hins vegar held ég að því hafi ekki verið haldið jafnstíft fram í því máli að það væri augljóst að verið væri að brjóta stjórnarskrána. Það var almennt talað þannig í því máli, eins og ég man þá umræðu og var þá í stjórnarandstöðu, að það léki vafi á um að málið stæðist stjórnarskrá. En ég man ekki eftir því að þáverandi stjórnarandstaða sem ég var í hafi haldið því jafnstíft fram að verið væri að brjóta stjórnarskrána.