2001-01-24 00:24:50# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[24:24]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hæstiréttur felldi þann dóm 19. des. sl. að ekki væri tekið nægilegt tillit til réttar öryrkja sem einstaklings til að framfæra fjölskyldu sína með grunnörorkulífeyri að upphæð 18 þús. kr. á mánuði, þessi upphæð væri of lág.

Sem einstaklingshyggjumaður fagna ég aukinni áherslu á einstaklinginn sem felst í dómi þessum. Hins vegar finnst mér sú afleiðing dómsins siðferðilega vafasöm að stórhækka bætur til fjölskyldna með góðar fjölskyldutekjur, bætur sem yrðu fjármagnaðar með sköttum allra landsmanna, líka fjölskyldna sem hafa miklu lægri fjölskyldutekjur. Sérstaklega er ég þó lítið hrifinn af þeirri afleiðingu dómsins að greiða af almannafé eingreiðslu, jafnvel yfir 1,5 millj. á mann, til fjölskyldna sem eru með góðar fjölskyldutekjur. Finnst mér það ekki gott, hvorki félagslega né siðferðilega. Ég hef þá sannfæringu að frv. fullnægi dómi Hæstaréttar. Ég segi já.