Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:55:52 (4310)

2001-02-08 10:55:52# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:55]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Á síðustu dögum hefur ýmislegt komið fram í dagsljósið hvað varðar meðferð persónulegra upplýsinga um einstaklinga. Mig setur hljóða undir þeim fréttum sem hafa verið í öllum fjölmiðlum. Fleiri spurningar vakna en fást svör við í fljótu bragði.

Fyrir það fyrsta: Hvernig má það vera að einkafyrirtæki geti haft slíkan aðgang að opinberu fyrirtæki sem heldur skrár um afar viðkvæmar persónulegar upplýsingar um einstaklinga? Byggist þetta á því að maður þekki mann? Hvernig er þekking starfsmanna á lögum um persónuvernd og hvernig hefur verið staðið að kynningu þeirra?

Þetta er afar mikilvægt mál sem leiðir hugann að því hvað megi skrá og hvað ekki. Hvað má geyma og hvað ekki? Hversu nána skrá má halda um einstaklinga sem ekki hafa verið ákærðir og munu e.t.v. aldrei verða ákærðir? Hversu stóran vinahóp getur tollur og lögregla skráð og gefið upplýsingar um? Er nóg að vera vinur einhvers til að teljast grunaður og hver er staða hins grunaða? Veit hann um slíka skráningu og veit hann að veittar eru um hann upplýsingar eins og dæmi hafa verið um á síðustu dögum? Síðast en ekki síst: Hvað má skrá og hvernig? Hversu lengi má geyma upplýsingar og til hvers á að nota þær?

Fyrir mér og mörgum öðrum er hér um grafalvarlegt mál að ræða. Kannski er best að það skyldi afhjúpað, að ég tali nú ekki um ef slíkt hefur viðgengist um einhvern tíma. Hvernig er farið með aðrar upplýsingar sem safnað er hjá hinum ýmsu opinberu stofnunum sem fara með og vinna með afar viðkvæmar upplýsingar? Við höfum hér tiltölulega ný lög um persónuvernd sem eru um margt afar gott tæki og löngu tímbær. Þar er ekki hvað síst rætt um hvernig á að koma í veg fyrir söfnun upplýsinga um einstaklinga vegna hættu á misnotkun, það er eitt af kjarnaatriðunum í lögunum.

Herra forseti. Krafan hlýtur að vera sú að þegar sé með festu og alvöru tekið á þessu máli því að það getur ekki verið svo að kunningjasamfélagið sé lögum æðra.