Bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:41:34 (4305)

2001-02-08 10:41:34# 126. lþ. 66.92 fundur 271#B bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:41]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að kynna bókun sem ég gerði vegna þessa máls á forsætisnefndarfundi í gær og bókunin hljóðar svo:

,,Boðaður skyndifundur forsætisnefndar þriðjudaginn 23. janúar sl. þar sem kynnt voru drög að bréfi til forseta Hæstaréttar var að mínu mati illa undirbúin og samræmist ekki þeim verklagsreglum sem forsætisnefnd ætti að viðhafa. Til fundarins var ekki boðað með dagskrá. Forsætisnefnd var ekki fullskipuð og aðeins tveir af fjórum embættismönnum sem sitja fundi nefndarinnar voru mættir.

Þar sem mikilvægt mál var til umfjöllunar hefði einnig átt að freista þess að ná símasambandi við þá forsætisnefndarmenn sem fjarstaddir voru. Ég tel mikilvægt að forsætisnefnd setji sér verklagsreglur um fundi sína þannig að traust geti ríkt í framtíðinni.``